Allt er vænt sem vel er grænt (duh) Nú var ég að enda við að fá í hendurnar nýjustu afurð amerísku nördarokkaranna í Weezer og datt í hug að láta ljós mitt skína og deila áliti mínu með ykkur.

Ég er tiltölulega nýlegur Weezer aðdáandi, hafði náttúrulega heyrt í þeim ógreinilega í gegnum áfengisvímuna í hinum ýmsustu partíum á menntaskólaárunum en hafði aldrei hlustað á þá af viti fyrr en í fyrra. Þá sá ég snillingana í Deftones taka Say it ain't so á tónleikum, sem rokkaði það feitt að ég ákvað að nú væri hreinlega nóg komið, og tók til við að hlusta á þá af kappi þegar heim var komið. Fyrst varð ég mér út um Pinkerton, aðra breiðskífu þeirra og alveg kolféll fyrir henni. Hvert snilldarlagið tekur við af öðru, Tired of sex, Why bother? og The Good Life eru uppáhöld. Upptakan er alveg skemmtilega hrá (I like it rough, *voff*) og er óhætt að segja að þessi skífa rokki feitt.

Síðan tók “blái diskurinn” við, en svo er fyrsta platan þeirra kölluð á fagmáli þó hún sé í rauninni bara samnefnd hljómsveitinni. Hún er svona öllu fágaðri en lögin eru frábær sem endranær. Ekki bara smáskífulögin sem flestir hafa heyrt, heldur er varla dauður blettur. Grípandi rokkpopp í heimsklassa.

Pinkerton fékk víst ekkert svo góðar viðtökur í heimalandinu, seldist í “bara” 500.00 eintökum og náði ekki að fanga MTV-hópinn sem lapti upp fyrri plötuna. Mér skilst að þeir hafi farið á frekar mikinn bömmer út af því, lagasmiðurinn Rivers Cuomo sneri aftur til Harvard þar sem hann les ensku og hinir sneru sér að hinum ýmsustu hliðarverkefnum. Endaði reyndar með því að bassaleikarinn hætti til að einbeita sér að einhverju hliðarbandi sem ég hef aldrei heyrt í. En nú eru sumsagt kumpánarnir snúnir aftur eftir 5 ára fjarveru með nýjan bassaplokkara.

Platan þessi er eins og fyrsti diskurinn samnefnd plötunni, en nú er liturinn orðinn grænn, þannig að hún hefur nú þegar óopinberlega hlotið nafnið “græna platan”. Ég fékk hana senda í pósti í morgun, skellti henni í spilarann og hlammaði mér niður til áhlustunar. Ég var ekki fyrr sestur niður en platan var búin. Eh? hugsaði ég og gáði á geislaspilarann. Jújú mikið rétt, ekkert í gangi. Þá fór ég að kanna málið og komst að því að platan er ekki nema 28 mínútur og 36 sekúndur á lengd. ÞAÐ ER ALLTOF STUTT! Platan inniheldur 10 lög, og mjög fá þeirra ná því að vera 3 mínútur að lengd. Maður gæti nú haldið að Rivers hefði náð að fylla aðeins betur út í löggildu plötulengdina á þessum 5 árum. En, það er svosem ekki magnið sem skiptir máli heldur gæðin.

Og þá gæti einhver forvitinn lesandinn spurt sig: Hvað með gæðin? Er eitthvað varið í þetta? Jú svo sannarlega getur maður svosem sagt að Rivers hafi alls ekki glatað hæfileikanum til að semja grípandi rokklög sem koma sér vel fyrir í hausnum á manni og hreinlega neita að fara. Að vísu festast sum lögin fljótar en önnur. Eftir fyrsta lagið Don't let go, sem er alveg prýðilegt, kemur tríó af lögum sem er með því besta sem þeir hafa gefið frá sér. Photograph (frekar surfað lag), Hash pipe (eða **** pipe eins og það er víst kallað á MTV) og Island in the sun (hiphip). Síðan koma 5 lög sem eru kannski ekki eins beinir slagarar, en ég hef á tilfinningunni að þau eigi eftir að verða alveg jafn mögnuð og hin eftir fleiri hlustanir. Platan endar svo á einu mest hrífandi lagi sem ég hef á ævi minni heyrt. Ég held að ég hafi aldrei á ævinni getað tekið einn texta auðveldlega til mín og í þessu lagi (hvernig segir maður annars “relate to” á íslensku?), af ástæðum sem ég nenni ekki að nefna hér. Þessi texti er náttúrulega korní as hell, en það er bara eitthvað við hann. Og lagið sjálft er óendanlega flott.

Ef það er eitthvað sem maður getur kvartað undan (svona fyrir utan lengdina) þá er það upptakan. Þeir hafa tekið aftur sama gaurinn og var upptökustjóri á bláa disknum. Það er í góðu lagi í sjálfu sér, en ég sakna samt svolítið hráa hljóðsins á Pinkerton. Síðan finnst mér þeir ofnota svolítið tvíröddun (eða hvaðsemþettanúheitir) í sumum lögunum (þó það sé eiginlega vörumerki þeirra).

Það er sumsagt pottþétt hægt að mæla með þessarri skífu við hvern þann sem hefur gaman af grípandi gítarrokki með svolítið angurværum (þ.e. á mörkunum að vera væmnum) textum.

p.s. Svo það skapist nú örugglega einhver umræða í kjölfar þessarar umfjöllunar þá vil ég bara enda með að segja að Weezer eru besta hljómsveit í heimi, allt annað sökkar feitt og ef þú hefur ekki gaman af þeim þá ertu nautheimskur hálfviti með skemmda gúrku í rassgatinu. Þakka lesturinn.
——————————