Af tónlistarhátíðum erlendum Nú er útihátíðavertíðin að fara að ganga í garð, og ekki seinna vænna en að fara að athuga hvað er í boði nú þegar allar stóru hátíðirnar eru búnar að bóka flestöll af stærri böndunum sem koma eiga fram.

Nýlega komu fram hverjir verða að spila á Reading/Leeds hátíðunum í Englandi en þær fara fram síðustu helgina í ágúst. Ég verð nú að segja að ég er mest spenntur fyrir þeim hátíðum af því sem er í boði, sérstaklega eftir síðustu tilkynningar um hljómsveitir sem eiga að spila. Svona það sem ég er mest spenntur fyrir er:

System of a down - Hef aldrei farið á þá áður, og ég held að það gæti orðið algjört himnaríki! Verst að nýja platan verður sennilega ekki komin út þannig að maður getur varla trallað með.. en þetta verður þó samt ekki slæm kynning á henni!

Weezer - Græna platan þeirra kemur út nú á mánudaginn, og ef það er eitthvað að marka hljóðbútana sem ég hef heyrt af henni þá er hún mergjuð.

Ash - Voru að gefa út fína plötu í síðasta mánuði.

Marilyn Manson - F**kkóngurinn getur varla klikkað! Ég fór á tónleika með þeim nú í febrúar, og annað eins sjó hef ég aldrei séð. Þessir menn kunna að rokka, og það feitt.

Þessar fjórar eru svona helstu númerin sem ég algerlega yrði að sjá, en síðan eru fleiri bönd sem yrði gaman að sjá. Þar á meðal My Vitriol (bresk grúppa, voru að gefa út fína plötu fyrr í vor. Hafa verið spiluð á RadíóX), Feeder (til að sjá elsta stöffið þeirra), Queens of the Stone Age, gamla Pixies-hetjan Frank Black, Iggy Pop og Supergrass.

Aðrir stórir sem eru að spila (en ég myndi ekki gráta þó ég missti af) eru Green Day, Travis, Eminem, Manics, PJ Harvey, Mogwai og Fun Lovin' Criminals.

Ég fór á hátíðina í Leeds í fyrra, og ég get alveg mælt með þeirri hátíð allavega. Að vísu var alveg sjúklega dýr og crappy maturinn sem var seldur og bjórinn ekkert sérstakur.. en tónlistin bætti það upp :=). Það rigndi næstumþví alla helgina og allt var orðið að einu drullusvaði í lokin, og þá kom það sér sko vel að hafa komið við í Hagkaup áður en farið var út og verslað gúmmístígvél! Það voru ekki margir sem voru eins forsjálir og ég ;=). Síðan endaði hátíðin með stórum bálkesti gerðum úr plastklósettbásum (lyktin var góð) og þurfti óeirðalögreglu til að splitta liðinu. Er þetta rokk eða hvað? ;=) Hún er að vísu á svo asnalegum tíma að það er ekki víst að ég komist í ár, en ég mun svo sannarlega reyna.

Nú er þetta reyndar orðið alveg nógu langt, en helstu keppinautarnir við Leeds/Reading eru Hróarskelda (þó að Deftones eru í rauninni eina bandið sem mig langar virkilega að sjá þar) og Hultsfred hátíðin í Svíþjóð sem ábyggilega fáir hafa heyrt minnst á. Þar eru m.a. Limp Bizkit (ógurlegur fögnuður brýst út), Weezer, Ash og fleiri.

Þakka lesturinn! Nú væri gaman að vita hvurt ykkur langar!
——————————