Það kemur ekki oft fyrir í lífinu að maður gerir hluti sem maður skilur ekki alveg af hverju maður er að gera, en svo gerast frábærir hlutir í kjölfarið og þú þakkar hverju sem það var sem fékk þig til þess. Einhver eðlisávísun sem þú fylgir án þess að hugsa rökrétt.

Daginn sem miðasalan á Damien Rice fór fram hafði ég og Valdís, kærastan mín, stillt vekjaraklukkur til að hringja fyrir hádegi því við ætluðum að kaupa okkur miða ásamt tveimur vinkonum hennar. Þegar við vöknuðum var okkur svo tilkynnt að það hefði selst upp á 20 mínútum.

Ég hef ekki hlustað neitt sérstaklega mikið á Damien Rice, á ekki diskinn en hef samt skrifað nokkur lög með honum á diska og svoleiðis. Mig langaði samt mjög mikið að fara, líka því að enginn sem ég þekki hélt vatni yfir síðustu tónleikum hans.

Eftir að hafa heimsótt ömmu mína og nýfædda frænku með bræðrum mínum hringdi Valdís í mig og spurði hvort við bræðurnir gætum ekki sótt hana í vinnuna, hana langaði að hitta mig aðeins (þó mamma hennar hafi verið þarna til að skutla henni heim (mikilvægur punktur fyrir heildarhvatvísi/tilviljana sem leiddi til þess að ég fór á þessa tónleika)

Við gerðum það og þegar við keyrðum niður laugaveginn fór Valdís að tala um að vinkonur hennar hefðu náð að redda sér miðum á Damien Rice með því að setja upp auglýsingu í MH. “Eigum við ekki að reyna eitthvað svoleiðis?” “Ég efast um að það muni virka þar sem tónleikarnir eru byrjaðir” (þá var klukkan að verða 10)

Við þá uppgötvun bað ég bróðir minn að henda mér út í von um að finna einhvern fyrir utan sem vantaði að losa sig við miða. Þetta gerði ég af hvatvísi einni saman, í óþökk Valdísar sem taldi það vonlaust. Ég dró hana samt með mér að nasa en þar var enginn fyrir utan.

Þá fór ég inn og spurði manninn í afgreiðslunni hvort hann vissi nokkuð til þess að einhver hefði verið að reyna að selja miðann sinn. Hann tók þá upp einhver umslög og þar efst var umslag merkt “Julia Stiles”. Ég spurði þá (í gríni) hvort ég mætti ekki bara fá miðann hennar Juliu Stiles.“ ”Jú… ég get alveg selt þér hann.“ ”Í alvöru?? en… ég þarf eiginlega tvo..?“ ”jájá… ég get selt þér tvo“

Sigri fagnandi hljóp ég út og náði í Valdísi sem beið fyrir utan, bölvandi yfir að ég skildi hafa dregið hana úr bílnum og út í kuldann. Hún fyrirgaf mér og við hlupum inn rétt í þann mund er Damien Rice steig á svið.

———Tónleikarnir————

Damien Rice stóð fyrst einn á sviðinu og spilaði lag sem ég hreinlega man ekki hvað var en ég man samt að ég þekkti það. Það var virkilega flott.

Síðan steig Lisa Hannigan upp á svið með spútnikklega húfu og hóf að syngja bakraddir. Þvílík söngkona, vá, ég átti ekki orð á köflum. Svona óaðfinnanlegan söng hef ég aldrei heyrt á neinum tónleikum.

Þau renndu í gegnum helstu lögin af O, Amie, The Blower's daughter, Delicate (eitt af mínum uppáhalds lögum) og tóku nokkur óþekktari lög á milli. Það er svosem lítið sem ég get sagt um einlægni Damien Rice og það hvernig hann lifir sig inn í tónlistina sem ekki hefur verið sagt áður, en það var magnað að hlusta á það ”berum eyrum“.

Ég missti reyndar af upphitun Láru sem hefði verið gaman að sjá, ég reyndi einhverntíman við þessa stúlku á fylliríi á kaffibarnum í sumar. Það virtist ganga ágætlega þar til hún komst að því að ég er 19 ára… þá sagði hún að ég væri meira fyrir litlu systir sína sem er 17…

Aftur að hvatvísinni, Damien Rice sagði áhorfendum söguna af því þegar hann og George, vinur hans sátu að sumbli í íbúð í Dublin og George minntist á Ísland. Þá sagði Damien að hann hefði spilað þar og það væri frábær staður. Þá stakk George upp á því að þeir myndu skella sér í frí til Íslands. Jafnvel að henda upp tónleikum í leiðinni. Í hvatvísi sinni sendi hann tónleikahaldara hér sms og þetta varð að veruleika.

Hápunktarnir voru fjölmargir, á ákveðnum kafla spurði hann hvað áhorfendur vildu heyra því þau væru ekki með neinn set-lista. Þá langaði mig pínu að biðja um Hallelujah eftir Leonard Cohen (þó mun magnaðra í flutningi Jeff Buckley, líka flott með Rufus Wainwright) Þar sem ég hugsaði með mér að það myndi passa ótrúlega vel við og mig myndi langa að heyra hvernig flutningur þeirra tveggja á því kæmi út.

Ég gerði það ekki af þeirri einföldu ástæðu að ég taldi ekki nokkrar líkur á því að hann myndi gera það. Það hafa svo margir koverað það og hann segir ”hallelujah“ í delicate. Ég hélt að þar með væri guð nægilega ákallaður á einum tónleikum. Þess í stað gólaði einhver Cold Water sem hann tók eftir að hafa farið fram á að ljósin yrðu sett í hæfilega stillingu, dimm og ”seiðandi“ (?).

Tveimur lögum síðar fór hann, óumbeðinn af mér og spilaði Hallelujah. Það var ótrúleg tilfinning, eitthvað sem ég átti alls ekki von á og fannst eins og hann hefði verið að lesa hugsanir mínar. (fékk reyndar að vita eftir á að hann hefði líka tekið þetta á fyrri tónleikunum… samt!)

Það var frábært hvernig Damien náði að skapa vinalegt og afslappað andrúmsloft, sagði áhorfendum sögur og spilaði nokkur svona hálf djók lög, skipti milli kovera af lögum. Það dró samt aldrei úr fagmannleika flutningsins sem var alltaf til fyrirmyndar. Hann var einfaldlega í fríi að njóta þess að gera það sem hann elskar mest. Þau skáluðu í rauðvín (held ég) og fengu sér sígarettu og maður sá að þau nutu þessa tónleika alveg jafn vel og áhorfendur.

Þau spiluðu afmælissönginn fyrir einhverja Hjördísi (eða var það nokkuð Hjörtur…) á íslensku, Glory Box með Portishead (Give me a Reason to love you) og fléttuðu inn í það Babe I'm gonna leave you með Led Zeppelin.


Eftir að hann kvaddi í seinna skiptið og ljósin kviknuðu var smá hluti af mér svekktur yfir því að þau hefðu ekki tekið Cannonball. En viti menn, þá stigu þau aftur á svið, ljósin slökknuðu á ný og Damien sló upphafsgripin í Cannonball sem Lisa söng. Þau enduðu svo á a cappella útgáfu af lagi sem ég vissi það eitt að mér þætti geðveikt flott og að ég hefði séð það í einhverju eftirminnilegu atriði í bíómynd. (Oh Lord let's go down…) gott ef það var ekki í ”oh brother where art thou“ en ef einhver veit betur eru leiðréttingar velkomnar.

Þetta var allt mögnuð upplifun, mér leið eins og gæs stóran part tónleikanna og ég þakka hverju sem það var sem leiddi mig á þessa tónleika. Þá bestu sem ég hef nokkurn tíman farið á.

Þó svo ég hafi farið tvisvar á tónleika með minni uppáhaldshljómsveit til margra ára, Placebo og hafi verið á mögnuðum tónleikum með Blonde Redhead nokkrum dögum áður. Þetta sló allt út. Þetta auka ”eitthvað" sem gerir tónleika að lífsreynslu, ekki bara tónleikum og er ekki hægt að setja fingur á.

Húrra er orð sem er notað allt of sjaldan (hversu sjaldan gefur maður t.d. einhverjum þrefalt húrra í dag)

Ég vil því segja húrra fyrir þeirri hvatvísi er lét Valdísi beila á móður sinni og fá mig í bíltúr, húrra fyrir þeirri hvatvísi sem lét mig draga hana úr þessum bíltúr og húrra fyrir hvatvísi Damien Rice og Georgs að ákveða að skella sér til Íslands. Semsagt… þrefalt húrra fyrir þessum frábæru tónleikum og ég þakka fyrir mig.