Green Day.... ótrúlega góðir Kaliforníupönkaranir í Green Day senda frá sér nýja breiðskífu þann 21. september n.k. Fjögur ár eru liðin síðan síðasta afurð þeirra, Warning, leit dagsins ljós, að vísu var gefinn út diskurinn Shenanigans árið 2002 en á honum var safn B-hliða og tvö ný lög.

Æskuvinirnir Billie Joe Armstrong (gítar,söngur) og Mike Dirnt (bassi) stofnuðu hljómsveitina Sweet Children árið 1986, þá 14 ára gamlir.

Árið 1989 höfðu þeir bætt við trommaranum Al Sobrante og breytt nafninu í Green Day. Það ár gáfu þeir út sína fyrstu EP plötu, 1000 Hours, meðan þeir voru enn í gaggó, en fyrsta LP platan, 39/Smooth, kom út 1990. Stuttu eftir útgáfu hennar hætti Al Sobrante og Tré Cool tók við á trommunum. Önnur LP platan, Kerplunk! kom síðan út 1991 og svo Dookie 1994, en það ár urðu Green Day óhemju vinsælir. Eftirminnileg frammistaða þeirra á Woodstock 94 átti þar eflaust stóran þátt, en þeir “stálu showinu” eins og sagt er í bransanum og fóru m.a. í leðjukast við áhorfendur.

Áður en Green Day gáfu út Dookie höfðu þeir spilað vítt og breitt um Bandaríkin og áttu mikið “underground” fylgi, sérstaklega í Kaliforníu, en hluti af þeim áhangendum sneri við þeim baki þegar þeim bauðst plötusamningur hjá stóru fyrirtæki. Strákarnir létu sér þó fátt um finnast og héldu áfram á sinni braut. Þeir hafa unnið sér inn vinsældir sínar með mikilli vinnu og þrotlausum hljómleikaferðum, auk þess að gefa út fantagóðar plötur. Þeir þykja ein besta live-hljómsveit í rokk/pönk heiminum, og Billie Joe er sviðsmaður af Guðs náð og nær áhorfendum algjörlega á sitt vald. Þeir eru þekktir fyrir góðan húmor og gera jafn mikið grín að sjálfum sér og öðrum. Til dæmis er orðið Dookie slangur yfir hundaskít og það eru ekki margar hljómsveitir sem láta slík skífunöfn koma sér á toppinn.

Þeir unnu til Grammy verðlauna fyrir Dookie, en sú plata seldist í 10 milljónum eintaka í Bandaríkjunum einum. Meðal þekktra laga af plötunni eru Basket Case, Longview, When I Come Around og Welcome To Paradise.

Rúmu ári eftir útkomu Dookie, gaf hljómsveitin út sína næstu plötu, Insomniac. Sú var heldur hrárri og aggressívari en fyrirrennarinn, enda sumir meðlima hljómsveitarinnar að ganga í gegnum erfitt tímabil persónulega. Þeir tóku sér lengri tíma í undirbúning næstu plötu, Nimrod, sem að margra mati er þeirra besta. Nimrod kom út árið 1997 og þekktasta lagið af henni er líklega Good Riddance (Time of your life), ballaða sem m.a. var notuð í lokaþætti Seinfeld sjónvarpsþáttanna.

Næsta plata, Warning, kom út árið 2000 og þar kvað við nokkuð nýjan tón, og hljómurinn var heldur mýkri heldur en áður, enda urðu sumir aðdáendur fúlir yfir því að pönkhljóminn vantaði. Bestu lögin af þeirri plötu eru að mínu mati Warning, Waiting, Church on Sunday og Minority og einnig hýsti sú plata aðra fallega ballöðu, Macy’s Day Parade.

Nýja platan heitir American Idiot, og er eins og nafnið gefur til kynna, svokölluð concept plata, um ástand mála í Bandaríkjunum í dag. Þeir félagar eru mjög á móti Gogga Bush og Íraksstríðinu og einnig deila þeir almennt á amerískt samfélag, sem þeim finnst vera stjórnað af fjölmiðlum. Þeir hafa sagt að nýja platan sé einskonar “rokkópera” þar sem lögin tengjast innbyrðis og segja ákveðna sögu.

Green Day eru örlátir menn og þegar má finna mp3 skrár með mörgum lögum af plötunni, auk myndbandsins við American Idiot, sem er alveg frábært.
Hvet ykkur til að kynna ykkur málið, til dæmis á

http://www.greendayauthority.com/punk.shtml
eða http://www.greenday.net/

Góðar stundir!