Staind Ég hef því miður ekki séð neina grein um þessa hljómsveit á þessari síðu þannig að mér fannst alveg tilvalið að ég mundi gera eina grein um þessa frábæru hljómsveit. Ég ætla að skrifa smá yfirlit um diskana og flétta sögu þeirra inn í.

Hljómsveitin Staind var stofnuð árið 1993 af söngvaranum og gítarleikaranum Aaron Lewis og gítarleikaranum Mike Mushok. Síðar komu trommuleikarinn Jon Wysocki og bassaleikarinn Johnny April.

Staind hefur gefið út 4 diska sem hafa verið gefnir út á 8 ára tímabili. Fyrsti diskurinn kom út árið 1996 og bar hann titilinn “Tormented”. Það fyrsta sem blasir við manni þegar maður lítur á diskinn er hve ógeðfellt coverið er. Þar liggur Jesú krossfestur, blóð úti um allt og margt annað mjög truflandi. Ekki beint rétta ímynd hljómsveitarinnar. Mætti halda að þeir væru djöfladýrkendur en þeir gerðu þetta aðeins til að láta á sér bera.

Coverið gefur nú ágætlega til kynna hvernig sumir textar disksins eru en þegar fyrsta lagið byrjar þá segir Aaron Lewis söngvarinn: ٫٫It´s been like this forever. No more. I hate my fucking life”. Og á meðan hann segir þetta heyrist hann vera að hlaða byssu. Svo byrjar rosalega flott lag, mjög rokkað og mjög ólíkt Staind sem flestir þekkja. Svo heldur diskurinn áfram jafn þéttur og þungur allan tíman og eru þarna geymd nokkur helvíti góð Heavy - Metal lög. Svo endar síðasta lagið á því að það heyrist hár byssuhvellur (þá er hann semsagt að skjóta sig). Þétt gítar-riff og þrumandi trommur einkenna þennann disk.
Aðeins er hægt að nálgast diskinn á netinu www.stainddirect.com. Hann fæst bara á netinu. Kostaði mig sirka 2500-2600 með tolli og öllu að panta hann.

Tormented diskurinn vakti nokkra athygli og seldist ágætlega en vakti hann þá helst athygli söngvara hljómsveitarinnar Limp Bizkit, Fred Durst, eftir að hann hafði séð þá live. Fyrst vildi Fred ekkert með þá hafa þegar þeir komu til hans með diskinn. Hann hélt að þeir væru einhverjir djöfladýrkendur. En svo sá hann tónleika með þeim og varð heillaður. Eftir þetta fóru Staind meðlimir að semja á fullu. Sömdu þeir einhver demo og komu þeim til Fred. Durst kallinn varð svo hrifinn að hann kom á fundi fyrir þá hjá forstjóra Flip records sem kom þeim á samning. Erfiðisvinnan hafði borgað sig. Núna hófst vinnan á öðrum disknum þeirra.

Árið 1999 kom út 9 laga diskurinn “Dysfunction”. Það er ekki eins mikil illska yfir þessum disk og “Tormented” en hann er samt mjög heavy og eru öll lögin af þessum disk algjör snilld. Má heyra á honum að Aaron Lewis er búinn að bæta sig heilmikið í sönginum. Nokkur lög á diskinum þar sem maður heyrir virkilega hvað hann getur. Svo eru textar hans náttúrulega frábærir eins og vanalega. “Dysfunction” vakti mikla athygli og fóru þeir í tónleikaferðalag og spiluðu með mörgum stórum nöfnum. Platan seldist í yfir milljón eintökum.

Eftir þetta hófst smíðin á meistaraverkinu sem kom þeim á kortið. Árið 2001 kom út platan “Break the cycle”. Má segja að sú plata sé fullkomin samsetning af lögum. Hljómsveitin hafði lyft sér á hærra plan í tónlistarsmíði. Þar má finna þungarokkið frá gömlu Staind og mellow-rokkið frá nýju Staind. Var þar að heyra róleg gítarlög eins og “Epiphany” og “Outside”, þungu lögin svo sem “Can´t believe” og “Suffer”. Svo má auðvitað ekki gleymi þessum grípandi lögum “It´s been a while” , “Fade”…..svo má lengi telja. Þessi diskur er nauðsyn í geisladiskasafnið.

Mikið álag var á meðlimunum við smíðina að næstu plötu þeirra. Erfitt að standast háar kröfur aðdáendanna eftir miklar vinsældir fyrri diskar. Diskurinn “14 shades of grey” kom út árið 2003. Varð þessi diskur mikil vonbrigði hjá mörgum aðdáendum sem ég skil reyndar ekki. Þessi diskur er reyndar mun meira “happy” en fyrri diskar sem ég er ekkert voðalega hrifinn af en samt er þetta ótrúlega góður diskur sem geymir marga smelli og mörg mjög grípandi lög. Fólk gleymir bara stundum að gefa sér tíma til að hlusta almennilega á diska.

Tónlist þeirra einkennist alltaf af þéttum gítar-riffum, þrumandi trommum, dúndrandi bassa, fallegum gítarhljómum, einstaklega fallegri rödd Aaron Lewis og frábærum textum sem geyma mikla sögu hver og einn.
Þær vinsældir sem þeir hljóta eru vel verskuldaðar eftir stíf tónleikaferðalög og erfiðisvinnu sem þeir lögðu í þetta. Hér er á ferð ein besta þungarokk hljómsveit sögunnar ( að mínu mati ).

Takk Fyrir.
gusti@esports.is