Rage Against The Machine Rage Against The Machine var stofnuð í Los Angeles í byrjun tíunda áratugsins, af söngvaranum Zack de la Rocha, gítarleikaranum Tom Morello og trommaranum Brad Wilk. Stuttu síðar réðu þeir bassaleikarann Tim Commerford í hljómsveitina en hann var æskuvinur Zack de la Rocha. Rage Against The Machine hófu feril sinn á því að gefa sjálfir út tólf laga kassettu sem innihélt t.d. lagið Bullet in the Head, sem sló síðan í gegn á smáskífu seinna á árinu. Með kassettunni unnu þeir sér inn plötusamning hjá EP Records, og þann sjötta nóvember eftir Evróputúr gáfu þeir út frumraun sína sem hét einungis Rage Against The Machine. Diskurinn vakti mikla athygli, bæði sérstök rödd Zack de la Rocha og gítarleikur Tom Morellos. Þeir blönduðu saman rappi, metal og rokki og svo má auðvitað ekki gleyma að nefna hvernig þeir rökkuðu niður Bandarísku stjórnina í textunum, sem samdir voru af Zack de la Rocha. Mörg lögin þeirra voru notuð í tölvuleikjum og bíómyndum og seldist diskurinn frábærlega. Þarna var hver hitterinn á eftir öðrum, meðal annars Bombtrack, Killing In The Name, Wake Up og Freedom. Diskurinn var að mestu leyti prodúseraður af þeim sjálfum en þeir fengu líka hjálp frá Garth Richardson, sem hafði unnið með mönnum eins og Red Hot Chili Peppers og Ozzy Osbourne. Hann lenti í fyrsta sæti á Heatseekers topplistanum og í 45. sæti á 200-diska Billboard listanum.

Í mars árið 1993 var lagt upp í stuttan túr um Bandaríkin þar sem RATM spiluðu með rapphljómsveitinni House Of Pain. Á þessum tíma var mikið verið að ritskoða ljóta texta RATM, og eftir Bandaríkjatúrinn mótmæltu þeir því í tónleikahöll í Fíladelfíu með því að standa allsberir í korter án þess að spila né syngja. Þeir héldu áfram að túra með ýmsum rapphljómsveitum og spila á hátíðum og fyrr en varði hafði diskurinn þeirra selst í milljón eintökum um allan heim.

Nú fór að líða að því að þeir kumpánar gæfu út annan disk. Ósk ungmenna rættist þann sextánda apríl árið 1996 en þá var diskurinn Evil Empire gefinn út. Hljómsveitin hélt stíl sínum og gaf skít í stjórnina eins og nafnið segir til um. Þarna voru lög eins og People Of The Sun, Tire Me og Bulls On Parade, og diskurinn lenti í fyrsta sæti á 200-diska Billboard topplistanum. Hann var prodúseraður af Brendan O’Brien ásamt hljómsveitinni og seldist í meira en tveimur milljónum eintaka.

Í maí fóru þeir á túr um Evrópu og eftir hann tóku Bandaríkin við. Í febrúar árið 1997 fékk hljómsveitin Grammy-verðlaun fyrir Tire Me, sem besta metallagið. Í nóvember gáfu þeir svo út heimatilbúið myndband, þar sem fjallað var um tónleikatúrana og óútgefin lög. Þarna voru líka myndbönd þeirra í fullri lengd og með fylgdi smáskífa með laginu Ghost of Tom Joad. Myndbandið seldist í meira en 100.000 eintökum.

Í september árið 1998 byrjuðu upptökur á næsta disk hljómsveitarinnar og stóðu þær í einn mánuð. Diskurinn var þó ekki gefinn út fyrr en síðla á næsta ári, en á meðan spiluðu þeir á ýmsum tónleikum víðsvegar um heiminn, t.d. á Woodstock hátíðinni. Loks í byrjun nóvember árið 1999 var Battle of Los Angles diskurinn gefinn út, og sló hann í gegn um allan heim og lenti í fyrsta sæti á mörgum topplistum, þar á meðal Billboard-listanum og á netinu. Þarna voru frægust lög eins og Guerrilla Radio, Sleep Now In The Fire, Born Of A Broken Man og Maria.

Á þessu tímabili var Zack de la Rocha að tilkynna það að hann ætlaði á sólóferil og hinir hljómsveitarmeðlimirnir höfðu það í huga að ráða annan söngvara í hljómsveitina og halda áfram. Þann tólfta og þrettánda september voru síðustu tónleikar hljómsveitarinnar haldnir á Ólympíuleikvanginum og um jólin á síðasta ári voru þeir gefnir út, bæði á DVD og geisladisk.

Í desember árið 2000 var Renegades-diskurinn gefinn út og var hann prodúseraður af Rick Rubin. Þetta var síðasti stúdíó-diskur hljómsveitarinnar, en hann fékk ekki jafn góðar viðtökur og hinir. Hann lenti í fjórtánda sæti, bæði á Billboard-listanum og á netinu. Á disknum voru eingöngu lög eftir aðrar hljómsveitir, t.d. EPMD, Cypress Hill, MC5, Stooges, Bob Dylan, Bruce Springsteen og Rolling Stones. Dylan-, Springsteen- og Stoneslögin spiluðu þeir reyndar algjörlega í sínum stíl, en þarna sýndu þeir líka á sér fjölbreyttar hliðar, t.d. í laginu Beautiful World sem er án efa fallegasta RATM-lagið. Frægust á plötunni voru lög eins og Renegades Of Funk, How I Could Just Kill A Man, I’m Housin, Street Fighting Man og The Ghost Of Tom Joad.

Eftir þennan disk hætti Zack de la Rocha í hljómsveitinni en þrátt fyrir það gáfu þeir út DVD myndina Battle Of Mexico sem innihélt tónleika sem þeir héldu í Mexíkó í fullri lengd og upptökur úr tónleikaferðinni. Stuttu eftir útkomu hennar fengu RATM Grammy-verðlaun fyrir Guerrilla Radio-lagið. Tom Morello, Brad Wilk og Tim Commerford stofnuðu Audioslave með Chris Cornell, en hann hafði verið í hljómsveitinni Soundgarden. Árið 2002 gáfu þeir út sjálfnefndan disk sem seldist vel og lenti í sjöunda sæti á Billboard-listanum og í fimmtánda sæti á netinu.

Heimildir:
www.ratm.com
www.allmusic.com

kv. Jói