Placebo Eins og flestir vita eru Placebo á leiðinni til Íslands í sumar og munu spila í Höllinni þann 7. júlí. Ég hef orðið var við að margir vita varla hverjir þetta eru, sem er skrýtið, þar sem þessi hljómsveit er mjög fræg og sérstaklega í Evrópu. Tónleikarnir hér á Íslandi eru hluti af tónleikaferðalagi þeirra sem hófst í mars og lýkur í lok ágúst. Placebo státar af þremur meðlimum:

Brian Molko - söngur/gítar
Stefan Olsdal - bassi
Steve Hewitt - trommur

Brian Molko og Stefan Olsdal stofnuðu hljómsveitina árið 1994 í Bretlandi, en þeir gengu saman í leiklistarskóla þá. Steve Hewitt bættist fljótlega í hópinn, en hætti svo og fór að spila með annari hljómsveit. Molko og Olsdal fundu þá annan trommara, Robert Schultzberg og þeir þrír gáfu út fyrstu plötuna, sem hét Placebo og kom út ‘96. Sú plata sló í gegn í Bretlandi með lögum eins og “Nancy Boy” og “Come Home” og brátt var Placebo farin að hita upp fyrir hljómsveitir eins og Sex Pistols, U2 og Weezer. Þrátt fyrir velgengnina fann Schiltzberg sig ekki í hljómsveitinni og hætti fljótlega og Hewitt kom aftur fyrir hann - allt fyrir frægðina ;)

Brátt gáfu þeir út nýja plötu, Without You I’m Nothing og sú plata sló einnig í gegn í Bretlandi. Þessi plata gerði einnig góða hluti í Bandaríkjunum, en hún inniheldur lög á við “Pure Morning”, “Without You I'm Nothing” og “Every You Every Me”. Eftir þessa plötu fór breska pressan að elta Molko á röndum og hver slúðurfréttin rak aðra, t.d. um kynhneigð Molkos og sögur tengdar því. Hljómsveitin ákvað að láta þetta ekki hafa áhrif á sig og gáfu út nýja plötu tveimur árum seinna; Black Market Music. Hún seldist mjög vel og festi Placebo í sessi sem alvöru hljómsveit sem fylgdu henni eftir með löngu tónleikaferðalagi um bæði Evrópu og Bandaríkin. Nýlega gáfu þeir svo út Sleeping With Ghosts með lögum eins og “Bulletproof Cupid”, “This Picture”, “Special Needs” og fleirum.

Þess má geta að placebo er úr enska hugtakinu “Placebo Effect”, sem mætti þýða sem lyfleysuáhrif á íslensku. Gott dæmi um lyfleysuáhrif er þegar plástur er settur á sárin á litlum börnum og þá hætta þau að gráta ;) Pillur úr sykri sem hafa enga virkni eru stundum gefnar fólki með ólæknandi sjúkdóma og dæmi eru um að sjúklingar á svona töflum hafi læknast, t.d. af krabbameini, og haldið að lyfinu væri um að þakka. Ekki er þó hægt að færa sönnur á svona hluti. Þessar plötur hafa þeir gefið út:

Placebo (1996)
Without You I'm Nothing (1998)
Black Market Music (2000)
Sleeping With Ghosts (2003)

Að mínu mati stendur plata númer tvö uppúr, öll lögin á henni eru frábærar tónsmíðar og þola mikla spilun ;) Svo finnst mér þessi 10 lög standa uppúr á ferli þeirra:

1. Special K
2. Every You Every Me
3. Pure Morning
4. This Picture
5. English Summer Rain
6. Bulletproof Cupid
7. Slave to The Vage
8. Nancy Boy
9. Days Before You Came
10. Brick Shithouse

Placebo munu spila í Laugardalshöll 7. júlí og það er ekki ennþá uppselt (!). Sjálfur tryggði ég mér miða strax þar sem þetta er ein af mínum uppáhaldshljómsveitum og hlakka ég mikið til. Tilgangur þessarar greinar er meðal annars að fá fleiri til að kynna sér þessa hljómsveit og tónlistina þeirra. Fyrir þá sem ekki hafa heyrt mikið af þessari hljómsveit mæli ég með lagalistanum hér að ofan. Sjálfur fór ég á koRn í kvöld og þrátt fyrir að hlusta ekki á þá venjulega fannst mér frábært á tónleikunum, þannig að ég get ekki beðið eftir Placebo! Enn eru lausir miðar, þannig að það er um að gera að tryggja sér eitt stykki áður en selst upp, en ég efast ekki um að miðarnir klárist! Miðasala í verslunum ogVodafone og á flugleidir.is, 4500 í stæði og 5500 í stúku, Maus hitar upp.