Ef að einhverntíman yrði gerður listi yfir vanmetnustu hljómsveitir Íslands, myndi ég sannarlega samþykkja að hljómsveitin Spírandi Baunir fengi efsta sætið.

Það liggur aðeins ein plata eftir þessa hljómsveit og kom hún út árið 1996, þeir höfðu þá áður unnið titilinn “athyglisverðasta hljómsveitin” á músíktilraununum (annað hvort sama ár, eða árið áður) Ég man bara eftir því þegar tilraunirnar voru spilaðar á Rás 2 og þar kynnti hás rödd að næsta lag væri tileinkað góðvini hljómsveitarinnar, Paul McCartney. Lagið var hratt og versið innihélt aðeins línuna “the rain is coming” og svo þegar viðlagið byrjaði og ómannleg rödd tjáði einfaldlega: “Paul is Dead” þá áttaði ég mig á því að hér væru snillingar á ferðinni.

Þegar platan, “Óðs manns ævi” kom svo út árið 1996 upphófst þá mikið írafár, þar sem framan á disknum hafði verið skeytt saman mynd af Ólafi Ragnari og Adolf Hitler. Var þetta væntanlega gert í miklu gríni og var Ólafi þakkað fyrir að leyfa notkun myndarinnar í bæklingnum.

En þessa plötu á ekki að minnast fyrir umdeilt cover, því innihaldið er af slíkum gæðastandard að það jafnast á við það besta sem við Íslendingar höfum látið frá okkur í rokktónlist.

Textahöfundurinn (Hannes, held ég) tekur sig passlega alvarlega, enda söng hann í kjól með bangsa og sandkassaskóflu (allavega á þeim einu tónleikum þeirra sem ég fór á). En textarnir innihalda ekkert endilega meira en tvær þrjár línur, oft eitthvað sem heyrist iðulega á leikvöllunum.
Það er eiginlega ómögulegt að setja eitthvað út á textana því þeir eru bara svo sniðugir í einfaldleika sínum og svo eru þeir einstaklega frumlegir í þessu samhengi. Ég er ekki viss um að það hafi heyrst áður sungið “það má ekki ljúga” eða “ba ba ba it's a booty time” í pönkrokksveit

Hljómsveitin er svo sannarlega vel spilandi og lætur frá sér ótrúlega grípandi lagasmíðar. Þéttleikinn er hér í fyrirrúmi sem að gefur söngvaranum algjört frelsi til að ganga af göflunum (sem hann gerir reyndar oft)
Gítarsándið er oft svo ógeðslega hallærislega “unnið” að maður gæti spurt sig hvort að það hafi verið grín líka. (t.d. í laginu “Jóakim aðalönd”)

En þó að grín-andinn svífi yfir vötnum á plötunni er ekki þar með sagt að hún sé einn brandari. Baunamenn reyna nefnilega fyrir sér í framsæknari lagasmíðum líka. (t.d. Ópra Súpa, Álagið) Það ferst þeim ágætlega í flestum tilfellum, en geta þó dregist á langinn (Frómas (Babú))

Gallar plötunnar eru að hún er etv. of “front-loaded” það er að segja að flestir slagararnir eru settir fremst, þannig að hún missir skriðþunga þegar líður á seinni helminginn.
Einnig eru frekar mörg lög á plötunni(18) þannig að söngvarinn er farinn að endurtaka sig fullmikið undir rest.

Í heildina séð er þetta íslenskt meistaraverk, og tel ég að Spírandi Baunir eigi inni afsökunarbeiðni hjá íslenskum plötukaupendum og tónlistaráhugamönnum sem létu þessa snillinga fram hjá sér fara.

Ég reyndar bara átta mig ekki á því hvers vegna hún er ekki í bókinni hans Dr. Gunna og ætti hann sérstaklega að biðjast afsökunnar á þessu glæpsamlega athæfi. (hann hlýtur bara að hafa gleymt þeim)

Platan er til inn á tonlist.is, en ég held að platan sé uppseld hjá úgefanda. Sem er mikil synd því að bæklingurinn er uppfullur af tímalausu gríni.

Lykillög: Paul is Dead, Reykjavíkurljóð, ErHtil