Nirvana. Hvernig og til hvers?

Varúð langt blaður, vona bara að það sé eitthvað point í þessu öllu. Helmingurinn fjallar um 80´s pönk og það sem greiddi leiðina fyrir Nirvana. Seinni hlutin fjallar um Nirvana.
Í þessari grein eru aðeins þær hljómsveitir sem ég hef hlustað á og tel merkilegar þannig að ef þið lumið á einhverju góðu þá láta í sér heyra, þetta er sagan eins og ÉG sé hana.

Pönkið er að mínu mati auðveldlega mikilvægasti atburður rokksins síðan Chuck Berry fann upp það rokk sem við þekkjum 1955. Fats Domino fann upp grunnhugmyndina árið 1950.

Árin fyrir pönkið, 1973-75 eru með þeim allra verstu sem rokksagan hefur upplifað, þreitan og stöðnuninn var alls staðar, progg-sveitirnar í Englandi (Yes, King Crimson, ELP, Van Der Graaf Generator, Gentle giant, Genesis ofl) voru ýmist hættar eða orðnar býsna hugmyndasnauðar og snerist galdurinn hjá mörgum þeirra um að gefa út sífellt flóknari tónlist. Þungarokkið (Led zeppelin, Deep purple, Black sabbath, Free ofl) hafði sagt all sitt í bili og segir það kannski allt að Kiss og Aerosmith voru heitustu þungarokkhljómsveitir þessa tíma. Hin frábæra Þýska krautrokk sena (Can, Faust, Neu, Tangerine dream, Amon duul II, Cluster, Klaus Schulze ofl) var byrjuð að fjara út og það var Canterbury senan breska (Soft machine, Mike Oldfield, Caravan, Robert Wyatt, Gong) einnig. Meira að segja einlæga singer-songwriter bylgjan í Bandaríkjunum fór hallandi þrátt fyrir að vera með fólk eins og Joni Mitchell, Neil Young og Bob Dylan innanborðs. Nýsköpun var í sögulegu lágmarki og það eina sem hélt lífi í rokkandanum voru New York dolls og ýmsar glamsveitir, sérstaklega T.Rex og Roxy music.

Vinsælustu sveitir heimsins voru td. Abba, Eagles, David Bowie og Bee gees.

Þetta eru ástæðurnar sem lögðu grunninn að pönkinu, allaveganna þær sem tengjast tónlist. Þetta er kannski svolítil ofureinföldum, það voru auðvitað miklu fleiri straumar og stefnur í gangi en þessi grein á ekki að vera saga rokksins heldur.

Pönkið byrjaði í New York með Ramones, einföld gítarriff Ramones og textarnir um að sniffa lím og partístand voru ekki beint þeir gáfulegastu en þeir voru einmitt það sem unga fólkið hafði verið að bíða eftir og þarfnaðist. Að mínu mati hafa Ramones verið Chuck Berry síðustu 25 ára. Rokksagan hjá mér skiptist í tvo hluta, sá fyrri var frá 1950-1975 sá seinni byrjaði 1976 þegar pönkið endurræsti rokkið og sá kafli stendu enn.

Steingeldni og þreita tónlistarlífsins hafði alveg sömu áhrif á breskra unglinga eins og hún hafði á þá bandarísku, svo á mjög svipuðum tíma bjuggu þeir bresku til sína eigin byltingu. Sú bylting byrjaði með Damned, fyrstu bresku pönksveitinni til að gefa út bæði smáskífu og lag en það voru hinir pólitísku Clash og ofbeldisfull Sex pistols sem byrjuðu pönk æðið. Sama ár (1977) var England að drukkna í pönktónlist: Vibrators, Jam, Wire, Generation X, Crass, Buzzcocks, Fall og hinir áhrifamiklu Stiff Little Fingers (Frá írlandi) lögðu sitt af mörkum og gáfu út góðar plötur undir merkjum pönksins og sköpuðu frábæra senu.

Samferða pönkinu kom post-pönkið, reyndar var post-punk fundið upp árið 1975 af Bandarísku hljómsveitinni Pere ubu, heilu ári áður en sjálft pönkið varð til svo post-punk var upphaflega pre-punk.
Post pönk (eða new wave) sem tónlistarstefna er óskilgreinanleg og sveitirnar innan hennar voru ákaflega ólíkar.
Fæstar spiluðu beinlínis pönk heldur allskyns tilraunatónlist með pönk “attitute”. Richard Hell Myers og Patti Smith urðu einskonar Bob Dylan new wave stefnunar, Pere ubu blönduðu saman jazz, avant garde og fönki, Television fundu upp nýja tegund af gítarrokki, Suicide notuðust eingöngu við trommuheila og hljómborð, Talking heads blönduðu saman heimstónlist, fönki og smá raftónlist, Birthday party héldu áfram þar sem Captain Beefheart hætti, Public image Ltd blönduðu saman dub, gothic og heimstónlist, Chrome fundu upp mjög frammúrstefnulegt raf/space pönk, Joy division færðu þunglyndislegan Doors fílinginn inn í nútímann, Pop group sennilega tilraunakenndastir allra post-pönkaranna sköpuðu mjög spennandi og krefjandi bræðing úr fönki, dub, jazz, klassík og avant garde, Rip Rig & Panic varð til þegar Pop group sundraðist og hélt áfram á sömu braut.
Post pönk bylgjan hjaðnaði niður á örfáum árum en post pönkið lifði í gegnum Violent femmes sem framleiddu folk og roots rokk fyrir nýbylgjuna, hina ofmetnu Smiths og hina sæmilegu Throwing muses.

Þessi fyrstu ár pönksins og post pönksins eru að mínu mati jafn spennandi og ár pshycadelica tónlistarinnar.

Hardcore varð fljótlega til samferða pönkinu. Hardcore til að byrja með var bara örlítið þyngri og hraðari tegund pönks, ekkert lík því sem í dag er kallað harðkjarni.
Fyrsta hardcore hljómsveitin voru Germs en þeir gáfu út sína fyrstu og einu plötu árið 1979. Dead Kennedys, Black flag, Husker du og Replacements urðu stærstu nöfn hardcorsins þó Replacements hafi fljótlega skipt yfir í klassískt rokk.
Fyrstu hardcore hljómsveitirnar voru ekki hræddar við að prófa ólíka tónlistarstíla: Bad brains (reggie), Meat puppets (kántrí), Mission Of Burma (progg) og síðast en ekki síst Nation of ulysses (jazz). Scratch acid (framtíðar Jesus lizard) voru ein hugmyndaríkasta hardcore sveitin og Rites of spring (framtíðar Fugazi ásamt Minor threat) fundu upp emo (emotional rock). Henry rollins fyrrverandi Black flag söngvari varð einn af bestu listamönnum hardcore geirans.

Að blanda saman þungu rokki og pönki við fönk riðma varð ein af vinsælustu tegundum þungarokks og hardcore níunda og tíunda áratugsins. Pop group, Pere ubu, talking heads og fleiri höfðu fiktað talsvert með fönk og pönk en það voru Gang of four sem breyttu því í tónlistarstíl árið 1979. Minutemen, Red hot chili peppers, Faith no more, Primus, Rage against the machine ofl fylgdu eftir fordæmi Gang of four af mikilli sköpunargleði og þróuðu formið áfram alveg fram á tíunda áratuginn.

Í byrjun níunda áratugsins varð einskonar 50´s revival þar sem pönkarar enduruppgötvuðu 50´s rokk og þá sérstaklega rockabilly Carl Perkins, James Burton og Scottie Moore. Þetta fyrirbæri fékk heitið psychobilly eða Cow-pönk og var alls ekki skref aftur í tíman því að þó stefnan hafi verið agnarlítil og stuttlíf þá kom út úr henni sumt af kröftugasta og nútímalegasta rokki þessa tíma. Suicide lögðu grunnin af pshycobilly árið 1979 með notkun sinni á rockabilly takti en það voru Cramps sem fundu upp psychobilly árið 1980 með brjálaðri blöndu af rockabilly, pönki og hryllingsmyndaþemum, Gun club besta pshycobilly sveitin skiptu út hryllingnum fyrir delta blús Robert Johnsons og bættu við hljómi hardcore. Anda psychobilly var haldið á lífi með misgóðum árangri Fleshtones, Joe Ely, Mojo Nixon, Reverend Horton Heat og Wipers sem færðu áherslurnar meira yfir á garage rokk sjöunda áratugarins.
Sumir segja að Stooges hafi fundið upp psychobilly með annarri plötu sinni Fun house árið 1970.

Rokkhljómsveitin Butthole surfers passar hvergi inn enn hún var ein alfrumlegasta og besta hljómsveit áratugarins.

Hljómsveitir áttunda áratugarins (70´s) höfðu ekki ýkja mikil áhrif á pönkhljómsveitirnar (enda reyndu þær flestar að vera í mótsögn við 70´s tónlist). Hinsvegar voru áhrifamestu 60´s rokksveitirnar á níunda áratuginn vafalaust Velvet underground og Captain Beefheart, kannski Byrds líka en þær sveitir sem voru undir Byrds áhrifum koma þessari grein ekkert við og eru þess vegna ekki hafðar með.

Það er furðulegt að hjá þeim sveitum sem sömdu melódíur á annað borð þá voru það ekki alvarlegar melódíur Tim Buckley eða Pete Townshend heldur voru það barnalegar melódíur Beach boys eða stelpnasveita Phil Spectors sem urðu áhrifamestar. Beach boys hafa bergmálað í ótrúlegum fjölda rokkhljómsveita eins og Pixies, Dead Kennedys, Sonic youth, Jesus and Mary chain, My bloody valentine, Yo la tengo, Smashing pumpkins ofl

Fljótlega samhliða New wave varð til No wave eða noise rokk. No wave var tilraunakenndasti tónlistarstíll níunda áratugsins, hálfgert avant garde rokk byggt af miklum hluta á “ljótum” gítarhávaða (white noise) í anda Velvet underground og þá sérstaklega Sister Ray. Tónlistarmenninnirnir innan stefnunar voru hálfgerð “úrhrök” sem pössuðu hvergi inn og léku fyrir lítin hóp, þeir voru eins og nafnið bendir til No wave!
Lydia Lunch og fyrsta hljómsveitin hennar Teenage Jesus And The Jerks byrjuðu no wave og settu tóninn fyrir geirann (öskursöngur, brenglaðir gítarhljómar og óhefðbundnar melódíur). Glenn Branca fann upp nýja og mjög áhrifamikla tegund gítarsinfoníu sem átti eftir að hafa mikil áhrif á framsækið gítarrokk framtíðarinnar. Sonic youth og Swans sem urðu andlit bylgjunnar og stærstu nöfnin áttu eftir að gefu út eitthvað af bestu rokktónlist sögunnar en Swans gáfu reyndar út sitt besta efni eftir að þeir breyttust í gothic rokksveit, kannski þá bestu í sögunni. Band Of Susans héldu áfram með gítarhávaða Sonic youth og tókst best allra að tengja hann við aðgengilegri melódíur, Jesus and Mary chain fylgu eftir noise rokk formúlunni nema að þeir sömdu mjög poppaðar melódíur í anda Beach boys og hávaðinn hjá þeim var kraftlaus og þýður, einskonar feedback pop sem leiddi til shoegazer-ana í My bloody valentine.

Industrial var fundið upp af Faust og Neu snemma á áttunda áratugnum en átti ættir að rekja til “music concrete” ýmsa klassíkera og avant garde listamanna mörgum áratugum áður. Throbbing Gristle urðu fyrsta viðurkennda industrial sveitin, Einsturzende Neubauten og Foetus héldu áfram og tengdu industrial við aragrúa stíla td. classical, jazz, hip hop, progg, doo-wop ofl. Það voru hinsvegar Big black undir stjórn Steve Albini sem innleiddu industrial inn í pönk/hardcore formúluna. Ministry og Rapeman héldu áfram á braut Big black en industrial snéri sér fljótlega til raftónlistargeirans á ný með plötum Wolfgang Press og Nine inch nails seint á níunda áratugnum.

Pussy galore urðu ein mesta extreme rokksveit sögunnar, þeir hljómuðu eins og Rolling stones hefðu viljað hljóma. Þegar hún splundraðist mynduðust Jon Spencer Blues Explosion, Royal Trux, Bewitched og Boss Hog. Allt sveitir sem áttu eftir að láta að sér kveða, sérstaklega fyrstu tvær.

Frá Boston komu Pixies og Dinosaur Jr, tvær af hugmyndaríkastu og bestu pönkhljómsveitum allra tíma. Pixies þekkja allir hún fann upp bæði “indie popp” og gruggið nánast eins og við þekkjum það í dag. Dinosaur jr. eru ekki eins frægir en alveg jafn áhrifamiklir fyrir gítarrokk tíunda áratugsins.

Alveg eins gott að minnast á Vaselines, hálf vanhæfa/kærulausa hljómsveit sem átti meira skyllt við lo-fi tíunda áratugarins eða Shaggs sjöunda áratugarins en gruggrokk Nirvana sem hún átti þó eftir að hafa mest áhrif á.

Fugazi og Jesus Lizard voru tvær markverðar sveitir sem komu fram stuttu fyrir gruggbylgjuna. Fugazi fundu upp nýjan fönkaða og tilfinningasama tegund hardcore og Jesus Lizard framkvæmdu frábæra blöndu af industrial, fönki og öfgafullu hardcore.

Á eftir öllu þessu kom gruggbylgjan. Eins og flestir vita þá voru Green river hljómsveitin sem fann upp gruggið árið 1985 en það voru Melvins sem spiluðu hæga þunga melódíska tónlist undir miklum Black sabbath áhrifum sem urðu hálfgerðir fyrirrennarar gruggbylgjunar. Besta pre-gruggbylgjusveitin var hinsvegar Soundgarden sem skapaði þónokkuð frumlega blöndu af klassíska metalnum og proto-pönkinu.
Mudhoney og Nirvana endurtóku einfaldlega trikk Soundgarden en Pearl jam sem kom aðeins seinna gerði sína eigin útgáfu af formúlunni.

Gruggbylgjan sjálf byrjaði árið 1991 með Nevermind en þá færði gruggið sig fjær uppruna sínum úr gamla metalnum til að komast nær poppuðu pönkrokki. Með þessu tapaði gruggið frumleika sínum og héðan í frá þegar talað verður um gruggið í þessari grein þá er verið að meina gruggið sem spratt af Nevermind, ekki það sem Soundgarden fundu upp.

Það hafði verið stanslaus þróun í pönktónlist (og öllu öðru) allan níunda áratuginn þar sem fjöldi frábærra hugmyndaríkra hljómsveita lögðu fram nýjar hugmyndir til að ýta fram þróuninni. Þessi þróun stoppaði algerlega þegar Nirvana sló í gegn, Nirvana ef eitthvað er sprengdi loftbóluna.

Gruggrokk Nirvana var einfaldlega 80´s alternative með grípandi og poppuðum laglínum, það er svosem ekkert að því en yfirleitt er það þannig að þegar nýjasta “update” á ákveðnum tónlistarstíl snýst um að blanda saman gamla hljómnum við grípandi (popp)melódíur að þá er ævintýrið búið, þá hafa flestir möguleikarnir verið nýttir og ekkert er eftir.

Ég tel ekki að gruggbylgjan sem slík hafi verið upphafið af nokkrum sköpuðum hlut, að mínu mati var hún ekki einu sinni millistig í þróuninni heldur endastöðin. Gruggið var síðasta og að mínu mati lang minnst spennandi þróunarskref pönksins og tilkynnti dauða þess frekar en nokkuð annað. Nirvana voru ekki fyrstir sinnar tegundar heldur voru þeir með þeim síðustu. Að það sé her þarna úti sannfærður um að Nirvana hafi breytt öllu og búið til nýja tegund tónlistar er bara skólabókardæmi um það hve auðvellt það er að ofmeta vinsælar hljómsveitir.

Fyrir mörgum er innkoma Nirvana algert “life-changing moment” en fyrir mér hljómar það kjánalega að tala jafnvel um atburð. Nirvana breyttu tónlistinni á vinsældarlistunum, og hvað með það? Gruggið var “dead end” frá byrjun hvort sem er og ég get ekki sagt að margar minna eftirlætis hljómsveita hafi komið út úr gruggbylgjunni. Gruggið fær þó mitt þakklæti og margra annarra fyrir að hafa jarðað hair metalinn og Michael Jackson (þó hann hefði verið á góðri leið með að sjá um eigin jarðarför).

Ég er enginn sérfræðingur um grugg rokk, ég þekki þónokkrar þó eins og: Green river, Mudhoney, Melvins, Nirvana, Alice in chains, Stone temple pilots, Soundgarden, Pearl jam, og svo nýrri kynslóðir (post-grunge) eins og Silverchair, Creed og Staind. Það er kannski ekki nóg til að dæma en að mínu mati er gruggið í heild sinni frekar óspennandi og óttalega lítið skapandi tónlistarstíll.

Raunverulega hvað kom út úr “gruggbyltingunni”? Hefur einhver grugghljómsveit virkilega bætt einhverju við það sem klassísku gruggararnir gerðu 1988-92?

Ein helsta ástæðan fyrir því að ég fór að kynna mér 80´s alternative var sú að ég vildi heyra þær hljómsveitir sem áttu að hafa rutt leiðina fyrir Nirvana og gruggið. Ég hafði auðvitað hlustað á Pixies sem mér þóttu fjári líkir Nirvana og svo Sonic youth sem voru dálítið öðruvísi, svo ég áleit að það væri þess virði að kynna mér það sem gerðist frá Clash og Ramones til Pixies og Sonic youth.

Það sem ég komst að þegar ég fór að panta mér allar þessar 80´s plötur í blindni frá Amazon.com (og þá meina ég í BLINDNI, í flestum tilvikum hafði ég aldrei heyrt um hljómsveitirnar, hvað þá hlustað á plöturnar sem ég var að kaupa) var það að brautin hafði ekki bara verið rutt af öðrum hljómsveitum heldur voru þessar hljómsveitir í mörgum tilvikum betri en Nirvana, allaveganna meira spennandi. Eftir að hafa hlustað þónokkuð mikið á þessa tónlist (og það er sko 90% eftir) þá eru Nirvana með eindæmum dæmigerð hljómsveit, það eru ýkjur að mínu mati að segja að þeir hafi sinn eigin stíl, hvað þá að kalla þá einstaka, það er varla neitt sérstakt við þá. Nær allar hljómsveitirnar sem ég taldi upp í 80´s kaflanum höfðu sinn stíl, sitt einkenni, sinn hljóm, eitthvað sem gerði þá sérstaka. Nirvana hafa ekkert slíkt, þeir snertu ekki við reggie, jazz, funk, industrial, kántrý eða nokkru öðru, þeir gerðu engar tilraunir hvorki við lagasmíðar né “sound”, þeir voru ofurvenjuleg melódísk rokkhljómsveit.

Það mikilvægasta sem ég komst að var auðvitað það að níundi áratugurinn er hiklaust sá vanmetnasti í sögunni, afskrifaður af alltof mörgum sem áratugur “80´s hljómsins”, Michael Jacksons, Wham og annarra poppara. Ef þú kýst rokk í harðari kantinum þá er 80´s þinn áratugur.

Það sem Nirvana hatarar geta hinsvegar aldrei tekið frá Nirvana og Nirvana aðdáendur geta haldið dauðahaldi í þó allt annað hrynji er sú staðreynd að Kurt Cobain var góður lagasmiður og frábær flytjandi. Nirvana eiga slatta af miðlungslögum en þeir eiga afar fá léleg lög, kannski eitthvað af Incesticide en það er ekki alveg að marka þar sem það er aukadiskur. Kurt samdi popplög, oft gamaldags popplög, jafnvel gamaldags popp dittur, sterklega í anda 60´s og sem slíkur er hann góður.

Cobain var vanmetinn söngvari ef eitthvað er, ég get ekki ímyndað mér marga af þessum svokölluðu “bestu söngvurum allra tíma” td. Lennon, Presley eða Sinatra toppa frammistöðu Cobains á unplugged tónleikunum, allaveganna ekki hvað varðar tilfinningu og andrúmsloft sem honum tekst að skapa með röddinni einni saman. Ef fólk vill söngvara sem ná upp í hæstu falsettur þá skipta þeir þúsundum, sjálfur hef ég meiri áhuga á tjáningu, sköpunargleði og “uniqness” en tæknilegri fullkomnun. Er það ekki helsta ástæðan fyrir fólk að fara í tónlist? Skapa eitthvað nýtt eða tjá sig?

Kurt Cobain var eins og söngvari ákaflega einlægur lagasmiður, allt sem hann samdi bar keim af depurð og þunglyndi, líka fjörugu lögin en þeir eru ekki margir sem hafa getað túlkað depurð í gegnum fjörug lög. Kurt þurfti ekki að semja sérstaka sjálfsvorkunartexta til allir föttuðu að hann var þunglyndur það skein alltaf í gegn hvernig honum leið en sá hæfileiki er að mínu mati það eina sem gerir Nirvana eitthvað sérstaka.

All-music guide segir að Nirvana hafi gert alternative rokk, indie rokk, og underground vinsælt. Kurt Cobain sá víst alltaf eftir því að hafa sellt undergroundið en sannleikurinn var sá að það eina sem Nirvana seldu voru þeir sjálfir, undergroundið var og er enn neðanjarðar og mun vera það um ókominn ár miðað við að bilið milli “mainstream” og “underground” hefur aukist jafnt og þétt síðan Fugs og Velvet underground sköpuðu alternative.
Nirvana voru nokkrum árum of seint á ferðinni til að geta gert indie/alternative rokk vinsælt, þeir tilheyrðu 80-88 tegund indie rokks, þeir tilheyrðu Husker du og Pixies en heimur indie rokks árið 1991 var að allt öðrum toga, þar var post rokkið í hröðum þroska og hljómsveitir gerðu tilraunir með rafhljóma, ambient, dub, jazz og instrumental tónlist var í uppsveiflu. Þó það hafi auðvitað verið undantekningar eins og Jesus Lizard eða Babes in toyland(stelpuband sem er jafngott Nirvana) þá var tónlist eins og sú sem Nirvana fluttu að mestu gamlar fréttir. Nirvana hafa einungis getað hljómað spennandi fyrir þá sem höfðu ekki verið að fylgjast sérlega vel með síðastliðnum 10 árum. Þið vitið svona fólk sem lítur á tímabilið frá Clash og Nirvana sem hálfgert “wasteland” eingöngu vegna þess að það hefur treyst á útvarpstöðvarnar til að kynna þeim fyrir góðri tónlist.

Mikið hefur verið talað um hvernig Nirvana komu neðanjarðarrokkinu upp á yfirborðið en ég spyr bara: Hvaða underground hljómsveitir urðu skyndilega ofurvinsælar í þökk Nirvana eftir margra ára streð neðanjarðar? Engar sem ég veit um. Fór eitthvað raunverulega upp á yfirborðið með tilkomu Nirvana?

Ekki að gruggið hafi verið svo alslæmt, klassísku gruggsveitirnar eru óneytanlega klassískar, ég sé ekki Nirvana eða Soundgarden verða neitt annað en klassískar rokksveitir.
Gruggið var bara lítið þungarokksafbrigði sem var áhugavert á níunda áratugnum en breyttist svo í popptónlist á tíunda áratugnum.

Í sambandi við áhrifin sem Nirvana eiga að hafa þá er það augljóst að að eru til þúsundir Nirvana-hljómsveita en ég tel það skipta meira máli á hverja þú hefur áhrif á frekar en hve marga. Það er að segja það skiptir meira máli hversu mikil áhrif þú hefur á framgang/þróun tónlistarinnar heldur hve margar eftirhermur þú eignast. Allir sem slá í gegn eignast sjálfkrafa eftirhermur en sjaldgæft (en mögulegt) er að eftirhermur af vinsælum hljómsveitum geri nokkurt merkilegt.
Það er því að mínu mati alrangt að meta áhrif hljómsveita eftir því á hve marga hún hafði áhrif á.. og alveg ótrúlega erfitt. Eiga Nirvana fleiri eftirhermur en Bítlarnir? Eiga Bítlarnir fleiri eftirhermur en Black sabbath? Eiga Black sabbath fleiri eftirhermur en Ramones? Ákaflega erfitt að segja til um það og segir það EKKERT um hve mikil áhrif þessi eða hinn hafði á rokksögunna (nema þá kannski á vinsældarlistana). Þetta eru svonefnd markaðsáhrif.

Vandamálið með markaðáhrifin er að það er mjög mikið um “ef” og “kannski” í þeim málum, tökum dæmi: EF Elvis Presley hefði ekki slegið í gegn og sellt milljón plötur og gert rokk vinsældarvænt hefðu Chuck Berry, Little Richard ofl. KANNSKI aldrei orðið neitt frægir og þá hefði rokkið KANNSKI aldrei orðið neitt meira en tímabundin “cult” tónlist. Það er ómögulegt að fullyrða um svona mál en það er mjög auðvellt að fullyrða að rokktónlist Chuck Berrys hafði miklu meiri áhrif á rokkið eins og við þekkjum það í dag en tónlist Elvis Presleys í tíunda veldi. Þó svo að það hafi fleiri farið að spila rokk þegar þeir sá Elvis í fyrsta sinn heldur en þeir sem fóru í rokkið eftir að sjá Chuck Berry.

Smá útúrdúr
Skelltu That´s all right eða Heartbreak hotel á fóninn fyrir einhvern óharnaðann unglinginn og segðu honum að þetta sé alvöru rokk og ról, hæpið að hann taki undir það. Skelltu svo bara einhverju Chuck Berry lagi á fóninn og segðu það sama, hann mun varla fíla lagið en hann mun allaveganna heyra að þetta sé rokk. Chuck Berry er konungur rokksins:)

Nirvana voru að mörgu leiti jafn slakir talsmenn undergroundsins og Elvis hafði verið talsmaður rokksins. Elvis hafði hljóm rokksins en útlit og kurteisi Frank Sinatra sem gerði hann boðlegan poppaðdáendum sem og rokkaðdáendum, Nirvana höfðu hljóm neðanjarðarrokks en innihaldið var grípandi popptónlist svo þeir hentuðu bæði rokkurunum og Mtv áhorfendum. Hvorugir gáfu rétta mynd að því sem þeir stóðu fyrir.

Ef það er eitthver sanngirni í þessum heimi þá mun rokksaga framtíðarinnar ekki fjalla um tónlist Nirvana sem tónlistarbyltingu heldur vinsældarbylgju, eitthvað sem kom, varð vinsælt og hvarf svo án þess að skilja mikið eftir sig… rétt eins og britt poppið.

Hæpið samt að það gerist, þær rokksögur sem eiga að fjalla um 80´s eru of uppteknar við að fjalla um Michael Jackson, Wham, Madonnu og Mtv til að minnast á allar rokksveitirnar sem voru á sama tíma að skapa framtíðina. Enginn ástæða til að halda að þegar farið verður að skrifa sögu tíunda áratugarins að pennarnir fari allt í einu að taka framsækna brautryðjendur fram yfir vinsælar poppstjörnur.

Ég ítreka það að mér finnst Nirvana góð hljómsveit, ein albesta melódíska rokkhljómsveit tíunda áratugarins og ég tel Kurt Cobain með betri poppmelódísmiðum síðustu 20 ára.

Ég enda þessa þvælu með orðum Arnar Eggerts: Nirvana skipta engu máli! Góð hljómsveit en varla nokkuð merkileg frá sögulegu sjónarhorni.
Aðalatriðið með allri greininni er þetta: Ég get ekki ímyndað mér að ásjón rokkheimsins í dag væri nokkuð óbreytt og hún er í dag hefði Nirvana ekki brotist fram til vinsælda. Ég álít áhrif þeirra á rokksöguna vera ósköp máttlaus og yfirborðskennd, minni en td. áhrif Soundgarden eða Pearl jam.

Eða hvað? Þetta er auðvitað bara mín ályktun.

PS. Það þýðir lítið að beina svörum eða móðgunum beint til mín, ég hef ekki nettengingu.