Sælt veri fólkið

Ég ætlaði að skrifa sögu hinnar ágætu hljómsveitar KISS á huga en svo gerði huganotandinn “tonar” það. Ég ætla þessvegna í staðinn að fjalla aðeins um ævi Gene Simmons, bassaleikara hljómsveitarinnar.

Gene Simmons

25. ágúst árið 1949 fæddist lítill tungustór patti í Haifa í Ísrael. Hann var skírður Chaim Witz, en þegar foreldrar hans skildu fluttist hann átta ára með móður sinni til New York. Honum var þá gefið nafnið Gene Klein en seinna tók hann upp nafnið Gene Simmons.
Gene litli lærði ensku með því að horfa á teiknimyndir og lesa bækur og fékk mikinn áhuga á að horfa á hryllingsmyndir, sem átti eftir að fylgja honum alla ævi. Þegar hann heyrði og sá fyrst Bítlana í Ed Sullivan sjónvarpsþættinum gjörbreyttist líf hans og hann fékk brennandi áhuga á tónlist. Þegar hann var fimmtán ára var honum gefinn Kent-gítar sem kostaði aðeins 15 dollara. Eftir að hafa spilað á gítar í þrjú ár ákvað hann að skipta yfir í bassagítar. Ástæðan var sú að miklu fleiri gítarleikarar voru til í heiminum heldur en bassaleikarar og Gene var viss um að auveldara væri fyrir hann að vera ráðinn í hljómsveit ef hann spilaði á bassa. Fyrstu hljómsveitirnar hans voru The Missing Links, Rising Sun og The Long Island Sounds. Með honum spilaði þar vinur hans Stephen Coronel sem spilaði líka með honum í flestum af hinum menntaskólasveitunum. Næst á eftir spilaði hann í böndunum The Love Bar, Bullfrog Bheer, Cathedral og Coffee. Árið 1970 útskrifaðist hann svo úr Richmond háskóla eftir að hafa lært fjögur tungumál: ensku, þýsku, ungversku og hebresku. Hann kenndi í barnaskóla í einhvern tíma og notaði þá einhversskonar spiderman-námstækni (hljómar örlítið brjálæðislega). Þrátt fyrir þetta allt saman hélt hann áfram að rokka. Gítarleikarinn Paul Stanley var á þessum tíma að spila í hljómsveitum eins og Post War Baby Boom og Tree og þeir þekktust örlítið, hann og Gene. Þeir byrjuðu að spila og semja tónlist saman og stofnuðu hljómsveit. Þeir fengu vin Gene, Stephen Coronel með sér til að spila á gítar, Tony Zarella á trommur og Brooke Ostrander á hljómborð. Þá var Rainbow stofnuð en nafninu var síðan breytt í Wicked Lester þegar hljómsveitin ákvað að hætta að spila lög eftir aðra og semja bara sjálfir. Eftir nokkra tónleika fékk hljómsveitin plötusamning. Þeir tóku upp plötu sem seldist lítið. Á henni voru t.d. lögin She og Love Her All I Can. Stephen Coronel hætti svo í hljómsveitinni og var gítarleikarinn Ron Leejack fenginn í staðinn. Paul Stanley og Gene Simmons sáu að þessi hljómsveit mundi aldrei öðlast heimsfrægð og þeir voru meira fyrir rokkið en hinir. Þess vegna létu þeir restina af bandinu fjúka og völdu sér aðra meðleikara. Ungur trommari að nafni Peter Criss hafði eitthvað verið að spila með Rolling Stones. Gene og Paul tókst að fá hann í hljómsveitina. Þeir kynntust líka fljótlega gítarleikaranum Ace Frehley sem gekk glaður í bandið. Það má segja að restin sé KISS-sagan.

Eins og flestir vita kannski, máluðu KISS sig og þegar þeir voru orðnir virkilega frægir var farið að gefa út myndasögur, dúkkur, pinball-tæki, tölvuleiki og alls kyns dót sem tengdist þeim félögum. Í myndasögunum var hver meðlimur hljómsveitarinnar sérstök persóna. Þar var Gene Simmons The Demon (púkinn eða djöfullinn).
Gene Simmons hefur mjög ákveðnar skoðanir. T.d. er hann eini meðlimur hljómsveitarinnar sem hefur aldrei viljað vera með tattú og hann hefur aldrei viljað gifta sig. Þó átti hann langtímakærustu sem vann hjá playboy blöðunum. Hann eignaðist tvö börn: Nicholas sem er 9 ára og Sophy sem er 6 ára.

Heimildir:

www.mickpeck.com
www.kissonline.com
www.geocities.com/SunsetStrip/Stadium/6638/kissbiograp hy.html

Gene Simmons hefur alltaf verið þekktur fyrir löngu tunguna, groddaralegan söngstílinn, vængina á búningnum, risastóru skóna, spúandi eldinn, feikblóðið og bassaleikinn. Dæmi um lög eftir hann eru Love it Loud, Cristine Sixteen, Deuce og fleiri. Hann söng lög eins og God of thunder og Almost Human.

Ég mun hugsanlega segja frá fleiri KISS-meðlimum seinna ef að þessi grein fær góðar viðtökur.

Þakka fyrir mig, bæjó!

Kv. JPJ