Sæl veriði, rifflar og rósir, hér kemur dálítil frásögn um Axl Rose og hljómsveitirnar hans í tilefni af 42 ára afmæli hans. Mest mun ég samt fjalla um hina ÓDAUÐLEGU Guns n’Roses.
Þið verðið að taka tillit til mín af því þetta er mín fyrsta grein á Huga. Ég ætla að reyna að rekja sögu Guns n’ Roses eftir bestu getu, segja frá helstu afrekum þeirra og verkum, en sleppa því að segja frá myndböndum, smáskífum og sólódiskum meðlimanna.

Guns n’ roses

Axl Rose fæddist 6. febrúar árið 1962 í litlum bæ í Indiana að nafni Lafayette og æska hans var heldur betur átakamikil. Foreldrar hans, Sharon og William Rose, giftust í menntaskóla og eignuðust hann og dreng sem þau nefndu Bill. Hjónaband þeirra gekk illa og á endanum fór William frá Sharon. En Sharon giftist öðrum manni, Bailey, og lét drengina taka upp hans nafn og halda að hann væri faðir þeirra. Hjónin eignuðust síðan dótturina Amy. Stjúpfaðirinn reyndist vera heldur veikur á taugum og barði börnin og Sharon óspart.
Axl Rose óx úr grasi og reifst stanslaust við foreldra sína á unglingsárunum. Er hann var 17 ára uppgötvaði hann að Bailey var ekki raunverulegur faðir hans. Þegar hann komst að því hver faðir hans var breytti hann nafni sínu í William Axl Rose.
Nú var kominn tími fyrir Axl Rose að flytja að heiman. En hann var viss um að hann gæti aldrei fundið stað til að búa á í þessu litla þorpi svo að hann fluttist til Los Angeles. Í textanum í laginu Move to the city, sem átti eftir að koma út seinna meir segir Axl Rose að hann hafi stolið bíl móður sinnar og kreditkorti föður síns.
Jeffery Isbell, góðkunningi Axl sem er betur þekktur sem Izzy Stradlin, var nú þegar fluttur til Los Angeles. Hann hafði fengið sig fullsaddann af litla bænum, Layfatte og skellti trommunum sínum í skottið og keyrði til stórborgarinnar, 18 ára að aldri. Fyrst um sinn spilaði hann í hljómsveitinni Naughty Woman. Hann svaf alltaf í bílnum sínum og geymdi þar trommusettið sitt, en einn góðan veðurdag var bílnum stolið, og að sjálfsögðu trommunum sem voru í skottinu. Ekki varð þetta til þess að Izzy settist í helgan stein, heldur byrjaði hann að reyna fyrir sér á bassa en uppgötvaði fljótlega að gítarinn átti betur við hann. Hann spilaði í mörgum hljómsveitum í Los Angeles en þegar hann kynntist ungum gítarleikara sem hét Chris Webber stofnuðu þeir tríó með Axl Rose. Þrímenningarnir kölluðu sig A.X.L en breyttu nafninu fljótlega í Rose. Þegar þeir sáu í blaði að hljómsveit í New York kallaði sig líka Rose skiptu þeir yfir í Hollywood Rose. Þá höfðu þeir fengið trommarann Johnny Christ og bassaleikarann Rick Mars sér til liðs. Andre Troxx kom svo fljótlega í staðinn fyrir Rick Mars.
Hollywood Rose spiluðu fyrst um sinn mest á litlum börum og klúbbum. Þeir minntu á Ramones og voru fyrsta glam-hljómsveitin í Los Angeles.
Nóttina eftir tónleika í Santa Monica ákvað Axl Rose að hætta í bandinu. Hann byrjaði í hljómsveitinni L.A. Guns með gítarleikaranum Tracii Guns, bassaleikaranum Ole Beitch og trommaranum Rob Gardner. Á meðan var Izzy í hljómsveitinni London. Í henni voru af og til menn eins og Slash (sem varð seinna gítarleikari GNR!), Blackie Lawless (í Wasp) og Nikki Sixx (í Motley Crue)
Ekki gekk allt í haginn hjá Axl Rose og L.A. Guns, og ekki heldur hjá Izzy, og á endanum ákváðu þeir að halda áfram með Hollywood Rose. Þeir fengu bassaleikarann Steve Darrow og Rob Gardner í L.A. Guns sér til liðs.

Árið 1985 voru Hollywood Rose og L.A. Guns hálfpartinn blandaðar saman. Þessi nýja hljómsveit fékk nafnið Guns n’ roses og var skipuð Axl Rose og Izzy Stradlin úr Hollywood Rose og Tracii Guns í L.A. Guns og Rob Gardner. Það var heilmikið mál að finna bassaleikara í sveitina og í byrjun spilaði Izzy á bassann.
Hinn ungi bassaleikari Duff Mckagan var nýfluttur til Los Angeles til að láta draum sinn um að verða rokkstjarna rætast. Hann hafði mikinn áhuga á pönki og hafði spilað í rúmlega 30 öðrum hljómsveitum á gítar, trommur og bassa. Guns n’ roses réðu hann í hljómsveitina sem bassaleikara. Þetta var byrjunin af feril einnar frægustu rokkhljómsveitar síðustu aldar.
Hljómsveitin byrjaði á því að spila á litlum klúbbum og börum, en þeim fannst alltaf eitthvað vanta í tónlistina (það fannst líka fleirum). Duff tókst í gegnum gamla vini úr pönkbransanum að redda litlu “giggi” fyrir bandið, að leggja í lítið tónleikaferðalag. En aðeins þremur dögum áður en hljómsveitin var að fara að leggja í sitt fyrsta tónleikaferðalag, sem fékk síðar nafnið The Hell Tour, hættu Tracii Guns og Rob Gardner í sveitinni.
Í Guns n’ Roses varð uppi fótur og fit og enginn vissi hvað taka ætti til bragðs. Þeir voru þó ákveðnir í að missa ekki af þessu tækifæri, svo að Duff talaði við vini sína sem hann hafði spilað nokkrum sinnum með í hljómsveitinni Road Crew og fékk þá með í bandið. Þessir tveir ungu menn voru gítarleikarinn Saul Hudson, betur þekktur sem Slash, og trommarinn Steven Adler. Með þeim lögðu Guns n’ Roses í án efa sitt ævintýralegasta tónleikaferðalag!
Eftir fyrstu tónleikana í ferðalaginu, sem voru í Troubadour, fengu Guns n’ Roses lánaðan bíl vina sinna og keyrðu út úr Los Angeles til næsta tónleikastaðs. En eftir að hafa keyrt 100 mílur bilaði bíllinn. Guns n’ Roses biðu ekki ráðalausir, heldur komust þeir til Seattle á tveimur dögum með því að húkka sér för. Fyrir að spila á tónleikunum þar hafði þeim verið lofað 250 dollurum, en þeir fengu aðeins greitt 50 dollara. Þegar bensínkortinu af einum rótara þeirra var svo stolið ákvað hljómsveitin að gefast upp, og einhvernveginn komust þeir að lokum heim til Los Angeles.
Í Los Angeles biðu þær góðu fréttir eftir bandinu að Troubadour vildu fá þá aftur að spila hjá sér. Eftir tónleikana þar héldu Guns n’ Roses áfram að spila á litlum klúbbum og börum, þeir spiluðu með litlum hljómsveitum eins og Faster Pussycat og L.A. Guns vinum sínum og hituðu upp fyrir stærri sveitir. Þeir öfluðu sér örlítinn pening með allskins venjulegum vinnum, Izzy vann í gítarverslun og Steven Adler bjó til pítsur og fleira. Axl Rose vann bæði við símasölu, hann vann á vídeóleygju og hjá sígarettufyrirtæki með Slash, sem vann líka í klukkubúð.
Guns n’ Roses urðu fljótlega mjög vinsælir á litlu klúbbunum og útgefendur fóru að hafa áhuga á þeim. Þeir fengu plötusamning hjá Geffen-útgáfufyrirtækinu og byrjuðu að taka upp sína fyrstu breiðskífu. Þegar upptökur af þeirri plötu var lokið og nýbyrjað var að mixa lögin, kom út lítill EP-diskur sem fékk nafnið Live like a Sucide sem innihélt live-útgáfur af lögunum Reckless life, Nice boys, Move to the city og Mama kin. Á honum seldust u.þ.b. 10.000 eintök á aðeins fjórum vikum og kom hann út í desember árið 1986..
Nokkrum mánuðum síar, í ágúst 1987 kom fyrsta breiðskífa hljómsveitarinnar út. Þetta var Appetite for Destruction. Fyrst um sinn seldist hann ekkert sérlega vel en lög eins og Paradise City, Welcome to the Jungle og Sweet child of mine áttu eftir að slá rækilega í gegn. Sveitin fór í tónleikaferðalag um Evrópu til að leika lögin á nýja disknum og spiluðu svo með Motley Crue. Á þeim túr björguðu Slash og Steven Adler lífi bassaleikara hljómsveitarinnar, Nikki Sixx og komu honum yfir læknishendur eftir að hann hafði tekið inn of stóran skammt af eiturlyfjum.
Nokkrum mánuðum síðar fóru Guns n’ Roses í tónleikaferðalag með Iron Maiden. Þar gekk nú ekki allt í haginn hjá Guns n’ roses því Axl fékk slæma magapest og því varð hljómsveitin að sleppa nokkrum tónleikum. Félagar þeirra í L.A. Guns leistu þá af.
Ýmislegt gerðist á næstu mánuðum, Duff gifti sig, hljómsveitin spilaði með Aerosmith og Appetite for destruction lenti í 1. sæti á Billboard topplistanum.
30. nóvember árið 1988 var síðan GN’R lies diskurinn gefinn út. Í fyrstu átti hann að heita: Lies! The Sex, The Drugs, The Violence, The Shocking Truth en útgáfufyirtækinu fannst það of langt svo að diskurinn fékk nafnið GN’R lies. Á disknum eru meðal annars lögin sem komu áður út á Live like a Suicide disknum.
Lies-diskurinn komst í annað sæti á Billboard topplistanum og Guns n’ Roses voru þá með tvo diska á listanum.
Þeir unnu “Best Heavy Metal/Hard Rock Video” verðlaunin fyrir myndbandið við Sweet Child of Mine. Baksviðs, við verðlaunaafhendinguna réðst Vince Neil, söngvari Motley Crue á Izzy og barði hann í andlitið. Vörin á Izzy sprakk vegna hringsins á fingri árásarmannsins og ástæðan fyrir árásnni var sú að Izzy hafði verið að reyna við konu Vince Neils.
Í október spiluðu Guns n’ Roses 4 tónleika með Rolling Stones og í febrúar 1990 var píanóleikari sem kallaði sig Dizzy Reed ráðinn í bandið. Hann hafði áður verið í hljómsveitinni The Wild.
Er upptökur af nýja disknum hófust var svo Steven Adler rekinn úr hljómsveitinni vegna fíkniefnanna og hvað dópið hafði mikil áhrif á trommuleik hans. Steven Adler kærði svo Guns n’ Roses árið 1993 fyrir að hafa hvatt hann til dópneyslu. Hann vann málið og Guns n’ Roses þurftu að borga honum 2.500.000 dollara.
Trommarinn Matt Sorum, úr hljómsveitinni The Cult var fenginn í hans stað, semsagt þegar Guns n’ roses tóku upp sína næstu breiðskífu voru hljómsveitarmeðlimir þessir:

Axl Rose (söngur)
Slash (gítar)
Izzy Stradlin (gítar)
Duff Mckagan (bassi)
Matt Sorum (trommur)
Dizzy Reed (piano)

36 lög höfðu verið tekin upp fyrir diskinn og Guns n’ roses voru í miklum vandræðum hvernig þeir gætu gefið hann út. Fyrst átti að vera gefin út fjögra diska plata, en Geffen útgáfufyrirtækið sagði það vera alltof dýrt fyrir aðdáendurna svo að ákveðið var að tveir diskar væru gefnir út á sama degi.
Þessi pakki fékk nafnið Use your Illusion, diskarnir hétu Use your Illusion 1 og 2.
Þeir voru gefnir út þann 17. september árið 1991. Á þeim var allt annar stíll en á þeim fyrri, þ.e.a.s. meiri hljómur og mikið píanóspil.
Guns n’ roses tóku á honum lagið Knocking on heavens door eftir Bob Dylan í allt öðruvísi útsetningu og Live and let die eftir Paul Mcartney. Lög af þessum nýja Guns n’ roses pakka eins og You could be mine, Don’t cry, Knocking on heavens door og November rain slógu í gegn og gerðir voru margir singlediskar og myndbönd við lögin á disknum. Hljómsveitin spilaði með Skid Row og spiluðu nýju lögin á svokölluðum Get in the ring motherfucker túr í Evrópu.

Það var 7. nóvember sem Izzy hætti svo í Guns n’ roses vegna þess hve hann var ósáttur við ólifnaðinn í hljómsveitinni, þ.e.a.s. fíkniefnin og drykkjuna. Ekki gekk alltaf heldur allt í haginn á tónleikunum þeirra og hafði hann áður hótað því að hætta í bandinu. Izzy tók upp nokkur lög með hljómsveitinni Ju Ju Hounds og fór svo að stunda kappakstur eins og hann hafði gert á yngri árum. Einnig sendi hann frá sér nokkra sólódiska.
En Guns n’ roses réðu gítarleikarann Dave Navarro úr hljómsveitinni Jane’s Addiction í hans stað. Ekki var hann nú lengi í hljómsveitinni því stuttu síðar var Gilby Clarke úr Kill For Thrills ráðinn í staðinn. Með honum fóru Guns n’ Roses í gríðarlega langt tónleikaferðalag um allan heim sem endaði ekki fyrr en árið 1993!

Á túrnum söng Axl Rose með Elton John lagið Bohemian Rhapsody á tónleikum til heiðurs Freddie Mercury (söngvara Queen) sem dó árið 1991 úr eyðni, og einnig spiluðu Guns n’ Roses með Metallicu, U2 og fleirum. Þeir spiluðu út um alla Evrópu, og í Tyrklandi, Ísrel og Bandaríkjunum.
Því miður gekk ekki allt vel á tónleikaferðalaginu. Hér koma tvö dæmi um það:

Á tónleikum í Portúgal var tómum vatnsflöskum kastað upp á sviðið og Axl Rose rann um eina þeirra og datt á bakið. Hann söng restina af laginu í þeirri stellingu. Þegar lagið kláraðist hótuðu Guns n’ Roses að fara af sviðinu ef fólkið mundi halda þessu áfram. Á endanum sagðist Axl Rose ekki hafa komið á tónleikana til að láta fókið meiða sig og Guns n’ Roses hættu að spila og gengu útaf sviðinu. Þegar hljómsveitin kom aftur inná sviðið voru áhorfendurnir að kasta kínverjum og kveikjurum á milli sín, en þó ekki að sviðinu. Loks var einn af þeim sem skipulagði tónleikana látinn hemja fólkið. Þegar ró var komin á múginn spiluðu Guns n’ Roses lagið Patience og var það síðasta lagið.
Þessi læti á tónleikunum hafa líklega verð útaf svokölluðu St. Lois uppþoti sem hafði orðið fyrir einu ári í landinu.

Á tónleikum í New Jersey var kveikjara kastað af afli í punginn á Axl Rose. Vegna þess hve hann hafði verið slæmur í maganum síðustu daga bætti þetta atvik alls ekki úr skák. Hann dreif sig baksviðs til að ná andanum og Duff söng restina af laginu.


Í júlí árið 1993 sneru Guns n’ Roses aftur til Los Angeles og tónleikaferðalagið var á enda. Þessi tónleikaferð hafði verið sú lengsta í rokksögunni, en hljómsveitin hafði spilað á 192 tónleikum í 27 löndum fyrir meira en 7 milljónir manns!!!!
Eftir að hafa spilað á óteljandi mörgum stöðum í tveggja ára löngu tónleikaferðalagi tóku Guns n’ roses upp diskinn The Spaghetti Incident sem var fullur af eldri pönk- og rokklögum eftir t.d. New York Dolls, Charles Manson, T-Rex og Nazareth. Sá diskur var gefinn út 23. nóvember árið 1993.

Svo kom nú að því að hljómsveitin splundraðist!
Í júní 1994 var svo Gilby Clarke rekinn úr bandinu.
Slash stofnaði hljómsveitina Slash’s snakepit, og þeir gáfu út disk árið 1995 og spiluðu á rokkhátíðinni Monsters of rock í ágúst sama ár. Árið 1996 hætti hann svo opinberlega í Guns n’ Roses.
Duff og Matt Sorum stofnuðu hljómsveit með Steve Jones úr Sex Pistols, John Taylor úr Duran Duran. Fjórmenningarnir kölluðu sig Neurotic Outsiders og gáfu út disk árið 1996. Einu ári síðar hættu Duff og Matt Sorum svo algjörlega í Guns n’ roses.
Nú voru Axl Rose og Dizzy Reed einir eftir í hljómsveitinni. Axl Rose keypti Guns n’ roses-nafnið í janúar árið 1997og þeir Dizzy stofnuðu aðra hljómsveit undir sama nafni og sú fyrri. Hljómsveitin er skipuð eftirfarandi hljóðfæraleikurum:

Axl Rose, William Bill Bayley (söngur)
Fæðingardagur: 6. febrúar 1962
Fyrri hljómsveitir: A.X.L, Hollywood Rose og L.A. Guns

Dizzy Reed, Darren Reed (píanó)
Fæðingardagur: 18. júní 1963
Fyrri hljómsveitir: The Wild

Tommy Stinson, Thomas Stinson (bassi)
Fæðingardagur: 6. október 1966
Fyrri hljómsveitir: Dogbreath, Te Replacements, Bash and Pop og Perfect

Robin Finck (gítar)
Fæðingardagur: 7. nóvember 1971
Fyrri hljómsveitir: Prowess, Bat Your Lashes, The Hookers, Sik Dik, Impotent Sea Snakes, Sick MotherFuckers, Nine Inch Nails, Cirque Du Soleil,

Richard Fortus (gítar)
Fæðingardagur: ??
Fyrri hljómsveitir: Love Spit Love, Psychadelic Furs, Ben Folds Five, Gravity Kills og N’ Sync!! (spilaði líka oft með Britney Spears!!)
(Tók við af Paul Huge sumarið 2002)

Buckethead, Brian Carroll (gítar)
Fæðingarár: 1969
Fyrri hljómsveitir: Dei Creeps, Cornbugs, Praxis, Cobra Strike, Buckethead (sóló) og Primus.

Brain, Brian Mantia (trommur)
Fæðingardagur:
Fyrri hljómsveitir: Limbomaniacs og Primus

Chris Pitman (effektar og píanó)
Fæðingardagur:
Fyrri hljómsveitir: Bourgeois Kitten, Replicants og Aenima


30. nóvember árið 1999 kom út diskurinn Live Era 87-93. Eins og nafnið gefur til kynna inniheldur diskurinn tónleikaupptökur frá gömlu góðu árunum.

Von er á nýjum diski sem mun heita Chinese Democracy. Sveitin hefur spilað lögin á honum út um allan heim en diskurinn hefur ekki ennþá verið gefinn út…

svo að ég bíð bara spenntur :)

Heimildir:

www.geocities.com/SunsetStrip/Birdland/3381/
www.h eretodaygonetohell.com
www.mygnr.com