Í þessari grein ætla ég að fjalla um rockabilly-pönksveita X.

Hljómsveitin var stofnuð í Venice í Los Angeles í febrúar árið 1977 er John Doe og Billy Zoom settu báðir auglýsingu í sama blaðið á sama tíma um að stofna “no bullshit” hljómsveit.

John Doe átti rætur að rekja til Baltimore, hann var góður bassaleikari, lipur lagasmiður og töff söngvari.

Er hann flutti til LA kynntist hann stelpu frá Florida í ljóðasmiðju, hún hét Exene Cervenka og varð söngkona X. Exene hafði engan bakgrunn í tónlist en samdi góða ljóðræna texta. Hún og John byrjuðu saman og giftust síðar. Löngu síðar giftist Exene Viggo Mortensen en það er önnur saga.

Billy Zoom byrjaði að læra á píanó og fiðlu þriggja ára en byrjaði ekki að spila á gítar fyrr en hann var orðinn sex. Hann hafði áður spilað með rokkgoðsögninni Gene Vincent.

Eftir nokkra leit fundu þau trommarann D.J. Bonebrake sem þrátt fyrir nafnið var mesti rólyndismaður og sá meðlimur sem minnst fór fyrir. Hann átti framtíð fyrir sér í sinfóníuhljómsveitum en valdi pönkið í staðinn.

Hljómsveitin spilaði sína sérstöku blöndu af rockabilly og pönki og varð fljótlega stærsta LA pönksveitin ásamt Germs og Black Flag.

Ólíkt flestum félögum sínum í pönkinu voru X dúndurfærir hljóðfæraleikarar auk þess sem þau voru eilítið eldri, þannig að bæði sánd og textar voru talsvert þroskaðari og vandaðri heldur en gekk og gerðist án þess þó að slá neitt af LA pönk kraftinum.

Sveitin leit líka flott út á sviði. Billy Zoom, ljóshærður í silfruðum leðurjakka, var síbrosandi með útglennta fætur spilandi á Gretch silverjet. Exene var einfaldlega ógnvekjandi. John Doe hávaxinn dökkhærður og myndarlegur.

Fyrst smáskífurnar komu út 1978 og vöktu þær athygli fyrir myrka texta og var þeim oft líkt við annað Venice band þ.e. Doors. Það var því við hæfi að Ray Manzarek var upptökustjóri á fyrstu plötunni þeirra, Los Angeles.

Los Angeles (1980) er frábær rokkplata. Það fer mikið fyrir myrkum rokkurum s.s. Johnny Hit and Run Pauline (sem fjallar um nauðgara), Los Angeles og Sex And Dying In The High Society. Einnig eru tvö hæg lög Nausea og Unheard Music. Eina bjarta lagið er lokalagið The World’s a Mess (samt ekki bjartur texti).

Hljómsveitin kom fram í hinni merku heimildarmynd The Decline of Western Civilization eftir Penelope Spheeris, ásamt öllum helstu LA pönkböndunum.

Næsta plata, Wild Gift (1981), er mjög svipuð Los Angeles en aðeins fágaðari. Langbesta lagið er We’re Desperate sem er samblanda af Captain Beefheart og Ramones. Einnig eru gullmolar á borð við White Girl og In This House That I Call Home.

Næst kom plata Under The Big Black Sun (1982)og er hún að mínu mati besta platan þeirra. Aðeins hafa þau slakað á pönkinu og eru farin að kanna 50’rokk og Billy Zoom brillerar í rockabilly gítarleiknum. Textalega séð er þetta samt lang myrkasta plata þeirra enda er Exene að gera upp sorg sína eftir að systir hennar lést í bílslysi.

Síðan er eins og bandið missi dampinn, þau höfðu túrað mikið en seldu samt lítið af plötum. Þreyta var komin í bandið og pirringur.

More Fun In The New World (1983) er alveg ágætis skífa með mörgum fínum lögum en hverfur í skuggan af fyrri afrekum.

Er Ain’t Love Grand (1985) kom út voru John Doe og Exene skilin og Billy Zoom að hætta í bandinu. X er orðin poppsveit, búin að týna pönkrótunum en samt ansi góð poppsveit.

See How We Are (1987) er svo þokkalegasta rokkplata en sem fyrr nær hún hvergi að nálgast fyrstu plöturnar. Tony Gilkyson er tekin við gítarnum og er fínn gítarleikari en maður saknar sárlega Gretsch sándinu hjá Zoom.

Að lokum gaf bandið út tvöfalda tónleikaplötu, Live At The Whiskey A Go Go On The Fabulous Sunset Strip (1988). Dúndurþétt skífa sem tekin er upp á staðnum þar sem þau spiluð oftast á, glæsilegur mininsvarði sem spannar alla sögu sveitarinna en eins og skilja má er meginhlutinn af fyrstu plötunum.

Það er erfitt að meta áhrif X á rokksöguna, pönksveitir sem komu í kjölfarið reyndu frekar að hljóma einsog Black Flag eða (ef þau kunnu ekki á hljóðfærin) Germs. Einnig sem X sándið er svoddan júník að það er ekki hægt að stæla það með góðu móti, gretsch gítar að spila pönk. Hinsvegar má með sanni segja að hinn myrki raunsæis níhilismi í textunum hafi lifað áfram í gegnum bönd einsog Flipper, Husker Du yfir til Nirvana og grunge bandanna.