Rush Komið þið sæl. Af því að einhver var svo sniðugur að senda inn þessa nettu mynd af kanadísku hljómsveitinni Rush, datt mér í hug að senda inn sosum eins og eina grein um þessa frábæru hljómsveit, sem ég á þó ekki von á að mjög margir hér á Huga þekki. En ef ég hef rangt fyrir mér, þá er það bara hið besta mál! – Annars hefur Rush nú aldrei verið neitt gífurlega þekkt hérna á Íslandi (þótt þeir eigi sér svarna aðdáendur); það eru aðallega tónlistarmenn sem virðast þekkja þá (samkvæmt minni reynslu).

En hvað um það. Saga Rush byrjar á seinni hluta sjöunda áratugarins, í Toronto í Kanada, þegar tveir unglingspiltar, sem áttu það sameiginlegt að hafa mikinn áhuga á tónlist, kynntust í gagnfræðaskóla. Þetta voru þeir Alex Lifeson (fæddur 27. ágúst 1953) og Geddy Lee (fæddur 29. júlí 1953). Báðir voru þeir “nýbúasynir”, til að mynda var Geddy sonur pólskra Gyðinga sem höfðu komið til Kanada í stríðslok nánast beint úr Auschwitz, þar sem þau sluppu við guðs mildi við gasklefana. Alex var fæddur í fiskiþorpi í Bresku Kólumbíu, en foreldrar hans voru ættaðir frá Serbíu.
Þessir tveir ungu drengir höfnuðu á endanum saman í hljómsveit, þar sem Alex spilaði á gítar og Geddy á bassa, og aukið heldur kom það í hlut Geddys að syngja. Þeir fengu til liðs við sig pilt að nafni John Rutsey til að lemja húðirnar, og þar með var Rush orðin til.
Fyrst spiluðu þeir nánast eingöngu á skólaböllum og ísknattleiksvöllum, en þegar áfengisaldurinn í Kanada var lækkaður úr 21 í 18, fengu þeir inni á börunum. Smám saman jókst orðspor þeirra, og brátt nutu þeir töluverðar hylli í Toronto.

Árið 1974 gáfu þeir út sína fyrstu stóru plötu (sem þeir reyndar gáfu út sjálfir af því að enginn annar vildi gefa hana út), og sú plata hét einfaldlega Rush. Tónlist þeirra á þeirri plötu þótti bera töluverðan keim af Led Zeppelin og þvílíkri músík; einkum þótti há, hvell og skerandi rödd Geddys minna talsvert á Robert Plant.
Platan seldist vel, og barst á endanum til eyrna plötusnúða á útvarpstöðvum fyrir sunnan landamærin, þar sem hún vakti töluverða athygli. Það varð til þess að Rush var boðið í tónleikaferð um Bandaríkin og þeir ákváðu að slá til. En – þá kom upp vandamál.
John Rutsey hafði aldrei fundið sig almennilega með hinum tveimur, og einnig gekk hann ekki alveg heill til skógar þar sem hann þjáðist af sykursýki. Læknar höfðu þess vegna ráðið honum frá löngum ferðalögum, og þetta allt varð til þess að hann sagði skilið við hina tvo skömmu áður en tónleikaferðalagið átti að hefjast, Geddy og Alex voru alveg í rusli, enda mikið í húfi og þeir gátu alls ekki verið trommaralausir. Hvað áttu þeir að gera?
En heppnin var með þeim. Til skjalana kom ungur maður sem reyndist ekki aðeins vera góður trommuleikari, heldur átti hann eftir að hafa sterk og varanleg áhrif á hina tvo, bæði í tónlist og á öðrum sviðum. Þessi ungi piltur hét Neil Peart (fæddur 12. sept. 1952).
Neil var stórgóður trommari, en hann var meira. Hann var mikill lestrarhestur; einkum voru það vísindaskáldsögur og fantasíur ýmis konar sem hann hafði dálæti á. Hann hafði einnig mjög gaman af því að skrifa sögur og ljóð, og hafði mjög gott vald á ensku máli. Þetta tvennt varð til þess að með tímanum tók hann algjörlega að sér textasmíðar fyrir Rush, á meðan hinir tveir einbeittu sér að tónsmíðum; hlutverkaskipan sem þeir halda enn í dag.

Eftir fyrstu ferð þeirra til Bandaríkjanna fengu þeir samning við útgáfufyrirtækið Mercury, og árið 1975 komu út plöturnar Fly By Night og Caress of Steel, sem báðar seldust ágætlega í Kanada. Zeppelin-taktarnir voru óðum á undanhaldi fyrir flóknari tónlist, sem naut sín vel með vönduðum textum Neils.
Árið 1976 kom svo út platan 2112. Sú plata reyndist ákveðinn vendipunktur á ferli Rush, og segja má að með henni hafi þeir svo gott sem verið búnir að slíta barnsskónum tónlistarlega séð. Auk þess náðu þeir með þessari plötu fyrir alvöru inn á Bandaríkjamarkað. Á henni koma hugðarefni Neils hvað greinilegast fram, því á fyrri hliðinni er eitt samfellt verk, 2112, sem er eins konar framtíðarsaga í Orwell-stíl. Þessi saga er reyndar byggð á bókinni Anthem eftir rússneska rithöfundinn og heimspekinginn Ayn Rand (1905-1982), en sú bók kom út fyrir nokkuð mörgum áratugum og hefur sem meginþema mikilvægi einstaklingsfrelsis; efni sem ætíð hefur verið Rush (sérstaklega Neil) mjög hugleikið. – Í kjölfar þessarar plötu, sem hefur nú náð platínusölu, fylgdi hin líflega og skemmtilega tónleikaplata All The World’s A Stage.
1976 var líka tímamótaár í lífi Geddys, því það ár gekk hann að eiga æskuást sína, Nancy Young. (Og þau eru enn hamingjusamlega gift).

Næstu tvær plögur Rush, A Farewell To Kings (1977) og Hemispheres (1978), þóttu sýna að tónlist þeirra var óðum að verða æ flóknari. Hún hafði byrjað sem hálfgert þungarokk, en var nú farin að líkjast meir svokölluðu “framsæknu” rokki í stíl Yes, Genesis og þvílíkra hljómsveita. Meðlimir Rush höfðu allir vaxið og þroskast sem hljóðfæraleikarar, og söngur Geddys var ekki eins “gelgjulegur” og áður.
Breytingarnar á tónlist Rush komu enn berlegar í ljós á plötunni Permanent Waves, sem út kom árið 1980. Löngu verkin, sem höfðu verið svo áberandi á fyrri plötum þeirra, voru á undanhaldi fyrir styttri, léttari og melódískari lögum á borð við “The Spirit Of Radio”, og ári síðar “Tom Sawyer” á Moving Pictures. Þessar tvær plötur voru reyndar þær sem vöktu loksins athygli á Rush fyrir utan Norður-Ameríku.
Árið 1981, kom út önnur tónleikaplata þeirra, Exit… Stage Left, sem þótti gefa góða mynd af því hvað Rush var farin að njóta vaxandi vinsælda sem tónleikahljómsveit. – Geddy var á þessum árum farinn að spila í vaxandi mæli á hljómborð auk bassans, og þótti takast nokkuð vel upp.
Hljómborðin voru æ meira áberandi á næstu tveimur plötum, Signals (1982) og Grace Under Pressure (1984). Þær plötur seldust báðar stórvel, en fengu ekki eins góða dóma og fyrri verk hljómsveitarinnar. Þeir töldu sjálfir að þeir hefðu getað gert miklu betur, en þeir gera ætíð miklar kröfur til sjálfra sín. Engu að síður var tónlist þeirra stöðugt í þróun. Helstu breytingarnar sem fólk tók eftir, voru þær að Geddy Lee var farinn að syngja í lægri tóntegundum en áður (og að margra dómi miklu fallegar).
Á eftir fylgdu Power Windows (1985) og Hold Your Fire (1987), sem þóttu báðar vel heppnaðar. Þeir sögðu þó sjálfir mörgum árum síðar að báðar þessa plötur hefðu bókstaflega verið að drukkna í hljómborðum! Hins vegar kemur berlega í ljós á myndbandinu A Show Of Hands, sem kom út ásamt samnefndri tónleikaplötu árið 1989, þeirri þriðju í röðinni, hvað Geddy var fær í að spila á tvö hljóðfæri í einu auk þess að syngja. Það er mjög gaman að fylgjast með honum (og þeim öllum) á þessu stórskemmtilega myndbandi, sem tekið var upp á tónleikum í National Exhibition Centre í Birmingham í Englandi.

Þeir tóku sér nokkurra mánaða frí, áður en þeir sendu frá sér næstu stúdíóplötu. Það hefur verið eitt af einkennum Rush að tónlist þeirra hefur tekið stöðugum breytingum í gegnum árin, og engar tvær plötur eru eins. Þeir hafa líka alla tíð forðast það eins og heitan eldinn að staðna. Samt hafa þeir alltaf kunnað listina að fylgjast með því sem er að gerast í tónlist í það og það skiptið, en jafnframt halda sínum sérkennum. Á þessu ári (1989) lýsti Geddy því þannig: “Við höfum verið líkt og í fjallgöngu. Nú erum við komnir upp á tindinn, og nú þurfum við að ákveða hvaða stefnu við eigum að taka næst”.
Og áfram héldu þeir. Platan Presto kom út árið 1989. Þar mátti heyra að hljómborðatímabil níunda áratugarins var óðum á enda, og við höfðu tekið einfaldari útsetningar. Eiginlega mátti greina á þessari plötu, þótt góð sér á allan hátt, að þeir hafi verið eins og enn í nokkurskonar biðstöðu varðandi það, hvert þeir ættu að þróa tónlistina sína. En það var kannski ekki furða, því á þeim tíma sem níundi áratugurinn var að renna sitt skeið á enda, voru miklar hræringar í tónlistarlífi almennt, þ.e. fyrri stefnur voru að detta úr tísku og nýjar voru að taka við (t.d. grunge).
Sem einskonar kaflaskipti á ferli Rush, kom út á árinu 1990 tvöfalda safnplatan Chronicles. Hún er allgott yfirlit yfir það sem Rush hefur verið að gera í gegnum árin, og lýsir vel tímabilum og breytingum í tónlist þeirra.
Þróunin hélt áfram á Roll The Bones, sem út kom árið 1991, og Counterparts árið 1993. Á þeim plötum, sér í lagi Counterparts, var tónlist þeirra orðin “rytmískari”, en jafnframt var eins og þeir væru að leitast eftir að hverfa aftur til einfaldleikans. Hljómborð voru í miklum minnihluta, og einfalt gítar- bassa- og trommurokk í fyrirrúmi. (Sagt er að Alex hafi staðið fyrir þeirri þróun. Hann vildi ekki sjá hljómborð lengur! Þeir Geddy eru sagðir hafa rifist mikið yfir því, allt í góðu þó).

Eftir Counterparts og tónleikaferðalag sem því fylgdi, tóku þeir sér enn á ný frí, í þetta skiptið í eitt og hálft ár. Margar ástæður voru fyrir þessu langa fríi, til dæmis fannst þeim kominn tími til að hvíla sig aðeins frá hver öðrum og gera hluti sitt í hvoru lagi. Aðalástæðan mun þó hafa verið sú, að Geddy Lee og kona hans eignuðust dóttur, þeirra annað barn, og Geddy vildi vera heima hjá nýfæddri dóttur sinni. (Gott hjá honum).
Á meðan höfðu hinir ýmislegt fyrir stafni. Alex Lifeson gerði sólóplötu undir nafninu Victor, þar sem hann samdi sjálfur öll lög og texta, og lét hina og þessa syngja (aðallega gaur að nafni Edwin), einnig voru Charlene eiginkona hans og synir þeirra tveir honum til aðstoðar. – Neil Peart tók þátt í því að gera minningarplötu um jazztrommarann Buddy Rich, sem er látinn fyrir allnokkru.
Margir aðdáendur héldu að nú hlyti Rush að vera hætt. En sú var ekki raunin. Í lok ársins 1996 sendu þeir frá sér prýðisgóða plötu, Test For Echo. Sú plata sýndi að þeir voru ekki aldeilis dauðir úr öllum æðum, og lumuðu enn á góðum hugmyndum. Árið þar á eftir, 1997, komu út tvær safnplötur, Retrospective 1974-1980 og Retrospective 1981-1987. Allt virtist leika í lyndi hjá þeim núna. En – þá dundi ógæfan yfir.
Neil Peart varð fyrir því mikla áfalli í ágústmánuði 1997, að einkadóttir hans, Selena, lét lífið í árekstri. Þetta var ekki aðeins áfall fyrir Neil og fjölskyldu hans, heldur einnig hina í hljómsveitinni. Hlé var gert á starfsemi hennar um tíma.
Og ekki var allt búið enn. Jacqueline, eiginkona Neils, hafði greinst með krabbamein, sem að lokum dró hann til dauða í júní 1998.
Þrátt fyrir þessar hörmungar gáfu þeir í nóvember 1999 út fjórðu tónleikaplötu sína, sem ber nafnið Different Stages. Þetta er þreföld plata; tvær plöturnar innihalda nýlegar upptökur frá 1994 og 1997, og sú þriðja er gömul upptaka frá tónleikum sem Rush hélt í Hammersmith Odeon í London, árið 1977. – Geddy Lee sá að mestu um útgáfu þessarar plötu.
Þeir tóku sér allt í allt 5 ára frí frá tónleikahaldi, og í rauninni var starfsemi hljómsveitarinnar sett á algjört “hold”. Allan þann tíma talaði Neil aldrei nokkurn tímann við blaðamenn af neinu tagi, og Geddy og Alex gerðu reyndar ekki mikið af því heldur. Þeir forðuðust allavega að tala um Neil, til þess að vernda hann gegn ágangi fjölmiðla. Og nú voru sko allir vissir um að NÚ væri Rush endanlega dáin.

En það sannaðist á Neil að það sem drepur mann ekki, gerir mann sterkari. Og Neil kom sterkari út úr þessu hræðilega áfalli. Hann skýrir frá reynslu sinni í bók sem hann skrifaði ekki alls fyrir löngu, að nafni “Ghost Rider”, sem fjallar um ferðalag hans um Ameríku stuttu eftir dauða konu hans, þar sem hann var eins og að “finna sjálfan sig”. Reyndar fann hann á þessu ferðalagi ástina á ný í líki bandarísks ljósmyndara að nafni Carrie Nuttall, og þau gengu í hjónaband haustið 2001.
Þess má geta að Neil hefur skrifað aðra bók að nafni “The Masked Rider”, sem fjallar um ferðalag hans um Afríku á mótorhjóli. En Neil mun vera flakkari mikill, og hann hefur sérstakt dálæti á Afríku og Asíu.

En ekki leið á löngu þangað til að þá Rush-menn fór að klæja í fingurna að fara að spila og semja aftur. Og í maí 2002 sendu þeir svo loksins frá sér langþráða nýja plötu, sem bar heitið Vapor Trails. Hún fékk víðast hvar mjög góða dóma. (Mér finnst hún snilld). Í kjölfarið fóru þeir í fyrsta tónleikaferðalag sitt í mörg ár, spiluðu víða í Norður-Ameríku, og skelltu sér síðan til Brasilíu og spiluðu á “Rock in Rio” hátíðinni! Þau herlegheit eru svo á leiðinni bráðum bæði á diski og á DVD, sem lofar nett góðu miðað við það sem ég er búin að lesa… ;)

Þannig að saga Rush er alls ekki búin enn, og þeir eiga örugglega eftir að spila saman lengi enn…
En ég vona að þið hafið haft af þessari grein gagn og vonandi eitthvert gaman.
Ég þakka fyrir mig…

Kv. Hrafnista

PS: Heimildir mínar eru hinar og þessar greinar og viðtöl sem ég hef lesið hist og her á netinu.