Það var kannski ekki margt sem benti til þess að árið 1985 kæmi út eitt helsta meistaraverk rokksögunnar. Pönksenan var orðin þreytt og klisjukennd, jafnvel eighties-poppið var farið að láta undan síga, eina ljósið í myrkrinu var Madonna.

Hljómsveitin Black Flag frá Los Angeles hafði verið að frá því árið 1977. Alla tíð hafði hratt og hrátt hardcore pönk verið aðall sveitarinnar og verða fyrstu 7” og fyrsta LP platan Damage frá 1981 að teljast með kraftmestu og áhrifamestu hardcore pönk plötum allra tíma.

Black Flag túruðu ótrúlega mikið og varð það meðal annars til þess að títt var skipt um meðlimi sem og að þeir sem voru eftir urðu ótrúlega þétt unit.

Stöðugasta formið á bandinu var: Greg Ginn-gítar, Henry Rollins-söngur, Kira-bassi og Bill Stevenson-trommur. Á 17 mánuðum spila þau á 175 tónleikum. Það var því dúndurþétt band sem fór í Total Access stúdíóið á Redondo Beach í mars 1985.

In My Head er gjörólík öllum fyrri Black Flag plötum en samt er hún rökrétt framhald af fyrri verkum, það er eins og loks hafi Greg Ginn tekist að koma því frá sér sem hann hafði verið að reyna undanfarin ár með misjöfnum árangri. Platan er mun hægari en fyrri plötur og þyngri án þess þó að missa pönk kraftinn.

Sem fyrr er Greg Ginn aðal lagahöfundurinn og hugmyndasmiðurinn. Í gítarleiknum er einsog hann sé í stríði við sjálfan sig, skiptir úr myrkum riffum yfir í kaotísk sólo og aftur til baka. Gítarinn er vopn sem er hættulegt bæði honum og öðrum.

Henry Rollins er hættur að öskra einsog hann eigi lífið að leysa. Hann er ekki lengur bara vöðvafjall með hnefann lofti, heldur er kominn með yfirvegun pshycopatans einsog Travis í Taxi Driver.

Kira og Bill Stevenson eru dáleiðandi rythmapar sem hoppa úr pönki yfir í vals yfir í metal einsog ekkert sé.

Lögin:

Paralyzed (Rollins/Ginn)
Sterkasta lagið á plötunni. Gítarstríð Ginn í algleymingi. Rollins á textann þar sem hann fjallar um þunglyndis líðan sína, en hann bjó á þessum tíma í skúr og hafði lítil sem engin samskipti við fólk.

The Cazy Girl (Ginn)
Pönkvals um geðveika stelpu.

Black Love (Ginn)
Undarlegt lag með undarlegum texta, Rollins syngur einsog hann sé andsetin nokkrum demonum.

White Hot (Rollins/Ginn)
And-ástarsöngur. “Love me until I hate” og “Love me So I can tear you apart”. Sabbathleg riff.

In My Head (Rollins/Ginn)
Annað þungavigtarlag með geðveiku gítarstríði. Textinn er rosalegur, Henry Rollins á greinilega við alvarleg geðræn vandamál að stríða.

Out Of This World (Kira/Stevenson)
Rythmaparið semur þetta lag og tekst alveg þokkalega upp.

I Can See You (Ginn)
Ginn upp á sitt besta og Rollins syngur einsog fjöldamorðingi.

Drinking And Driving (Rollins/Ginn)
Loksins klassískt Black Flag Pönk. Rollins syngur um hversu heimskulegt er að vera alltaf fullur og vitlaus að keyra niður mann og annan.

Retired At 21 (Ginn)
Riffað lag um 21 árs morðingja.

Society’s Tease (Ginn)
Í sama anda og Retired og fjallar um gildi og norm.

It’s All Up To You (Ginn)
Ginn summar upp starf sitt með Black Flag.

You Let Me Down (Rollins/Stevenson)
Bitur Rollins syngur um gamlan vin. Lagasmíðin hjá Stevenson fellur vel að textanum og er þetta öflugur endir á plötunni.



In My Head er ein af þessum fáu plötum sem hægt er að skilgreina sem meistaraverk. Þarna koma saman lausir þræði af fyrri plötum og mynda eitthvað alveg nýtt sem aldrei hefur verið endurtekið.

Eftir upptökur á plötunni var Stevenson rekinn og eftir 4. mánaða túr hætti Kira. Ginn og Rollins héldu áfram að túra með nýjum gaurum fram í ágúst 1986, er Ginn leysti upp sveitina. Enda var verkið fullkomnað, Black Flag gat ekki gert betur, Ginn var búinn að stofna instrumental sveitina Gone 1985 og tileinkaði henni krafta sína. En aldrei náði hann sama flugi aftur sem hann náði á In My Head.