Saga King Crimson, 1. kafli: Giles Giles and Fripp Ég hef nú tekið þá ákvörðun að skrifa um allar plötur King Crimson fram að plötunni Three of a Perfect Pair (1984) og vonast ég til að nenna að skrifa þær allar.

Í upphafi voru bræður, Michael og Peter Giles. Spiluðu þeir á bassa og trommur. Þeir höfðu spilað mikið í misheppnuðum ballhljómsveitum í Englandi og voru orðnir þreyttir á ruglinu og stefndu til London 1968 í von um að stofna hljómsveit. Á leiðinni kynntust þeir Robert Fripp sem var virtuoso gítarleikari frá Bournemouth (þar sem ég dvaldi einn dag í sumar). Hann hafði spilað mikið með hljómsveit á hóteli einu við ströndina. Michael og Peter voru ekki að leita að gítarleikara sem gat ekki sungið, heldur hljómborðsleikara sem gat sungið. Þeir sáu eitthvað spennandi í þessum sveitalúða og buðu honum með sér til London. Þar hýrðust þeir í kompu einni í Soho með hæjóðfærin sín og vonina að fá plötusamning. Í Soho spiluðu þeir af og til en öryggisleysið og peningaleysið var mikið. Tónlistin sem þeir spiluðu er best líkt við Jazz-rock með grúv ívafi og nettri spilamennsku.

Þeir bjuggu til frumstætt stúdíó í stofunni fyrir þann litla aur sem Robert Fripp græddi á kennslu. Þeir kynntust einnig einum múltí-instrúmentalist (á góðri íslensku)
Ian McDonald. Tekið skal fram að hann hefur ekkert að gera með skyndibita. Sá merkilegi gaur spilaði m.a. á þverflautu, saxófón og klarinett. Auk hans komust þeir í kynni við söngkonuna Julie Dyble. Þau spiluðu mikið saman og tóku upp lög í stofunni í þessari að-hruni-kominni-kompu.
Að lokum fengu þeir sitt stóra tækifæri, plötusamning.
Þeir gáfu út hina sjaldséðu plötu The Cheerful Insanity of Giles, Giles and Fripp. Þetta tækifæri fengu þeir því að plötufyrirtækið gaf út rispu af plötum með ungum og spennandi hljómsveitum.

Mér hefir því miður ekki tekist að ná höndum yfir eitt eintak af The Cheerful Insanity en það er alger draumur. Hins vegar tókst mér að grípa geisladisk með gömlum upptökum sem þeir gerðu í stofunni heima hjá sér, þ.á.m. með Ian McDonald og Julie Dyble. Sá diskur er alveg frábær og hefur því miður ekki fengið tilskylda athygli. Peter Giles var orðinn þreyttur á peningaleysi og yfirgaf Giles, Giles and Fripp. Nú voru bara trommuleikari og gítarleikari sem gat ekki sungið eftir. Robert Fripp ákveður því að hringja í gamlan vin sinn, Greg Lake sem spilaði á bassa, Ian McDonald til að spila á hljóðfærin sín og að lokum Peter Sinfield sem var listaspíra og samdi ljóð og málaði myndir. Saman ætluðu þeir að vinna undir nafninu King Crimson og sigra heiminn.

To be continued…