INNIPÚKINN 2003

Fram komu:

Lovers Without Lovers
Innvortis
Hudson Wayne
Mugison
Egill Sæbjörnsson
Rúnk
Dr. Gunni
Botnleðja
Trabant

Ásamt:
DJ Bibbi
DJ Talnapúki
DJ Ostur

Það eru ekki allir sem nenna eða geta ferðast þvert yfir landið um Verslunarmannahelgi til þess að rennblotna, vakna með hálsrýg, eyða öllum peningunum sínum og sjá svo eftir öllu saman. Til allrar gæfu hafa ákveðnir aðilar (meðlimir Dr. Gunna og Rúnk) tekið það að sér að sjá um okkur letingjana á höfuðborgarsvæðinu og slá upp einni allsherjar ‘inni’hátíð; tónleikahátíð sem að þessu sinni stóð frá kl. 17:00 og langt fram á nótt. Þetta er nú ekki í fyrsta sinn sem þessi hátíð er haldin en sú fyrsta sem ég mæti á og svona upplifði ég hana:

Lovers Without Lovers – Mjög gott og blessað að gefa einni ungri og óreyndri hljómsveit tækifæri á því að sanna sig, en hljómsveitarvalið fannst mér frekar dapurt! Þetta eru fjórir strákar sem spila “acoustic” popp/rokk og dettur mér helst í hug að þeir eigi náinn ættingja í innsta hring tónleikahaldsins. Þeir hafa greinilega ekki spilað lengi saman, kunnu varla lögin (sem voru frekar slök) og gekk illa að halda í við hvorn annan. Þeim var þó vel fagnað af félögum sínum út í sal sem gaf þeim smá sjálfstraust (sem sárlega vantaði) þegar á leið. Ekkert alslæmt, annar gítarleikarinn sýndi það vel að hann getur ýmislegt, en bandið vantar meiri æfingu, betri lög og meiri karakter (og stilla gítarinn áður en þið farið upp á svið!).

Innvortis – Innvortis voru næstir og erum við þar að tala um reynslubolta með mörg ár að baki. Þeir spila “kaliforníu-ættað” melódískt pönk í hæsta gæðaflokki en því miður var mætingin á þá ansi slæm, sem sló þá svolítið út af laginu. Þar að auki slitnaði strengur í fyrsta lagi, svo gripið var í vanstilltan vara-gítarinn sem bara vildi ekki hljóma rétt. Þeir létu það þó ekki á sig fá, heldur keyrðu prógrammið í gegn með það sem þeir höfðu, eins og sönnum pönkurum sæmir! Sviðsframkoman var frábær (þó gítarleikarinn mætti taka meiri þátt) og það er hrein unun að fylgjast með Frosta á bassanum. Flóknar og öfgakenndar bassalínurnar hans eru það sem gefur Innvortis sinn stíl og lætin í honum fá alla, hina meðlimina meðtalda, til að brosa. Vel þétt og skemmtilegt band sem kom sínu eins vel frá sér og aðstæður leyfðu.

Hudson Wayne – Því miður náði ég ekki nema síðasta laginu hjá þessari sveit en það heillaði mig mjög. Draumkennt og flæðandi post-rokk með grípandi gítarlínum og sniðugum trommum, sungið með dimmri rödd; tónlist sem grípur alla manns athygli. Sé eftir því að hafa ekki horft á allt prógrammið og hlakka til að sjá þá aftur!

Mugison – Stjarna kvöldsins! Mugison, eins og hann kallar sig, gaf út hreint frábæra plötu (Lonely Mountain) í fyrra, en hefur ekki spilað mikið opinberlega, svo ég viti til. Þegar komið var að honum var fólk loksins farið að tínast inn í einhverjum mæli og komin hátíðarstemmning í salinn, þar sem helmingur gesta sat á gólfinu og hinir stóðu fyrir aftan. Mugison byrjaði á lagi sem hann sagðist kalla “Sound-test” og notar til að stilla græjurnar. Svo byrjaði prógrammið og Guð minn góður! Maður var hreinlega dáleiddur í c.a. 20 mínútur. Tónlistin er rafræn, hálf klaufaleg og barnaleg (minnir á köflum á Tom Waits) en svo heillandi og svo falleg, að ekki er hægt að lýsa því. Þetta er eitthvað sem þú þarft að upplifa sjálf/ur. Milli þess að fikta í græjunum spilar hann á gítar og syngur með. Flutningurinn var nánast óaðfinnanlegur og var magnað að fylgjast með framkomu Mugison, sem var einhver sú einlægasta sem ég hef orðið vitni af. Hann gjörsamlega átti salinn! Síðasta lagið var rólegt lag sem hann lét salinn syngja með sér og þvílíka samkennd hef ég ekki upplifað á tónleikum. Að lokum brutust út þau fagnaðarlæti sem Mugison átti svo sannarlega skilið og maður gekk fullnægður út og fann að honum hafði tekist það erfiða verk að sameina fólk með tónlist, manni þótti vænt um hvern einasta mann í húsinu.

Egill Sæbjörnsson – Þekki ekki mikið til þessa tónlistamanns, fyrir utan lagið “Tonk of the lawn”, og hefði viljað fylgjast með honum… en nú var hungrið farið að segja til sín svo við félagarnir skokkuðum niðr’á Nonnabita. Mæli með Lambabitanum!

Rúnk – Þó ég sé nú ekki yfir mig hrifinn af tónlist Rúnk, þá hafði ég mjög gaman af því að því að fylgjast með þeim. Framkoman var vægast sagt hressileg og skemmtileg en minnti þó gífurlega á Möggu Stínu og hennar atriði. Gaman var að fylgjast með þeim skipta um hljóðfæri og bandið virðist vera jafn þétt hvernig sem hljóðfæraskipanin er. Stelpan var heillandi (það er bara eitthvað við það að sjá stelpu spila á bassa) en ég vitna þó aftur í Möggu Stínu comment-ið. Annars skemmtilegt band og fær að sjálfsögðu hrós fyrir mikilvægi sitt í því að þessi hátíð sé haldin.

Dr. Gunni – Kóngurinn í íslenskri Alternative tónlist, Gunnar Hjálmarsson, hefur látið lítið á sér bera í hljómsveitarstússi síðan Unun var og hét, en hefur þó ekki horfið af sjónarsviðinu. Ég var búinn að bíða spenntur eftir að heyra nýtt efni frá honum og mér til mikillar ánægju er það meira í áttina að gömlu goðsögninni, “SH Draumur” og “Bless”, heldur en Unun. Þó örlítið hefðbundnara. Fyrstu fimm lögin voru keyrð í gegn án þess að stoppa, sem skapaði góða stemningu, og mátti heyra að þeir eru nokkuð vel æfðir. Skemmtilegt kæruleysis-rokk sem Dr. Gunni er meistari í. Hlakka til að heyra plötuna!

Botnleðja – Það þarf ekki að spyrja að því, það gjörsamlega trylltist allt þegar Botnleðja byrjuðu. Ég fékk það reyndar á tilfinninguna, í fyrstu, að þeir væru eitthvað illa fyrir kallaðir og pirraðir, en ef það hefur verið þá gleymdist það í fyrsta lagi. Reyndar tókst Ragga að slíta E-streng á bassanum, einmitt í fyrsta laginu, og stuttu seinna fór strengur hjá Heiðari svo Halli efndi til keppni sem endaði þó bara 1-1. Botnleðja er eitt þéttasta og reyndasta rokkband Íslands og sennilega öruggasta live-band landsins. Ég hef ellt þá út um allt síðan ’95 og þeir klikka aldrei. Það var sterkur leikur að láta Halla fá míkrafón því hann veit nákvæmlega hvernig á að vinna salinn með sprelli á milli laga. Þeir spiluðu nánast eingöngu lög af nýju plötunni “Iceland National Park” og með þvílíkum ákafa að maður gat bara ekki stillt sig um að hoppa í þvöguna, fá olnbogaskot, týna skónum sínum og fleira sem fylgir. Inn á milli létu þeir baula á sig, umorðuðu frasa, t.d. “Þið vitið að besti vinur ykkar er nauðgari”, gerðu grín að Eyja-böndunum og fengu salinn gjörsamlega á sitt band. Virkilega samstillt band og gaman að þeir séu komnir í keyrsluna aftur… og þessar nettu taktpælingar eru ekki til að skemma fyrir.

Trabant – Loka atriðið var Trabant og var það mjög viðeigandi. Húsið var troðfullt og það er akkurat þannig sem Trabant njóta sín best. Þá vantar ekki sjálfstraustið og framkoman var til fyrirmyndar… og spilamennskan ekki síðri. Tónlistin er hálfgert 80´s Popp, með kjánalegum synth-um og tölvutrommum, og grúvið í bassanum gerir það erfitt fyrir mann að standa kyrr. Stemningin var ótrúleg og manni leið eiginlega eins og á stórtónleikum, enda settu þeir upp hálfgert show þar sem þeir létu rigna niður glimmer-flögum, meðan þeir spiluðu Power-ballöðuna sína, og söngvarinn fór á kostum. Þeir enduðu þessa stórgóðu ‘inni’hátíð á glæsilegan máta og allir fóru sáttir heim… eða inn á næsta skemmtistað.

Þannig að Innipúkinn 2003 var semsagt bara mjög vel heppnaður og ekki var veðrið til að skemma fyrir því ekki var langt að rölta niðr’á Austurvöll, þar sem sem léttklæddar stelpur böðuðu sig í sólinni og kærastar þeirra spiluðu ‘hakkí’… sem gaf þessu rétta Festival fílínginn. Gott að vita að það sé hægt að skemmta sér um Verslunarmannahelgi fyrir aðeins 1800 kall og njóta töluvert betri tónlistar en t.d. Eyjar buðu upp á!

Takk fyrir mig!