Nýja platan með White Stripes kom út í síðustu viku og nefnist hún Elephant.
Platan er hreinasta snilld! Hún er í mjög svipuðum anda og White Bloodcells en þó ekki eins hrá að mínu mati. Platan var þó tekin upp á mettíma og hef ég heyrt því spáð að platan muni e.t.v. setja met að því leyti að hún muni verða söluhæsta “ódýra” plata allra tíma, semsagt með hæsta prósentulegum hagnaði.
Eftir að hafa hlustað á Elephant svona 10 sinnum myndi ég segja að hún sé mjög nálægt því að toppa White bloodcells í gæðum og er það enginn smá árangur! Þetta er þó ekki mikil framþróun frá fyrri plötum þeirra, svona svipað “hrátt-bílskúrs-blúsrokk”. Það helsta sem mætti minnast á sem gerir hana öðruvísi en þær fyrri er hversu ensk platan er. Platan var einmitt tekin upp í Englandi og er enskur gestasöngvari á síðasta laginu, Miss Holly Golightly og í fyrsta lagi plötunnar, sem jafnframt er fyrsti síngúllinn, er minnst á Englandsdrottningu. Á plötunni syngur Jack gamalt Burt Bacharach lag, I just don't know what to do with myself, og Meg syngur líka eitt lag óstudd, en það hefur hún ekki gert áður.
Það eru nokkur lög sem líkjast óneitanlega eldri lögum þeirra, t.d. er millikaflinn í There's no home for you here mjög líkur Dead leaves in the dirty ground, en þetta er þó ekkert sem skaðar plötuna.
Platan átti upphaflega ekki að koma út fyrr en nokkuð seinna í vor en þau ákváðu að flýta útgáfunni því platan var komin í heild sinni á netið. Jack White sagðist vera mjög óhress yfir því að fólk gæti ekki beðið eftir plötunni eins og óþekk börn sem opna jólagjafirnar fyrir jól.
Snilldarplata sem á heima í plötuskáp allra rokkara… sem og annara tónlistarunnenda!