Ég ætla að skrifa nokkur orð um hið ágæta band Crisp í tilefni af væntanlegri plötu þeirra.
Hljómsveitin Crisp var stofnuð af þremur bandarískum skólafélögum árið 1986 en gekk þá undir nafninu Revelations til að leika á skólaballi í Princeton skólanum. Stofnendur hennar voru þeir Phil Owens (gítar), Grayham Sobert (söngur) og James Edwin Smith (hljómborð). Upphaflega voru hljómsveitarmeðlimir nokkuð á reiki og ári síðar var James hættur og í stað þess genginn til liðs við sveitina vandræðaunglingurinn John Thorpe (betur þekktur undir sviðsnafni sínu Thunderous) hóf þá að berja húðir og skömmu síðar fékk hann vin sinn William Ruth til að plokka bassagítar. Hljómsveitin hvarf þá skjótt frá hinum upphaflega glysstíl og gerðist ný-síkadelísk (post-psychedelic). Hófu þeir þá að leika alltilraunakennt rokk og störfuðu neðanjarðar um tíma þar sem þeir upphófu sig sem eina af framsæknustu sveitum samtímans.
Árið 1990 - fjórum árum frá upphafi hélt sveitin í hljóðverið til að hljóðrita sína fyrstu breiðskífu þá starfandi undir nafninu Crisp eins og frægt er orðið. Platan var hespuð af í sanrhasti og kom út aðeins sex mánuðum seinna. Platan bar nafnið Alone with my Friends and Soldiers og innihélt hún mörg þeirra þekktustu lög eins og t.d The Well of Everlasting Freedom og Talking Ass.
Þeir Crispmenn héldu í kjölfar plötunnar í tónleikaferð um Bandaríkin og spiluðu í 17 borgum á jafn- mörgum dögum. Það var svo ekki að spyrja að því Alone with my Friends and Soldiers seldist sem heitar lummur og sveitin tryggði sér varanlegan sess í rokksögunni.
Snemma árs 1991 héldu Crispmenn aftur í hljóðverið til að vinna að þeirri skífu er margir telja þeirra bestu; The Wild Hunt. Platan sú var ansi lengi í smíðum (um ár) enda mikið um allskyns tilraunastarfssemi og flóknar tónsmíðar. Brátt fóru að óma hinar ýmsu gagnrýnisraddir um það að Crispmenn færu sér of hægt og væru í raun að þorna upp í hljóðverinu. Það var þó sannarlega ekki raunin og um leið og skífan kom út þögnuðu allar efasemdaraddir. Platan var lofuð í hvívetna og sveitin prýddi jafnvel forsíðu hins rómaða tónlistartímarits Rolling Stone og fylgdu þar á eftir ekki ómerkari mönnum en Bítlunum og Rolling Stones.
Platan The Wild Hunt er nokkuð ólík frumburði sveitarinnar en er almennt talin betri (og það tekur greinarhöfundur undir). Mörg snilldarlög er að finna á henni eins og til dæmis QW-3 og Never Again to Protest. Hápunktur plötunnar hlýtur þó samt að vera meistarastykkið Thunder in the Valley þar sem að sveitin nýtur fulltingis ekki ómerkari manns en Brian Eno (sem hefur til dæmis unnið með David Bowie). Útkoman er stórglæsileg og lætur engan ósnortinn.
Hljómsveitin hélt þvínæst í ferð um Bandaríkin, Evrópu og Suð-Austur Asíu. Tónleikaferðin var mikill sigur og hitaði sveitin jafnvel upp fyrir George Harrison og Eric Clapton í Japan 1992.
Eftir þessa velheppnuðu tónleikaferð huguðu meðlimir að gerð næstu plötu en þar nutu þeir fulltingis sinfóníuhljómsveitar San Fransisco. Platan, sem að lokum varð tvöföld þótti fara langt yfir strikið í íburði, enda var ekki neitt lag á henni undir 10 mín. og voru útsetningar allar mjög flóknar. Platan, sem hlaut heitið Journey to Alpha Centauri, vakti ekki jafn mikla lukku meðal gagnrýnenda og fyrri verk sveitarinnar, en einarðir aðdáendur tóku henni fagnandi. Vinsældir sveitarinnar dvínuðu þó nokkuð, þrátt fyrir að lagið Back to Atlantis hafi notuð nokkurra vinsælda.
Að vanda héldu Crisp í veigamikla tónleikaferð til kynningar plötunni, og að þessu sinni varð Skandinavia ekki útundan. Þó þurftu þeir að snúa aftur heim á miðri Asíuferð sinni sökum veikinda Phil Owens gítarleikara, en hann var orðinn illa haldinn af hvítblæði. Eftir það tóku þeir sér hlé um nokkurra ára skeið sökum þess að Owens lést skömmu síðar (17.11.1995).
Nú vinna þeir Crisp-liðar að nýrri plötu sem verður tileinkuð minningu Phil Owens, en hún mun innihalda ókláruð lög hans ásamt lagi sem félagarnir hafa samið honum til heiðurs. Það verður gaman að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér hjá Crisp.

Crispfan