Dagurinn er 7. febrúar 2003 og Ísland er óðum að vinna sig úr skammdeginu. Þetta er merkisdagur að því að leyti að í verslanir er komin ný breiðskífa eftir konung alternative country rocks, Will Oldham. Plötuna gefur hann út á listamannanafninu Bonnie ‘Prince’ Billy en þetta er fyrsta breiðskífa hans síðan meistaraverkið ease down the road kom út árið 2001. Eins og einhverjir muna kannski eftir, hélt Oldham eftirminnilega tónleika hér á landi í kjölfar útgáfu þeirrar plötu.
Nýja plata Oldhams er ögn rólegri og minna unnin en sú síðasta en sú staðreynd gerir plötuna sem heitir master and everyone eiginlega fallegri og þægilegri fyrir vikið. Ég mæli með því að allir áhugamenn um ljúfa og fallega rokktónlist taki sig til og geri sér leið niðrí tólf tóna eða Japis og kaupi þessa stórgóðu plötu.
Ég er hræddur um að við eigum aldrei eftir að sjá meistarann aftur hér á landi þar sem Hljómalind er að leggja upp laupana, en engu að síður þarf að efla óháðan tónlistariðnað hér á landi og þar með styðja óháða og metnaðarfulla tónlist.
Ekki kaupa plötur ykkar í Skífunni og efla þar með heilalausan og okurkenndan plötuiðnað. Ef svo færi að skífan verður eina plötubúðin sem lifir af hérna á þessum litla markaði þá getum við í framtíðinni aðeins þakkað fyrir að hér hafi einhverntíman komið listamenn á borð við Low, Will Oldham, Nick Cave, “Godspeed” og fleiri. Ég er ekki að segja að Coldplay, fatboyslim eða Ash sé ekki frambærileg tónlist en þurfum við virkilega að borga 2500 kr. fyrir plöturnar þeirra. Eina leiðin til að koma í veg fyrir þetta er að við unga fólkið hættum að versla við þennan plöturisa sem stuðlar aðeins að því að heilaþvo ringlaða unglinga með ómetnaðarfullri tónlist.
Ég afsaka að ég hafi ekki getað gefið mér nægan tíma í að skrifa þessa grein en mæli engu að síður eindregið með að þið kaupið nýju plötu Will Oldham, master and everyone. Hún er svo sannarlega þess virði.