KoRn - Sagan í "stuttu" Ég ætla ekki að fara út í einhverjar persónulýsingar, “af hverju hann syngur um þetta og þetta lag er um þetta”. Það er orðið old og finnst mér vanta almennilega grein um þá félaga í KoRn, þeirra feril og lífið eftir pöbbatónleika. Ég sendi þessa grein á Rokk þar sem tvær aðrar voru komnar á Metall. Hinar voru svo sem ekkert slæmar, ég vil bara segja þeirra sögu almennilega þó ég upplýsi ekki alla mína vitneskju. Ef ég gerði það þá væri þetta ENN lengra og komið út í leiðindi að mínu mati.

Við byrjum snemma á tíunda áratugnum. Nokkrir kunningjar ákveða að stofna litla hljómsveit og reyna að meika það í hinum stóra heimi. Það tók svo sem ekki langan tíma því þegar þeir voru orðnir 3, þeir James Schaffer, Reginald Arvizu og fyrrum söngvarinn, Rich Morrill, þá fengu þeir til liðs við sig trymbil nokkurn að nafni David Silveria. Sá var ungur en miðað við aldur alveg afskaplega efnilegur. Til varð hljómsveitin LAPD. Þeir gerðu nokkur demo lög en ekkert þeirra kveikti áhuga plötuútgáfufyrirtækja. Þrátt fyrir það spiluðu þeir á litlum pöbbum um Californiu og við litlar undirtektir, enda ekkert afskaplega spennandi hljómsveit þá. Þeir ákváðu þá að bæta við gítarleikara til að þyngja sándið og þétta það, en þá gekk til liðs við þá vinur James Schaffer, ungur drengur og einhverskonar 80´s týpa að nafni Brian Welch. Við þetta þá urðu þeir aðeins efnilegri en söngvarinn þótti alltaf frekar ómerkilegur og lítið spennandi. Hann sagði svo loks skilið við sveitina eftir stutta samverustund og LAPD var við það að leysast upp. Ekkert gerðist í nokkurn tíma, draumur þeirra varð að engu og pöbbaröltið fór að segja til sín.

Á svipuðum tíma var hljómsveit annarsstaðar í Californiu að nafni SexArt. Sú hljómsveit var líka LAPD að því leitinu að þeir “meikuðu” það aldrei. SexArt skipuðu Dave Deroo bassi, Dennis Shinn trommur, Ty Elam söngur, Ray Solis gítar, Ryan Shuck gítar og Jonathan Davis söngur. Þeir túruðu á milli pöbba í heimabæ sínum og um Californiu en varð aldrei neitt númer. Þeirra þekktasta lag er lagið Inside þar sem heyrist ekki mikið í Jonathan en hann hljómar frekar eins og grunge gaur heldur en það sem hann átti eftir að verða. Þegar hljómsveitin leystist upp var til hljómsveitin Juice sem að hluta til var skipuð fyrrum meðlimum SexArt en árið 1998 leystist hún upp og varð að annarri hljómsveit, kölluð Videodrone. Videodrone lifði ekki lengi, ein smáskífa, Ty Jonathan Down og lítil sala. Hún leystist svo upp og varð að nýrri hljómsveit og með nýjan söngvara, Mark Chavez og er hálfbróðir Jonathan Davis, fyrrum söngvara SexArt. Sú nýja hljómsveit er Adema. Margir vilja trúa að Jonathan hafi hjálpað litla bróður og Adema við upptökur á plötu þeirra en hann kom ekki nálægt því. Mark og Jonathan hafa í raun aldrei verið mikið í sambandi, frekar verið einskonar “fjarbræður”. Þó er Jonathan stoltur af litla bróðir fyrir að komast loksins áfram en ég vil meina að Adema lifi á því að Mark er litli Jón og að þeir hafi fengið athyglina út af því.

Á þeim tímamótum þegar LAPD var uppleyst og SexArt enn að spila en við það að leysast upp, voru meðlimir LAPD að leita sér að söngvara þó þeir væru búnir að gefa upp alla von um að “meika” það. En líf þeirra tók nýja stefnu þegar félagarnir Brian og James voru á enn einu pöbbaröltinu og enduðu inná einum barnum og sáu tónleika SexArt. Þar sáu þeir Ty Elam og Jonathan Davis syngja og þeir stórféllu fyrir Jonathan. Þeim þótti hljómsveitin sama og rusl en eitthvað við Jonathan heillaði þá. Þó sennilega röddin, öskrin og “spassahreyfingarnar” hans frægu. Þeir töluðu við hann og buðu honum stöðu sem söngvari í bandinu sem þá átti að heita Creep. Hann neitaði til að byrja með þar sem hann væri í SexArt og væri þeim trúr. En hann fékk þó efasemdir og fór til ódýrrar spákonu sem sá það í kúlunni sinni að hann væri einfaldlega bilaður ef hann tæki þessu tilboði ekki. Hún sá eitthvað merkilegt virðist vera…

Þeir könnuðust allir við Jonathan og Jonathan við þá, enda var Jonathan mikið strítt í skóla og þar á meðal af Fieldy en hann gerir það hvort eð er ennþá. Svona til gamans þá er HIV tattúið hans bara skot á allar þessar sögur um að hann sé hommi og sé með alnæmi, en hann málaði sig í stíl við margar 80´s hljómsveitir, sem dæmi Duran Duran. En allavega, Jonathan tók boði þeirra og gekk til liðs við Creep árið 1993. Til að byrja með þá sagði hann að þeir yrðu að breita sándinu, þeir væru of léttir og of glaðir í sándinu. Hann vildi einnig að nafninu yrði breitt og þá kom nafnið KoRn til sögunnar. Hinum meðlimum fannst það ekki flott til að byrja með þangað til þeir heyrðu meininguna á bakvið það. Sagan er sú að Jonathan heyrði á pöbb tvo samkynhneigða karla tala saman um sína kynlífsóra og hvað þeir vildu gera við hvorn annan um kvöldið. Ég ætla ekki að fara út í nánari lýsingar á því en það viðkemur frekar ógeðfeldri athöfn og inniheldur “corn”. Þegar meðlimir hinar nýju hljómsveitar föttuðu þetta þá samþykktu þeir nafnið KoRn. KoRn lógóið varð til þegar Jonathan var að leika sér að skrifa með vinstri hendi með Crayon lit og fór að hugsa um nafnið Korn og út kom þetta lógó þeirra sem er eins og að barn hafi skrifað það. Öfugt R og frekar barnalegt í útlit enda stíla þeir svolítið á uppvaxtarárin í textum Jonathans.

Sama ár gerðu þeir “bílskúrsprufuteip” sem kallaðist Niedermeiers mind og innihélt 4 lög. Blind, Pradictable, Alive og Daddy. Teipinu dreyfðu þeir sjálfir í skólanum sínum og í verslanir. Svo tóku þeir uppá því að selja boli í pool-party tónleikum sínum og seldust þeir víst ágætlega. Þeir sendu teipið til nokkurra útgefenda en enginn sagðist hafa áhuga á svona tónlist og að þetta mundi aldrei ná sölu. En allt kom fyrir ekki, Immortal Records hafði samband og gerðu þeir samning við þann útgefanda og eru hjá þeim enn þann dag í dag. Fyrsta plata þeirra kom út árið 1994 og kallaðist einfaldlega KoRn. Hún var pródúseruð af meistara Ross Robinson og hefur þessi fyrsta plata KoRn þótt hans besta efni hingað til. Hún seldist vel miðað við no-name band og fleiri fóru að sækja tónleika þeirra. Allt var farið að gerast hjá þeim félögum og var Blind farið að hljóma í útvarpi um land allt. Þóttu þeir mjög ólíkir því sem áður hafði verið og þótti söngur Jonathan einkar merkilegur. Þeir fengu einhver verðlaun á MTV þetta árið fyrir Shoots and Ladders lagið/videoið. Nafn þeirra fór að stækka og stækka og fljótlega voru þeir hættir að spila í bakgörðum og komnir í stærri sali og voru farnir að hita upp fyrir stærri nöfn og það þótti þeim ótrúlega skemmtilegt, enda breakthrough moment.

Eftir gríðargóðar viðtökur á KoRn þá var slegið til og Life is Peachy var tekin upp árið 1996. Ross Robinson var aftur við stjórnborðið og var mikill spenningur og miklar vonir bundnar við þá í KoRn. Vonirnar voru það miklar að Immortal fóru að pressa svolítið á þá að skila sínu efni og þótti Ross að þeir hafi ekki fengið sinn tíma til að klára LiP almennilega og gera hana betri. Þó þykir hún með eindæmum góð og hafa lög af henni verið vinsæl síðan. Má þar nefna A.D.I.D.A.S. og Good God sem dæmi. Þegar hér er komið við sögu þá er drykkjuvandamál meðlima hljómsveitarinnar orðið eilítið vandamál þó það hafi ekki verið lífshættulegt. Voru þeir farnir að missa smá einbeitingu og farnir að hugsa meira um partí og læti. En þeir skiluðu sínu tímanlega og Immortal brostu. Þeir skutust upp í 3 sæti Billboard listans og við þau tíðindi fannst þeim þeir vera að meika það loksins. Tvöþúsund eintök á viku var rosalegt fyrir þá og voru vonir þeirra enn stærri núna. Stór samningur var undirritaður við Adidas um að þeir myndu klæðast þeirra fatnaði enda búnir að gera það mikið síðan KoRn kom út, eiginlega þeirra stíll.

Ekki leið á löngu þar til þriðja plata þeirra leit dagsins ljós og nefnist hún Follow the leader (1998) og er sögð þeirra vinsælasta og sú sem kom þeim rækilega á kortið. Upptökuferlið tók sinn tíma því tíminn og peningarnir sem fóru í drykkju, partí og fleiri tonn af bjór fyrir þá sjálfa og vini var farið að láta á sjá. Þeir eyddu 27þúsund dollurum í bjórtunnur. Brian og James áttu erfitt stundum með að spila, Fieldy var oft svo fullur að hann var ekki viðræðuhæfur og Jonathan gat varla sungið fyrir ógleði og var engan vegin í takt við lögin, hvað þá með röddina í lagi. Hann var oft svo fullur að hann var við það að æla og mundi ekki textana, hvenær hann átti að syngja og um hvað. Sá eini sem var í raun með viti var litli David. Þetta fór svolítið í taugarnar á hinum meðlimum en þetta tókst að lokum og úr varð stórplata. Meðal laga sem á henni eru er Got the life, Freak on a leash og All in the family, en það eru þekktustu lögin af henni. Vinsældir þeirra ruku upp úr öllu valdi og sala á þeirra efni jókst svo um munaði. Þeir semsagt voru ekki lengur einskonar underground band heldur voru þeir orðnir þekktir og í raun soldið mainstream þó þeir voru ekki í líkingu við neitt annað band. Samningur þeirra við Adidas rann út og reyndu Adidas að endurnýja samninginn en KoRn sömdu að lokum við Puma.

Frægðin var orðin erfið fyrir þá félaga undir lok 1998 og voru rifrildi þeirra á milli orðin dagleg og alvarleg. Þó var þetta ekki frægðin að gera þeim lífið leitt heldur voru þeir komnir með leið á hverjum öðrum. Þeir voru saman 300 daga á ári 24 tíma sólarhrings og var það farið að pirra þá. Oft sáust þeir rífast á hótelgöngum og þó sérstaklega Jonathan og Fieldy. Munky og David áttu einnig í erjum en sá sem þótti þá vera með viti og reyndi að róa liðið var froðuhausinn Brian. Það gekk illa að halda hinum rólegum og oft á tíðum voru þeir við það að hætta. Meðal þess sem fór í taugarnar á hinum var það að Jonathan átti það til að ráfa um herbergin þeirra og upp í rútur meðan þeir voru sofandi og röfla um hversu mikil fífl þeir væru og reyndi oft að bíta þá en hann er með eitthvað biting fetish. Þeir báðu hann að taka sig á en hann gerði það ekki. Á þessum punkti var KoRn að leysast upp. Mörgum tónleikum var frestað vegna drykkju meðlima eða vegna rifrildis. Fieldy læsti sig inná klósetti í eitt skiptið eftir rifrildi við Jonathan og neitaði að koma út. En svo loks fékk Jonathan vitrun og hann fattaði það að líf hans var að fjara út. Það gerðist tvisvar að ég held að Jonathan þurfti að stoppa á tónleikum vegna súrefnisskorts en hann átti stundum erfitt með að stjórna sjálfum sér á tónleikum, oft vegna drykkju og óreglu og eflaust hefur hann einfaldlega gengið of langt einhvern tíman og bara misst andann. Líkami hans var að gefa sig vegna ofdrykkju, fíkniefna og reykinga. Hann var farinn að kippast til uppúr engu og átti erfitt með sjálfan sig. Hann hætti einn daginn að drekka og sagði skilið við eiturlyfin. Þetta hafði hann ekki gert, að eigin sögn, ef það væri ekki fyrir áhangendur KoRn. Við þetta fóru þeir nú að standa við sitt og halda tónleika af viti og Follow the leader var að toppa Billboard listann. Einnig stofnuðu þeir sitt eigið útgáfufyrirtæki þetta árið, Elementree Records og voru frumkvöðlarnir að Family Values tónleikaferðalaginu.

Allt fór svo að skánaÞeir voru orðnir svo yfirfullir af efni að þeir ákváðu að gefa út aðra plötu ári seinna og voru orðrómar á kreiki að hún átti að heita “Production of life” en endaði á því að heita einfaldlega Issues. Issues nafnið er dregið af textum Jonathans sem hann sagði að væru meira um seinni ár hans og um hans erfiðleika. Pródúserinn var valinn og var hann Brendan O´Brien Issues var furðulegri en fyrri 3, innihélt interludes og var í raun ein stór tilraun á nýju sándi. Mörgum þykir þetta ekki merkileg plata en hún er betri en margir telja þó hún sé ekkert samaborið við KoRn og Life is Peachy. Þeir héldu samkeppni um coverið á Issues, fengu þeir yfir 20þúsund myndir og voru þær margar mjög flottar og vel teiknaðar, en margar einnig algjört sorp. Þær smáskífur sem gefnar voru út af Issues eru Falling away from me, Make me bad og Somebody Someone. Þeir hófu stærsta tónleikatúr sinn strax eftir útgáfinu á Issues og var það kallað Sick & Twisted tour. Sviðið sem þeir létu gera fyrir sig innihélt m.a eldsúlur, risastóran “Issues-bangsa”, woodoo dolls af þeim sem hengu í loftinu á ljósakrónu og margt fleira. Sviðið mar s.s mjög lifandi og alltaf að breytast. En á einum tónleikunum gerðist leiðinlegur atburður. David tók of hart á því og braut á sér úlnliðinn. Eftir þetta gekst hann undir 3 aðgerðir á úlnlið og var fólk farið að halda að hann mundi aldrei snúa aftur. Hann lék gestahlutverk í einhverjum lögfræðiþættinum og slúður um að hann ætlaði að hætta í KoRn fyrir leiklistarferilinn var eintómt bull. Til þess að fylla upp í skarð Davids fengu þeir fyrrum trommara Faith No More og núverandi trommara Ozzy Osbourne, Mike Bordin. Hann lærði 12 lög á 2 dögum og fór að spila strax með þeim en David var ekki fjarri. Hann sat alltaf við hliðiná trommusettinu og missti ekki af einum tónleikum. Vandræðin voru ekki að baki. David þurfti ekki einungis að ganga undir aðgerðir á úlnlið heldur þurfti hann að fara undir hnífinn til að fjarlægja rif úr honum, en hann átti erfitt með að anda þegar hann trommaði því rifin þrýstu svo á lungun. Hjónabandserjur fóru að angra þá Jonathan og Fieldy og skildu þeir svo við eiginkonur sínar.

Langur tími leið þar til næsta breiðskífa KoRn lét sjá sig. Á meðan notuðu þeir tíman til að leyfa David að jafna sig og til að semja nýtt efni. Þeir nýttu sér einnig tímann til að setja saman næstu heimildarmynd sína, Who then now2 eða rétt nafn, Deuce. Rúmum tveimur árum eftir útgáfu Issues fóru þeir í stúdíóið og byrjuðu að taka upp nýtt efni. Það tók tíma því David mátti ekki tromma en þeir tóku upp nokkuð demo af lögum, þ.e bara gíturum og bassa. Jonathan hefur eflaust trommað undir, enda var hann upprunalega trommarinn í SexArt og trommar að hluta til á Issues. Loksins kom David og trommaði sína takta inná upptökurnar og Jonathan flaug til Skotlands og tók upp sönginn í einhverjum gömlum kastala. En eftir 3 ára bið og tæplega ár í stúdíó kom Untouchables út. Veskin þeirra léttust um 4 milljón dollara en sá peningur fór ekki í plötuna eins og margir halda. Þeir tóku Untouchables upp bæði í Malibu og Phoenix, Arizona og kostaði það slatta að færa sig og sína ásamt drasli á milli. En peningurinn fór líka að hluta til í að leigja risastórar “hallir” og strippara. Platan þykir nú betri en Issues og hingað til selst betur. Fyrsta smáskífa plötunnar er Here to stay en þar á eftir kom Thoughtless. Næst er Alone I break sem er það rólegasta sem þeir hafa gefið út en alls ekki slæmt lag. Keppnig var haldin til að finna director á Alone I break myndbandinu og var það nýlega frumsýnt. Mörgum finnst þeira vera að missa það en mitt álit og margra annarra er það að þeir hafa bara þroskast og vilja vanda sig betur nú til dags. Jonathan lét hönnuð Alien kvikindana hanna fyrir sig mic-standinn og er hann eins konar cyber-whore í útliti. Svo má nefna að Jonathan fékk söngþjálfara til að æfa upp röddina svo hann mundi nú ekki missa hana enn aftur..

En svo ég bregði aðeins út af sögunni, þar sem þetta er lauslega komið hjá mér þá langar mig að nefna það sem þeir hafa gert sér og öðrum til skemmtunar undanfarið. David hefur opnað sushi stað í Californiu sem ég man ekki hvað heitir, en hann opnaði staðinn með eiginkonu sinni. Munky gifti sig loksins árið 2000. Jonathan samdi ásamt Richard Gibbs tónlistina í Queen of the Damned en fengu aðstoð frá Brian og Munky ásamt bassaleikara Limp Bizkit, Sam Rivers. Jonathan syngur inná lögin í myndinni, en á soundtrackinu sjá Marilyn Manson, David Draiman, Jay Gordon, Chester Bennington og Wayne Static annars um sönginn. Jonathan ætlar að opna raðmorðingjasafn á næstunni en þar má sjá t.d Bjölluna sem Ted Bundy átti og undirrituð játning hans, trúðabúningana sem John Wayne Gacy átti, bréf til foreldra fórnarlamba frá mannætunni Fish þar sem hann lýsti því hvernig hann myrti og át börn þeirra ásamt fleiru. Brian og Munky hafa fengið sérmerki hjá Ibanez, kallast einfaldlega K7, K fyrir KoRn og 7 fyrir, duh, 7 strengja gítar. Fieldy fékk einnig sérmerki, K5. Þið fattið þetta. Þeir eru reglulega með spjall á korntv.com og svo margt margt fleira.

Ég ætla að láta þetta nægja enda orðið of langt held ég. Eflaust fáir sem nenna að lesa þetta því KoRn virðist ekki falli í kramið hjá mörgum í dag. Ég hef verið mikill KoRn fan síðan 1996 og er það enn og skammast mín ekkert fyrir það. Ég fer ekki í kleinu og ber frá mér með kjafti og klóm þó einhver dissi þá enda er það bara þeirra álit og hefur engin áhrif á mig svo þið getið sparað skítkastið mín vegna, já eða komið með flóð af því. Mér er sama… Eflaust eru einhverjar staðreyndarvillur inn á milli en þetta var allavega mitt framlag inn á þetta áhugamál og vildi ég fjalla um mína hljómsveit og reyna að gera það almennilega en ekki á stuttan máta né beina þýðingu úr Who then now.

Takk fyrir mig…
Þetta er undirskrift