Animals Pink Floyd – Animals (1977)

Um spil sáu;
David Gilmour – gítar, raddir
Roger Waters – bassi, gítar, raddir
Richard Wright – hljómborð, raddir
Nick Mason – trommur

Fyrir mér er Animals ein af topp fimm* Pink Floyd plötunum, en um leið mjög vanmetinn gripur. Má eiginlega segja að Animals sé milli steins og sleggju, árin á undan komu Dark side of the moon og Wish you were here út, og svo tveimur árum eftir útgáfu Animals kemur stórverkið The Wall út. Þó stendur Animals uppúr að því leitinu til að umslagið er mjög frægt, en ekki síður flott. Frábær hönnun á ferðinni, eins og á flestum umslögum þeirra félaga.

Flestu góðu fylgir eitthvað illt. Það er að nokkru leiti ljóst að við þessa plötu mörkuðust ákveðin skil á milli Roger Waters hins vegar og svo hinna meðlima Pink Floyd. Waters virtist missa áhugann á þeim, fannst hann ekki eiga eins mikla samleið og áður. Þess má geta að Wright og Mason voru að miklu leyti fjarverandi við upptökur á The Wall. En að öðru.

Það verður ekki annað sagt en að Animals sé mjög pólitískt verk, uppar þess tíma eru krufnir til mergjar og marg brotnir niður. Samfélagið er að þróast í þá átt að einungis peningar skipta máli, allt er falt fyrir rétt verð. Þetta endurspeglar vissulega sumt af fyrri verkum bandsins. En nú er toppnum náð í myrkri og samfélags gagnrýni, og er það vel. Að tónlistinni.

Platan inniheldur fimm lög. Byrjar og endar á tveimur stuttum verkum sem heita Pigs on the Wing (part 1) og svo (part 2). Þetta er einfaldlega brauðið sem innilokar kjötmikla samloku. Þarna á milli má finna eitt af mínum allra uppáhalds Floyd lögum, en það er lagið Dogs. Magnað verk. Fræg er sagan þegar Pink Floyd voru að flytja Dogs á tónleikum, og einhver óprúttinn einstaklingur hrópaði “hey, á ekkert að spila Money hérna eða??”, snýr Waters sér þá að honum og spyr hann einfaldlega hvort hann vilji ekki bara halda sýnum málum fyrir sig og sína vini, og leyfi þeim sem á sviðinu séu að sjá um spilið. Var þetta ein ástæða fyrir því að Roger Waters vildi einfaldlega byggja vegg á milli hljómsveitarinnar og áhorfenda. Lái honum sá er vill.

Hin tvö lögin, Pigs (three diffrent ones) og Sheep eru þess fullkomnlega verðug að verma þennan disk. Bassinn í Pigs nær sé á slíkt flug að erfitt er að finna annað eins í spili hjá þessu bandi. Svo klikkar gítarleikur David Gilmour auðvitað aldrei, maðurinn hefur margsannað það.

Verk sem menn ættu að reyna hlusta á allavega einusinni, athuga hvort platan kveikir ekki smávegis áhuga.

“You have to be trusted by the people that you lie to,
So that when they turn their backs on you,
you’ll get the chance to put the knife in.”