Peng! Stereolab – Peng! (1992)

Um spil sjá;
Seaya Sadier – raddir, moog
Tim Gane – gítar, farfisa, moog
Martin Kane – bassi
Joe Dilworth – trommur

Fyrsta breiðskífa Stereolab er ef til vill ekki sú besta, en þó þykir mér hún heldur athyglisverð. Tilraunastarfsemin er hér í hávegum höfð og útkoman glettilega góð. Platan skiptist svoldið á að vera mjög auðveld í hlustun, og svo að taka dáldið á hlustandanum.Fjölbreytni skapar fegurðina og á það við í þessu tilfelli.

Peng! hefst á rólegu nótunum með léttu rauli bakgrunn og orðin renna öll út í móðu. Held það sé verið að syngja á frönsku, getur einhver staðfest eða leiðrétt það? Orgiastic er svo annað lag plötunnar og fjörið að færast í aukana. En þótt söngur Sadier sé prýðis góður, þá getur oft reynst erfitt að skilja nákvæmlega hvað hún er að segja.

Peng! 33, þriðja lag plötunnar heldur svo uppteknum hætti næstu mínúturnar. Alls ekkert slæmt við það, mög fínt lag. K-Stars er hins vegar draumkennt lag þar sem að mestu leyti er stuðst við farfisa organ og moog synth. Fín útkoma. Láttu þó tónana ekki festa þig í of djúpum svefni, því einn sterkasti punktur plötunnar er lagið Perversion. Einstaklega áheyrilegt lag og með þónokkuð sterkan boðskap (ef þú getur greint orðin sem úr tækinu hljóma). Það er kannski rangt af mér að kalla þetta boðskap, heldur athyglisverðar pælingar. Fjalla þær um það hvernig unaður er synd í rammkristnu samfélagi. Topplag.

Það verður að segjast, þó Perversion sé afbragðs lag, þá kemst það ekki með tærnar þar sem The Seeming and The Meaning er með hælana. Af og frá. Þessi öfga dollaramarkaður, einokun á fjölmiðla, staðlaðar og tilbúnar tónlistarímyndir sem engu skila nema rusl tónlist. Þannig má eiginlega lýsa innihaldi lagsins. Að mínu mati hápunktur plötunnar.

Platan Refried Ectoplasm (Switched On, Vol. 2) byrjar á lagi sem heitir Harmonium, en það lag er endurfærð útgáfa af lagi númer átta á Peng!, sem heitir þar Mellotron. Þykir mér betur hafa tekist til með Harmonium. Það gerir þó ekki til því að á eftir fylgja þrjú lokalög plötunnar sem eru hvor öðru betri. Stomach Worm ber þó af, þétt og nokkuð fallegt rokk sem kemur manni í fínasta skap. Varla hjá því komist að dilla sér aðeins við lagið.

Þrælfínn frumburður sem svíkur mann ekki svo auðveldlega. Mundi þó ekki mæla með þessu fyrir harðkjarna menn eða þá sem eru fastir í mainstream rokkinu, þó allir hafi gott af því að víkka sjóndeildarhringinn, ekki satt?