Atli & Leó í Undralandi Jæja kæru ofurhugar, nú er loksins kominn tími til að kætast,
því að mánudaginn 1. júlí verða straumhvörf í íslensku
tónlistarlífi. Já, þá mun fyrsta platan í hinu sumarlanga
verkefni „Svona er sumarið 2002“ líta dagsins ljós. Platan sú
er um ræðir nefnist „Atli & Leó í Undralandi“ og inniheldur 15
frumsamin lög eftir Atla Bollason og Leó Stefánsson.

En gamaninu lýkur ekki þarna, ó nei, því eðli platnanna er
talsvert annað en þið eigið að venjast. Plöturnar verða alls
þrjár talsins og verður tónlistin samin á þeim þremur
mánuðum sem sumarið stendur yfir. Plöturnar munu svo
koma út 1. júlí, 1. ágúst og 1. september. Nú velta sjálfsagt
margir lesendur því fyrir sér hvort hér sé ekki eitthvað
undarlegt á seyði, þar sem maður vippar nú ekki bara einu
stk. plötu fram úr erminni eins og ekkert sé. En þar liggur
einmitt fegurð platnanna: Öllum lögum sem strákarnir semja,
sama hvort þeim er lokið, sama hvort þau séu Euro-Techno,
sama þótt þau séu af allt öðrum toga en öll hin lögin; fá að
fljóta með. Þannig er almenningi gefið tækifæri til að
skyggnast inn í svefnherbergi drengjanna og sjá nákvæmlega
hvað þar fer fram. En það er meira, því plötunni er beinlínis
ætlað að vera innblástur handa öllum þarna úti sem vantar
hugmyndir. Þeim er frjálst að nýta okkar hugmyndir, jafnvel
taka það að sér að klára lögin, eða endurhljóðblanda;
náttúrulega svo lengi sem Atli & Leó fá kredit. Ef slíkur áhugi
er fyrir hendi skal viðkomandi bara senda okkur póst, og við
reynum að koma til hans skjölum/sömplum/hverju sem þarf
við vinnslu lagsins.

Platan kemur út eins og áður sagði á mánudaginn, verður til
sölu í Hljómalind, 12 tónum og Þrumunni og verðið er 500
krónur.

Allt feedback frá þeim sem heyrt hafa plötuna er geysilega vel
þegið, sem og feedback vegna hugmyndarinnar sem slíkrar.

Takk takk,
-Atli & Leó