Eftir að undanúrslitin voru gerð kunn hér á raftónlistarsvæði huga, þá eins og flestir hafa séð, hefur komið fram ýmis gagnrýni. Hluti hennar hefur átt rétt á sér en stærstur hluti hennar ekki að mínu mati.

Mig langar til þess að útskýra betur störf dómara í þessum undanúrslitum og aðeins hreinsa upp misskilning sem kom upp að mestu leyti vegna óheppilegrar framsetningar á stóra listanum [semsagt öllum 355 lögunum.]

Vitað var þegar skilafrestur rann út að það yrði ekki auðvelt verk að finna 15 úrslitalög [sem urðu síðan 16] en ákveðið var að gera það með eftirfarandi ferli.

1. Dómarar fara yfir öll lögin og gefa þeim einkanir frá einum upp í tíu, með því að leiðarljósi að það sem færi yfir sjö í meðaleinkunn kæmist í undanúrslit. Hver dómari hlustaði á lögin í sínu horni og eftir sinni hentisemi.
Þar sem að markmiðið var með þessu að ákveða hvort lag færi áfram eður ei var ekki mikil athygli veitt að því hvort lag sem fékk minna en sjö myndi fá 4, 5 eða 6. Það einfaldlega skiptir ekki máli. Alveg eins og í öllum öðrum keppnum eru það topp sætin sem skipta máli. Ég vil taka það fram að þegar var farið yfir þessi lög þá voru þau nafnlaus, sem sagt bara titill lags sást en ekki nafn listamanns og var sú ákvörðun að haga málunum þannig tekinn til þess að hvert lag myndi standa á eigin fótum.

2. Eftir þetta stóðu 73 lög eftir og á þau hlýddu dómarar eina kvöldstund í vikunni sem er að klárast. Þá var ákveðið að hafa einkunnar kerfið eftirfarandi:

1 stig = lag fer ekki í úrslit að mati dómarans
2 stig = lag á jafna möguleika við önnur lög með 2 stigum að mati dómarans
3 stig = lag verður að komast í úrslit að mati dómarans

Eftir að yfirferðinni var lokið þá báru dómarar saman einkunnir sínar og eftirfarandi kom í ljós.

8 lög fengi 3 stig frá öllum dómurum og önnur átta fengu 3 stig frá tveimum og 2 stig frá einum.

Það verður að segjast að dómararnir þrír koma ekki úr sama bakgrunni, undirritaður hefur lengi til verið viðloðandi drum & bass kirkjuna breakbeat.is, Unnar er Vefstjóri huga og var meðlimur “rokk bandsins” Stolía, og Ísar, forkólfur tónlistarblaðsins Undirtóna. En miðað við það þá er það einmitt nokkuð merkilegt hvað þessi 16 lög náðu að “snerta” dómarana nokkuð jafnt þrátt fyrir ólíkann bakgrunn og ólíkann smekk á tónlist.


Nú er svo komið að undanúrslitin voru kunn og kominn tími til að birta þau á vefnum. Það er þá sem má segja að mistök hafi verið gerð. Framsetning var með svipuðum hætti og í tónlistargagnrýni, eitthvað sniðugt merki eins og thumbs up eða hauskúpa fundið og síðan því búin til skilgreining á hverju tákni, eins og “lag dauðans” og svo framvegis. Dómnefnd ber ekki ábyrgð á þessu að því leiti að það er ekki álit dómnefndar að þau lög sem eru með hauskúpur séu lög dauðans. Þetta fór bara svona inn fyrir fljótfærni.

Mörg lögin þarna eru ekki góð, önnur skárri, og sum ágæt. Eins og ég minntist á áður þá var það ekki hlutverk dómnefndar að ákvarða hvaða lag væri í sæti 200 og hvaða lag í sæti 300. Listinn umdeildi [70-355] var semsagt skelltur saman eftir meðaltalseinkunum fyrstu yfirferðar [þ.e. öll lög fyrir neðan 7] og líklega eru fjölmörg lög t.d. á bilinu 70-120 sem eru með meðaltalseinkunn 6 eða 6.5] og þá skiptir engu máli hvort það sé 78 á listanum eða 110.

Ég vona að þetta sé skiljanlegt hjá mér.

Núna hefur listinn verið framsettur eins og hann á að vera… fyrstu 16 lögin eru með þrjá “thumbs up” í engri sérstakri röð og bíða þess að dómnefnd felli dóm sinn og velji út sigurlög. Næstu lög upp í 73 eru í engri sérstakri röð eru þau lög sem að komust áfram og svo framvegis.

Hvað varðar aðra gagnrýni á val lagana, þá hef ég ekki ennþá séð þá aðila koma með þeirra útgáfu af listanum, svona til að sýna mér öll frábæru lög sem dómnefndin missti af. Því miður tóku dj tiesto og fat boy slim eða jafnokar þeirra ekki þátt í keppninni, en það verður að hafa það.