Jæja, núna þarf ég að drepa einhvern. Ég var búinn að skrifa ítarlega grein en var að browsa um leið í öðrum glugga og allt fór í hakk út af pop-up flash rugli eða einhverju drasli. Bill Gates er feigur maður.

En alla vega…Það sem ég ætlaði að tala um er, eins og titillinn gefur til kynna, hljómsveitin Boards of Canada. Skosku tvímenningarnir (skosku… ég skil reyndar ekki alveg þessa nafngift. Hver fer að nefna skosku hljómsveitina sína Boards of Canada) eru mjög þekktir fyrir framúrstefnulega og fjölbreytta tónlist (og góða að mínu mati).

Platan sem þeytti þeim á toppinn var Music Has the Right To Children (þó að þeir hefðu gefið út fleiri plötur á sínu eigin(?) útgáfufyrirtæki að ég hygg, Music 70).

Með útgáfu þessarar plötu eignuðust BoC fjölmarga aðdáendur sem höfðu verið að bíða eftir jafnframúrstefnulegri tónlist og þeirra tónlist bar raun vitni.

Ég verð að viðurkenna að ég var alls ekki fránuminn af þessari plötu eins og margir. Það er tiltölulega stutt síðan ég hlustaði fyrst á hana. Mér hafði verið sagt að þessi plata væri algjör snilld og ég yrði gjörsamlega að eignast hana. Ég lét verða af því að hlustaði á hana til mergjar og fann ekki margt jákvætt við hana. Ég hafði alltaf verið frekar opinn fyrir alls konar raftónlist en tónlist BoC fór ekkert rosalega vel í mig. Hún átti þó sína spretti og Það voru einna helst lög eins og Telephasic Workshop sem ég var að fíla.

Það var sem sagt ekki með þessari plötu sem þeir unnu mig á band sitt en með seinni breiðskífu sinni, Geogaddi, fannst mér þeir vera komnir á skemmtilegri braut en áður. Mér fanst þessi plata mun betri og loksins fór ég að fíla þá meira en ég hafði gert. Ég verð að viðurkenna að það er hellingur af lögum þarna sem eru ekki góð en á heildina litið fannst mér þetta frekar góð plata.

Það var þó ekki með breiðskífunum sem ég heillaðist af BoC heldur voru það minni plötur sem heilluðu mig meira. Plötur eins og Hi Scores, Twoism og In a Beautiful Place Out In the Country.

Ég ætla rétt að vona að þeir haldi sig á sömu braut og haldi áfram að gefa út frábært efni.

Helstu plötur Boards of Canada:

Music Has the Right To Children - útkomuár: 1998 - útgefandi: Skam/Warp.

Peel Sessions 21/07/1998 - útkomuár: 1999 - útgefandi: Warp.

Hi Scores EP - útkomuár: 2000 - útgefandi: Skam.

In a Beautiful Place Out In the Country - útkomuár: 2000 - útgefandi: Warp.

Geogaddi - útkomuár: 2002 - útgefandi: Warp.

Einnig er hægt að nálgast alls konar Live viðburði hjá þeim (m.a. Warp 10th Anniversary Party. Ég elska til dæmis þá upptöku af Telephasic Workshop) og ég fann nokkrar tónleikaupptökur frá þeim á SoulSeek meðal annars. Ég held að það sé ekki búið að gefa marga Live tónleika út á plötu. Ég hef alla vega hvorki rekist á það í búðum né á netinu en ég er samt ekki viss.

Ég verð að viðurkenna að ég veit lítið um það efni sem þeir gáfu út hjá Music70 en ég er að reyna að finna efni frá þeim tíma. Það er mjög vandfundið og eru dæmi um það að diskar seljist á E-bay fyrir tugiþúsunda króna. Fyrirhugað er að endurútgefa þá hjá Warp en það er ekki alveg komið á hreint.

Jæja…ég þarf að fá mér hvíld fyrir vinnuna og læt þetta því gott heita í bili. Mér þætti frábært ef þið kæmuð með nokkur orð um nokkrar af ykkar uppáhaldssveitum og deilduð góðri tónlist með okkur hinum.

Atli