Vegna aukins áhuga á allskonar sambræðslum á indie og raftónlist á síðustu árum(Datarock, Soulwax, Metronomy, Hot Chip o.s.frv) ákvað ég að klambra saman smá grein um þá hljómsveit sem að mínu mati átti stóran þátt í að skilgreina þetta sánd fyrir hartnær þrjátíu árum, bandarísku hljómsveitina Devo.

Devo var stofnuð í Akron, Ohio árið 1973 af Gerald Casales, Bob Lewis, og Mark Mothersbaugh, en hugtakið Devo átti sér þó þónokkra forsögu.

Casales og Lewis voru nemendur við Kent State University, sem helst er þekktur fyrir að hafa verið vettvangur eins skelfilegasta harmleiks í sögu pólitískra mótmæla í Bandaríkjunum árið 1970, þegar óeirðalögreglan skaut á nemendur sem höfðu safnast saman til að mótmæla stríðinu í Víetnam. Þeir urðu fyrir miklum áhrifum af því samfélagslega umróti sem að einkenndi bandarískt samfélag á þessum tíma, og rót hugtaksins DEVO eða “de-evolution” spratt upp úr þessum áhrifum. Þegar þeir kynntust Mark Mothersbaugh kynnti hann þá fyrir ritgerðinni “Jocko Homo Heavenbound” eftir B.H Shadduck, þar sem frasinn De-evolution kemur einmitt fyrir.

De-evolution varð þemað sem að hljómsveitin byggði allt sitt útlit, texta og tónlist á. Grunnhugmynd de-evolution er að neyslu og tæknisamfélag nútímans beinlínist krefjist þess að einstaklingar “afþróist”, þ.e verði heimskari, meðfærilegri og einfaldari á allan hátt. Í stað þess að berjast gegn þessari afþróun þá gerðu Devo stólpagrín að þessu öllu saman með því að gerast holdgervingar þessa ferlis á allan hátt, á svipaðan hátt og t.d Stephen Colbert gerir grín að hægrisinnaðri pólitík með því að þykjast vera hægrisinnaðri en allir aðrir.

Upphaflega átti Devo alls ekki að verða hljómsveit. Allir stofnmeðlimirnir höfðu einnig áhuga á annarri listastarfsemi, sérstaklega stuttmyndagerð, og ein hugmyndin sem kom fram var þeir myndu einfaldlega sitja heima og semja lög, hanna búninga og sviðsmyndir, og setja saman vídeoklippur, sem svo yrðu sett upp í mismunandi borgum af listahópum, í e.k McDonaldsvæðingu listastarfsemi, með sama showið í hverri borg framkvæmt eftir ákveðinni forskrift. En sú hugmynd varð aldrei að veruleika.

Devo spilaði fyrst á tónleikum árið 1973 á listahátíð í Kent State University. Árið 1975 kom fyrsta stuttmyndin þeirra, “The truth about de-evolution” út, og vann til verðlauna á kvikmyndahátíðum og vakti athygli í tónlistargeiranum, m.a varð David Bowie afar hrifinn af þeim.

Þetta sama ár datt sveitin einnig niður á line-up sem að virkaði vel, og sú Devo sem að flestir kannast við fæddist. Hljóðfæraskipan var sú að Gerald Casales spilaði á bassa og bassasynth, og Mark Mothersbaugh á hljómborð. Einnig skiptu söng á milli sín. Aðrir meðlimir voru skyldmenni þeirra Geralds og Mark, Bob Mothersbaugh(Bob 1) og Bob Casales(Bob 2) á gítara og syntha eftir þörfum, og hinn ótrúlega taktvissi Alan Myers á trommur og rafrænt slagverk.

Það umtal sem “The truth about de-evolution” olli gerði Devo kleyft að komast á almennilegan plötusamning, og fyrsta plata þeirra kom út 1978. Hét hún því undarlega nafni “Q:Are we not men? A:We are Devo!”, og innihélt eins og oft vill verða með fyrstu plötur hljómsveita samtíning af þeim lögum sem þeir höfðu verið að semja og spila á tónleikum frá stofnum sveitarinnar. Þó svo að hún sé hvorki eins rafræn né eins aðgengileg og seinni verk Devo þá er samt margt mjög merkilegt að finna á henni, t.d hið klassíka nýbylgjupönk lag “Mongoloid” og afar undarlega cover útgáfu af (I can't get no)Satisfaction. Ég mæli eindregið með þessari plötu, hún hljómar alveg lúmskt fersk í dag, enda próduseruð af engum öðrum en Brian Eno.

Devo fengu fljótt orð á sem ein öflugasta tónleikasveit bandaríkjanna á þessum tíma, og næstu fjögur árin voru gullaldartíð Devo, þeir gáfu út eina breiðskífu á ári, “Duty Now For The Future”, “Freedom of Choice”, “New Traditionalists” og “Oh no, it's Devo!”

Strax á “Duty Now…” plötunni fóru Devo að færa sig æ nær rafrænum hljóðfærum, og hreint óhemju metrónómískur trommuleikur Alan Meyers smellpassaði við “step-sequence”-aðar mónósynthalínur og einfaldar lagasmíðar þeirra Mark Mothersbaugh og Geralds Casales. Devo tóku raftónlistarpælingar sveita á borð við Kraftwerk og gerðu þær mun aðgengilegri, með einföldum pönkskotnum lagasmíðum sem fóru sjaldnast yfir þriggja mínútna markið.

Devo voru að mörgu leyti frumkvöðlar í notkun á nýrri tækni í tónlist, sem að verður að teljast bæði kaldhæðnislegt og viðeigandi, þar sem kjarninn í lífsspeki Devo er einmitt að það er tækniframþróunin sem er að gera það að verkum að mannskepnan er að verða heimskari, því tæknin krefst vélmenna til að þjónusta sig, ekki skapandi einstaklinga. Devo urðu ein af fyrstu virkilega vinsælu rokkhljómsveitunum til að semja lög fyrir syntha og slagverk eingöngu, þeir voru einnig með þeim fyrstu til að fjárfesta í þráðlausum radiomíkrafónum og mögnurum, og þeir nánast fundu upp hugtakið “tónlistarmyndband”. Devo var gríðarlega vinsæl á MTV á fyrst árum stöðvarinnar, og áttu nokkur algerlega klassísk myndbönd, sérstaklega smellinn “Whip It!” af plötunni “Freedom of Choice”, sem allir hafa heyrt.

Ég get ekki mælt of mikið með því að menn kynni sér Devo nánar, og þá meina ég allar plöturnar þeirra, ekki bara stærstu smellina. Svo mikið af því sem að er gott við “new-rave” eða “indie-electro” eða hvað sem þið viljið kalla þetta dót er ættað á einn eða annan hátt beint frá Devo. Og svo eru þeir einfaldlega virkilega góðir lagasmiðir. Lög eins og Gates of Steel, Freedom of Choice, Snowball, Gut Feeling(Slap your mammy), Secret Agent Man, Through being Cool o.fl eru a.m.m með bestu raftónlist sem nokkurntíman hefur verið gerð.

Svo skellið ykkur á Youtube eða eitthvað og tékkið á Devo. Annars er bara eitthvað meira en lítið að ykkur ;)