Cosmic  Baby -  Smá yfirlit yfir sveimið Jæja, fannst vera kominn tími á grein…..langa grein :)


Að þessu sinni er það Þjóðverjinn Harald Bluechel sem verður fyrir valinu. Harald þessi á að baki langan feril í raftónlistinni, var ma. einn af frumkvöðlum transtónlistar ásamt ekki verri mönnum eins og t.d. Pete Namlook (FAX), Mijk van Dijk (Marmion), Jam&Spoon, Oliver Lieb ( Oliver Lieb, Paragliders og fullt af öðrum nöfnum) og Sven Vath.

Svo byrjað sé á réttum enda, þá er Harald fæddur 1966 í Nurnberg. Hann fær fljótt áhuga á að læra á píanó fjölskyldunnar, og lýkur klassísku píanónámi. Árið 1980 uppgötvar hann Tangerine Dream og Kraftwerk og fær áhuga á að semja tónlist fyrir synthesizera. 1987 fer hann í Tækniháskólann í Berlín og hefst handa við að klambra saman raftónlist á synthesizer og gamla Fairlight tölvu sem þar var. Það gefur honum líka tækifæri á að kynnast þessum fáu teknóhausum sem þá voru í Berlín, eins og Westbam og DJ Kid Paul - sem Harald átti eftir að eiga gott samstarf við síðar. Fær hann mikinn áhuga á techno og fer að reyna að sameina þá ástirnar sínar tvær, techno og melódískt synthasveim manna eins og Tangerine Dream og Vangelis. Það fyrsta sem hann gefur út undir nafninu Cosmic Baby er tónlist fyrir útvarpsleikrit á unglingastöð í Berlín árið 1990. 1991 hittir hann Paul van Dyk og þeir ákveða að fara að semja tónlist undir nafninu Visions Of Shiva. Árið á undan höfðu hann og DJ Kid Paul verið að semja poppaða danstónlist, fyrst sem Kid Paul og síðar undir nafninu Energy 52, en það nafn er heitið á B-hliðinni á fyrstu tólftommu Kid Paul - Take Me Higher.

1992 kemst hann á samning hjá MFS í Berlín og er fyrsti afrakstur þess Trancedental Overdrive EP, og svo skömmu eftir það stóra platan Stellar Supreme. Á þeirri plötu má finna flest það sem einkennir stílinn hjá Cosmic Baby, feitir analog synthar, drífandi bít og allt það sem einkennir gamla og góða transtónlist. Líka eitt við þessa plötu - flest lögin á henni höfðu ekki komið út áður, en það var öðruvísi en margir dansartistar gera - gefa út stóra plötu sem er bara samansafn af gömlum smáskífum.
1992 kemur líka út 23 EP, fjögur ný lög þar á ferð, með meiri chillout yfirtónum og ambient stílbragð yfir plötunni.

Í mai 1993 kemur svo út á Eye-Q labelinu hans Sven Vath smáskífan Cafe Del Mar með Energy 52. Verður lagið strax alveg instant klassík í trance senunni og svo árið 1997 verður það alger dansklúbbahittari um alla Evrópu í rímixi Sharam Jey. Persónulega finnst mér besta mixið af því vera Cosmic Baby remixið, sem er á b-hliðinni á orginal Eye-Q útgáfunni. Ég sá að í könnun sem hið ‘framsækna’ tímarit Mixmag stóð fyrir, þá var þetta Sharam Jey remix kosið besta danslag ever. Get nú ekki sagt að ég sé sammála þeim dómi, en kröftugt er lagið. Og þeir tveir ættu ekki að þurfa að svelta, lagið er eitt það mest ‘licenced’ hér á jörð og ætti að hafa gefið þeim piltum eitthvað í aðra hönd.


1994 kemur út á Warner/EastWest A tribute To Blade Runner, sem hefur að geyma ‘re-interpretations’ á upprunalega sándtrakkinu eftir Vangelis. Er það nokkuð öflugt verk, sem er nú ekki síst að þakka Vangelis sjálfum. Gott dæmi um það hvernig má ‘betrumbæta’ tónlist á góðan hátt. Sama ár kemur svo út hans önnur stóra plata: Thinking About Myself á Logic/DE(sem er víst label sem fólkið í þeirri góðu grúppu Snap! eiga og reka). Árið 1995 verða hins vegar umskipti. Cosmic Baby ákveður að hætta hjá Logic og stofnar í staðinn sitt eigið label, sem hann kallar Time Out Of Mind. Og er fyrsta platan sem hann gefur út þar EP sem heitir Stunde Null og hefur að geyma abstrakt elektrónískar stúdíur sem eiga meira sameiginlegt með Stockhausen heldur en gamla efninu hans Cosmic Baby. Strax tveim mánuðum síðar kemur úr tvöföld plata sem ber nafnið Fourteen Pieces - Selected Works.
Svo gerist nú ekki mikið í útgáfumálum hans, gefur út plötu með tónlist úr leikriti í Stuttgart 1996, og tónlist fyrir þýska sjónvarpsmynd 1997 en árið kemur út stóra platan Heaven sem er stök snilld. Virkilega fjölbreytt, melódísk á köflum en aldrei þreytandi og minnir mig doldið á Speedy J, post G-spot(nema A Shocking Hobby - en það er önnur saga). Síðan hefur lítið gerst í útgáfumálum hjá honum, nema tvenn önnur útvarpsleikrit og ein bíómynd í viðbót. Á næsta ári er svo von á nýrri LP með kappanum, ég bíð spenntur :)


Helstu verk:

Trancedental Overdrive EP [MFS 1992]
23 EP [MFS 1992]
Stellar Supreme LP [MFS 1992]
The Visions of Shiva - Perfect Day(ásamt Paul Van Dyk) [MFS 1992]
Energy 52 - Cafe Del Mar(ásamt DJ Kid Paul) [Eye-Q 1993]
A Tribute To Blade Runner [Warner/EastWest 1994]
Fourteen Pieces - Selected Works [TOOM 1995]
Heaven LP [TOOM 1998]