Hvað er þetta dubstep? Dubstep er tónlistarstefna sem hefur vakið mikla athygli um heim allan undanfarin ár. Hún hefur slæðst inn í útvarpsþættinum Breakbeat.is og á Breakbeat.is kvöldunum í sívaxandi mæli upp á síðkastið. Fimmtudaginn 4. janúar næstkomandi á Pravda verður haldið fyrsta íslenska klúbbakvöldið sem verður algjörlega tileinkað þessari einstöku og stórskemmtilegu tónlistarstefnu. Það verða þeir Kalli, Gunni Ewok og Tryggvi sem munu manna spilarana, eins og þeim einum er lagið. Við skulum fræðast örlítið meira um dubstep-fyrirbærið.

Dubstep er tónlistarstefna sem varð til í Suður-London upp úr 2step-senunni um síðustu aldamót. Helstu frumkvöðlarnir voru menn eins og El-B, Zed Bias, Horsepower Productions og Steve Gurley úr Foul Play. Dubstep líkist grime (öðru afkvæmi 2step) að því leyti að það byggist mikið á dimmum og drungalegum hljóðum, en er ólík að því leyti að hún er mun meira “instrumental”, þ.e. minni áhersla er lögð á raddir.

Hugtakið dubstep kom fyrst fram í tímaritinu XLR8R, þar sem að fyrrnefndir Horsepower Productions voru á forsíðunni. Í kjölfarið kom síðan út mixdiskurinn “Dubstep Allstars Vol. 1” sem var settur saman af DJ Hatcha og gefinn út af útgáfufyrirtækinu Tempa.

Á þessum sokkabandsárum dubstep-tónlistarinnar, var það Big Apple batteríið, sem að rak bæði plötuútgáfufyrirtæki og plötubúð, sem að átti mikinn þátt í frekari dreifingu dubstep til fólksins. Big Apple voru með höfuðstöðvar sínar í Croydon, úthverfi Lundúna, en þangað áttu menn eins og El-B, Jay Da Flex, Hatcha, Menta/Artwork, Skream, Benga og Horsepower Productions rætur sínar að rekja. Horsepower Productions gáfu mikið út á Tempa og Big Apple, sem voru fyrstu plötuútgáfufyrirtækin sem að sérhæfðu sig í dubstep.

<p>Frá árinu 2001 hafa Forward>> klúbbakvöldin haft gríðarlega mikið að segja í þróun og dreifingu dubstep-tónlistarinnar. Þau voru upprunalega haldin á Velvet Rooms klúbbnum í Soho, en eru núna vikulega (alla föstudaga) á Plastic People klúbbnum í Shoreditch, í austurhluta Lundúna. Forward>> voru einnig með útvarpsþátt á útvarpsstöðinni Rinse FM, en um hann sá enginn annar en Kode9, sem var einnig einn af fyrstu fastasnúðum Forward>>. Aðrir fastasnúðar þar í gegnum tíðina hafa verið Hatcha, DJ Youngsta, Zed Bias, Oris Jay, Slaughter Mob, Jay Da Flex, Slimzee og fleiri auk þess sem gestasnúðar eru mjög tíðir á kvöldunum.

Árið 2003 var Hatcha kominn með sinn eigin þátt á Rinse FM, auk þess sem hann spilaði reglulega á Forward>> klúbbnum. Honum barst til handa mikið af tónlist frá Suður-London, fyrst frá Benga og Skream, og síðar Digital Mystikz og Loefah. Með tilkomu þessara manna fór dubstep í nýja og minimalíska átt og varð enn dimmari og drungalegri en áður. Digital Mystikz komu einnig inn með mjög reggae- og dub-skotinn hljóm, auk dularfullra laglína.

Eftir að hafa gefið út skífur hjá Big Apple ákváðu Digital Mystikz og Loefah að stofna sitt eigið útgáfufyrirtæki,
DMZ, árið 2004. Þeir byrjuðu einnig með samnefnd klúbbakvöld, haldin á 2ja mánaða fresti í Brixton, en það hverfi á stóran þátt í reggae-sögu Lundúna. Á DMZ kvöldunum hafa margir stigið sín fyrstu spor, til dæmis Skream, N-Type, Scuba, D1, Random Trio, Chef, Joe Nice, DJ Distance, Benga, Kromestar, Pinch, Youngsta, Distinction, Vex'd og Blackdown svo að einhverjir séu nefndir.

Árið 2004 gaf útgáfufyrirtæki Aphex Twin, Rephlex, út tvær plötur sem áttu eftir að hjálpa dubstep-tónlistinni að ná til enn fleiri eyrna. Þær voru af einhverjum ástæðum báðar kenndar við grime, (“Grime 1” og “Grime 2”) sem var ekkert alltof lýsandi fyrir tónlistina. Á fyrri plötunni komu fram Plasticman (nú Plastician), Mark One og Slaughter Mob, en þeirri seinni skiptu Kode9, Loefah og Digital Mystikz bróðurlega á milli sín.

Árið 2006 hélt senan áfram að vaxa og dafna. Árið áður hafði Skream gefið út antheminn “Midnight Request Line”, og í byrjun árs safnaði Mary Anne Hobbs, umsjónargella Breezeblock útvarpsþáttarins á BBC Radio 1, saman nokkrum af þungavigarsnúðum dubstep-senunnar í 2ja klukkustunda sérþátt, sem hún kallaði “Dubstep Warz”. Þar leiddu saman hesta sína Mala (úr Digital Mystikz), Skream, Kode9, Vex'd, Hatcha, Loefah og Distance í þætti sem að fór eins og eldur um sinu og kynnti fjölmarga fyrir því frábæra efni sem að dubstep hefur upp á að bjóða. Mary Anne hefur gert dubstep einkar hátt undir höfði í þætti sínum undanfarin ár og hefur verið einn helsti sendiboði hennar í seinni tíð.

2006 markaði einnig ár þar sem að margar breiðskífur litu dagsins ljós. Dularfulli huldumaðurinn Burial gaf út samnefnda breiðskífu sem er sannkallað meistaraverk og hefur vakið mikla athygli sem hefur náð langt út fyrir senuna. Skream gaf út “Skream!”, Kode9 & Spaceape gáfu út “Memories Of The Future” og Mary Anne Hobbs smalaði aftur saman fjölmörgum snillingum á safnplötunni “Warrior Dubz” sem að Planet Mu gaf út. Einnig gaf Boxcutter út breiðskífu hjá sama útgáfufyrirtæki.

>>Dubstepforum.com
>>BBC Radio 1 - Mary Anne Hobbs
>>“Dubstep Warz” þátturinn á mp3-formi

Heimild: Wikipedia