Baxter Árið 1999 fór ég á enn eina megaútsöluna hjá Japis og rakst á disk með alls óþekktri sænskri hljómsveit sem heitir Baxter. Diskurinn kostaði einungis 199 kr. þannig að ég skellti mér á hann. Daginn eftir mætti ég aftur í Japis og keypti upp lagerinn af þessari fyrstu plötu Baxter sem heitir einfaldlega Baxter og hef verið að gefa vinum og vandamönnum í afmælisgjafir síðasta árið. Svona góður er þessi diskur.



Hljómsveitina Baxter skipa Ricky Tillblad, Carl Herlöfsson og Nina Ramsby en þau komu eiginlega saman af tilviljun í kringum ´96-7. Ricky var einhver mega pródúsent og grafískur hönnuður sem rak sitt eigið fyrirtæki F+. Dag einn byrjar Nina að vinna hjá honum til að borga fyrir áhugamálið sitt sem er náttúrulega tónlist. Nokkru seinna byrja þau eitthvað að draga sig saman og semja tónlist í frítímanum. Svo hittir Ricky Carl og þeir fara í samstarf sem verður að Electic Bob sem gerði instrúmental drum&bass fyrir Primal Music. Svo þegar Carl og Nina hittast loksins verður Baxter til. Ári seinna eru þau búin að taka upp plötuna Baxter, gefa út hjá Primal í Evrópu en Maverick Recording (sem Madonna á) gaf þau út í Bandaríkjunum. Tónlistin er ljúft og huggulegt stelpu drum&bass. Svolítið melónkólískir textar, fullt af strengjum og Nina syngur með mikilli tilfinningu og yndislegheitum.



Á plötunni eru 10 lög og heitir það fyrsta Television en það var síðasta smáskífan þeirra. “I wish I´d woke up, when you were sad.” Fyndið hvað er hægt að gera ljúfa tónlist með svona hröðum takti….það er hreint ótrúlegt að þetta skyldi vera frumburður hljómsveitarinnar. Laglínurnar eru snilld, bassinn og strengirnir halda utan um lagið og í bakrunni heyrum við smá trompet en maður skilgreinir það sam ekki fyrr en við 3 hlustun. Ég hef aldrei heyrt klassísk hljóðfæri blandast svona vel við raftóna. Lag númer 3 er mjög stelpulegt og tilvalið í spilarann þegar maður er sorgmæddur eða bara á túr og heitir Love Again.

Næsta lag er einnig alveg sérstaklega flott. Það heitir I Cant See Why en það er fyrsta smáskífan af plötunni. “I would be so glad if you could tell me why I don´t fit in.” Þetta eru tilfinningar sem við könnumst án efa öll við og er skemmtileg tilbreyting við r&b og rapptextana sem fjalla um hvað söngvarinn sé ýkt böst æði. Ballad of Behaviour er næsta lag. Ég hef aldrei heyrt neitt líkt þessari tónlist. Það er greinilegt að þarna eru á ferð gamalreyndir tónlistarmenn því þau harmónera alveg ótrúlega vel.

Political er krúttlegt en jafnframt eitt harðasta lagið. Þarna er litla stúlkukindin orðin svolítið örugg, búin að fatta að gæjinn er ekkert eins æðislegur og í byrjun. “You will follow me to the end, you will see…..me.” Taktarnir eru massakúl sem endranær og ég held að þau noti gamla farfísu eða eitthvað álíka og það kemur alveg einstaklega vel út. Síðustu fjögur lögin eru heldur keimlík en Possible og Oh My Love standa upp úr sem rómantísk melankólíulög. Oh My Love hefur píanó undirspil sem gefur því aðeins dýpri blæ en farfísan áður á plötunni. Sorgin lokar disknum, “Grief is a burden I can rely on.”

Eins og þið eruð örugglega búin að fatta þá er þetta engin partýtónlist. Þetta er tónlist sem æðislegt er að hlusta á eftir rifrildi, ástarsorg, í rigningu og veseni eða bara þegar maður hugsar. Við lendum öll í veseni og við hugsum öll. Róleg, falleg, yfirveguð og heillandi drum&bass tónlist er það besta í heimi. Baxter er best.