Langar aðeins að renna hratt yfir það sem ég er búin að vera að hlusta á undanfarna daga, svona míní rívjú.

The Stereonerds - HD endless [RI060]

Fyrst þegar ég heyrði þessa plötu þá brá mér satt best að segja alveg þónokkuð! Nýjasta Rather Interesting afurðin og hún er ekki tormelt og flókin (jeminn). Anyways, hér fer Atom (þó listamannsnafnið á plötunni sé Stereonerds þá er mæta víst að þetta er Uwe Schmidt sjálfur} í eitthvað blast from the past skap og virðist vera að sampla sjálfan sig í nokkrum lögunum, og það með mjög góðum árangri. Sándið í gegnum diskinn er í ætt við það sem mætti kalla Elektró, þó svo að þetta hljómi ekki beint gamaldags, sérstaklega þegar hann tekur sig til og syngur. Mín uppáhaldslög eru I hear a new world og Prazision (hljómar samt eins og Partí–sjón í laginu sjálfu).

Ulrich Schnauss - A strangely isolated place

Hér var ég að búast við meira af því sama og var að finna á fyrri plötu Ulrich, Faraway trains passing by. Reyndin er sú að hann er enn með þetta óaðfinnanlega sánd og pródúseringu dauðans í gegnum öll lögin, en það er eins og þau séu orðin aðeins meira epískari (ef svo mætti að orði komast). Músíkin er enn sem áður blanda af einfaldleika sem er það einlægur að það er ekki hægt annað en að hrífast með, sérstaklega með tilkomu kvennraddar í nokkrum lögunum. Tónfræðilega séð er Ulrich með þetta á hreinu, og hver sem á hlýðir getur voða lítið andmælt þessari músík.

Senor Cocunut - Fiesta Songs

Önnur Atom platan í þessari yfirferð minni og gjörsamlega allt allt annað heldur en Stereonerds. Eflaust kannast margir við Senor Cocunut frá því að hann gerði endurgerðir af Kraftwerk í suður amerískum búning. Hér er hann enn að taka fyrir þekkt lög og skella þeim í þennan sama búning. Í þetta skiptið eru lögin frá hinum og þessu listamönnum (Sade, Micheal Jackson, Jean Michelle Jarre ofl) og þrátt fyrir að lögin eru öll mjög ólík í upprunalegu útgáfunum þá smellur þessi plata saman alveg eins og flís við rass! Mæli sérstaklega með útgáfunni af Smooth Operater sem er á þessum disk, ekki hægt annað en að fá feitt bros á vör við að heyra það í þessari útgáfu. Tæknilega alveg magnaður diskur, þar sem hann er nánast 100% sömpl (fyrir utan sönginn), en smávegis spurning hvort þetta verði ekki fljótt þreytt og kannski best að spara doldið fyrir þessi partí þar sem flippið fær að ráða ríkjum.

Shuttle358 - Understanding Wildlife

Þessi kom víst út í fyrra, en það dregur víst lítið úr gæðunum. Fyrir ambient hausa eins og mig er þessi plata alger himnasending! Ótrúlega magnað minimal dót með vænum ambient keim. Ekki mikið meira hægt að segja, enda alltaf verið erfitt að gagnrýni ambient. Mæli eindregið með þessari plötu.

Luomo - The Present Lover

Ég er nú varla búin að ná að tjékka á þessari plötu af einhverju viti, en þau fáu lög sem ég hef heyrt eru alger eðal! Fyrir hvern þann sem hefur gaman af því að “dissa” húsmúsík fyrir að vera formúlukennd og endurtekningarsöm þá er þessi plata alger snilld, þar sem hún kemur svo sannarlega með nýjan hljóm í annars vegar steingelda senu.

Væntanlegt í spilarann hjá mér er svo nýja Freescha platan - Whats come inside of you og svo nýja Saafi Brothers platan - Liquid beach. Reyni að hripa eitthvað niður þegar ég er búin að mynda mér skoðun.

Lifið heil !