Þeir sem eitthvað þekkja til hljómsveitarinnar Boards of Canada vita e.t.v. að yfir henni ríkir talsverð dulúð og sumir fari svo langt að segja að lög þeirra innihaldi falinn boðskap og að hljómsveitarmeðlimir séu félagar í einhverjum sértrúarsöfnuði. (Þeir hafa áður líst því yfir sjálfir að mikið af þessu sé einungis til að stríða fólki. Er ekki viss um þetta með sértrúarsöfnuðinn þó).

Það sem eykur enn á dulúðina er sú staðreynd að mikið af efni Boards of Canada hefur aldrei litið augu almennings heldur hefur einungis verið á höndum fárra vina og ættingja þeirra Michael Sandison og Marcus Eoin, tveggja meðlima Boards of Canada.

Nokkrar af seinni plötum þeirra hafa verið gefnar út en þó einungis í fáum eintökum. Dæmi um þetta er t.d. platan Boc Maxima, sem gefin var út í 100 eintökum á vínyl af Music70. Þrátt fyrir að einungis hafi verið gefin út 100 eintök má samt frekar auðveldlega nálgast hana á SoulSeek til dæmis.

Lengi vel var sú saga á reiki að mikið af þessum gömlu upptökum, sem sumar voru einungis til á kasettum, væru ekki til heldur hefði þeim dottið í hug að þykjast hafa búið þær til til að auka á dulúðina sem ríkti fyrir.

Ég persónulega var ekki viss í minni sök en hallaðist þó að því að eitthvað af þessum útgáfum væri virkilega til.

Nýlega rakst ég á gamlar upptökur með BoC sem einhverja hluta vegna láku út. Upptökur frá árunum 91-95. Þetta eru 17 lög, sem eru reyndar merkt vitlaust, en eftir að hafa heyrt öll þessi lög get ég nokkuð örugglega staðfest það eftir minni bestu vitund að þessi lög eru ekta.

Þessi upptaka inniheldur nokkur lög sem meðal annars eru á Boc Maxima. Lög eins og Skimming Stones, Carcan, Rodox Video og M9.

Hún er um 54 mín og 31 sek. og inniheldur nokkur andskoti góð lög. Tvö af þessum lögum eru líklega með betri BoC-lögum sem ég hef heyrt.

Atli