Arkestra One - Arkestra One Á síðasta ári kom út beiðskífa frá Arkestra One sem ég féll strax fyrir og skrifaði plötudóm um. Plötudómur þessi átti að birtast í Sánd, en sökum anna og plássleysis í blaðinu varð því miður ekkert úr því. Glöggir muna kannski eftir að ég var með breiðskífu á topp 10 breiðskífulista mínum fyrir síðasta ár, sem ég birti hér ekki alls fyrir löngu. Hér birtist dómurinn.

Fyrir stuttu síðan var ég að skoða mig um í heimi sem kenndur er við internet og rakst á hljóðbrot af óútkominni breiðskífu með hljómsveit, sem ég hafði aldrei einu sinni heyrt um. Ég féll strax fyrir ljúfum tónunum sem streymdu úr hátölurunum. Disk þennan ætla ég mér að fjalla um, hann með hljómsveitinni Arkestra One og ber nafn hljómsveitarinnar.
Arkestra One er víst aðeins eins manns hljómsveit, liðsmaðurinn er Matthew Timoney. Matthew þessi fæddist í Finnlandi en hefur búið í London mest alla sína ævi. Hann fær þó hjálp söngkonu í flestum lögunum, söngkona þessi, Nina Miranda, býr yfir einkar ljúfri rödd sem fellur einkar vel að mjúkum tónunum.
Tónlist Arkestra One sem er í svipuðum stíl og Air, Zero 7 og Thievery Corporation, er öll á rólegu nótunum. Arkestra one er þó jazzskotnari en fyrrnefndar hljómsveitir. Einnig kennir líka mikilla suðrænna áhrifa.
Strax og maður í ýtir á “play” takkan streyma að manni, leyfi ég mér að fullyrða, einhverjir ljúfustu tónar sem komi hafa út í lengri tíma. Lögin hljóma eins og þau gæti hafa verið gerð fyrir 40 árum en hljóma þó fersk á sama tíma. Diskurinn hljómar einsog hann hafi verið gerður fyrir Ninu Miröndu þrátt fyrir að hún sé ekki talin sem fullgildur meðlimur hljómsveitarinnar. Matthew notast ekki bara við song hennar heldur “samplar” hann rödd hennar og býr til falleg umhverfishljóð sem smellpassa þar þau birtast. Öll vinna við plötuna er mjög fagleg. Lagasmíðar skemmtilegar, án þess þó að verða flóknar. Hann kann mjög vel á samplerinn sinn, auk þess virðist Matthew eiga gott plötusafn til að vinna úr. Diskurinn er þó ekki bara unnin á sampler, heldur bætir Matthew fallegum melódíum á hin ýmsustu hljóðfæri t.d. Rhodes73, Wurlitser hljómborði og Hammond B3 orgeli.
Þessi diskur ætti að falla í kramið hjá flestum, ef ekki öllum, sem hafa gaman af rólegri tónlist. Kaffihúsaeigendur ættu líka að kaupa þessa plötu, þar sem hún er kjörin sem bakgrunnstónlist.

*****/***** (5 af 5) tactik

Og svo smá viðauki. Skífa þessi kom út á Eighteenth útgáfufyrirtækinu sem er í eigu Thievery Corporation. Í einum ritdóm sem ég las undraðist rýnirinn yfir því að Thievery Corp. hafi gefið þetta út þar sem þetta væri mun betri tónlist en Thievery Corp. hafa nokkurn tíman gert (ekki slæmur árángur að hálfu Arkestra One).
Góðar stundir.