Svíþjóð hefur lengi verið þekkt fyrir að dæla út hverju gæða pönkbandinu á fætur öðru. Alveg frá því að bönd eins og WARHEADS og CHATTERBOX voru starfandi í lok 8. áratugarins og upphafi þess 9. þar til dagsins í dag með böndum á borð við SATANIC SURFERS, REGULATIONS, WOLFBRIGADE og SMALLTOWN.

Það kom mér á óvart þegar ég komst að því að SMALLTOWN kæmu frá Svíþjóð því þótt þeir horfi til fyrri tíma pönksins eins og öll heitustu pönkbönd Svíþjóðar virðast vera að gera þessa daganna, þá er það önnur sena sem SMALLTOWN horfa til. Á meðan flest sænsk bönd vilja vera eins og amerísku bönd á borð við BLACK FLAG, DEAD BOYS eða CIRCLE JERKSs, þá taka SMALLTOWN áhrif sín frá bresku senunni á seinnihluta 8. áratugarins og blanda saman alvarlegu power pop eins og THE JAM gerðu og svo melódísku götupönki STIFF LITTLE FINGERS.

Það heyrist þó greinilega að þetta band hefur lifað í gegnum 10. áratuginn og það hefur áhrif á melódíurnar og lagasmíðarnar. Það kæmi mér ekki á óvart að þeir félagar hefðu hlustað mikið á Leeds bandið LEATHERFACE því þeir hljóma oft svolítið eins og meira edrú útgáfa og ekki alveg jafn þuglyndisleg útgáfa af þeim.

Mér finnst þessi plata frábær. Lögin eru grípandi og skemmtileg en samt alvarleg og aldrei kjánaleg. Þetta höfðar kannski frekar til fólks sem er lengra komið í pönki en það kæmi mér ekkert á óvart þótt að nýgræðingar gætu einnig haft gaman að þessu því þegar allt kemur til alls, þá eru þeta hörku poppslagarar og hver sem er ætti að geta dansað og sungið með fram á rauða nótt.

-
Gefin út árið 2004 af Deranged Records og Snuffy Smile Records.

1. Hooks
2. The Music
3. Faces (mp3)
4. I come prepared
5. What's going on?
6. Solitude
7. Friendly fire
8. Warning
9. Empty eyes
10. Upside down
11. Smalltown
12. A room with a view
Paradísarborgarplötur