Reglulega poppa upp tónlistarmenn sem taka einhverja tónlistarstefnu og snúa henni og teygja, brjóta og breyta og oftar en ekki koma svo milljón önnur bönd sem apa upp þennan hljóm sem upprunalega bandið skapaði. Á einhverjum tímapunkti mætir einhver rithöfundur, eitthvað undrabarn, á tónleika og hugsar með sér: „þetta er frábær tónlistarstefna en hún mun aldrei ná til fólks án þess að hafa grípandi nafn!“ Svo þessi manneskja finnur eitthvað rosalega töff og grípandi nafn svo allir plötunerðir eins og ég geti rifist um hvort þetta sé power pop eða punk pop. Það er samt oftast sem nafnið hittir beint í mark og eitt eða tvö orð ná einhvernveginn að grípa hljóminn á merkilega nákvæman hátt. Power violence, eins kjánalegt heiti og það nú er, finnst mér grípa kjarna tónlistarinnar og setja smekklega í orðasamband. Power violence er hratt og óreiðukennt en jafnframt blýþungt og hart. Þegar ég segi þungt þá meina ég ekki að þeir séu með rosa bassasánd eins og metalbönd, ég meina að maður finnur virkilega fyrir höggunum á hljóðfærin.

Bandið sem kynnti mig fyrir þessari stefnu og hefur verið eitt af mínum uppáhalds böndum í lengri tíma er hljómsveitin Spazz. Allar upptökur sem ég hef nokkurn tíman heyrt með þeim hafa slegið mig í gólfið því þær voru svo rosalegar en þeir náðu án efa sínum hápunkti á plötunni La Revencha sem kom út á Sound Pollution Records. Hér erum við að tala um 26 lög, 23 og hálf mínúta af brjálæði. Hvert einasta lag er misþyrming og fær mann til að langa að springa. Þríeykið lætur höggin dynja á hljóðfærunum eins og þeir hati þau af öllu hjarta og vöðvarnir í líkamanum á mér spennast allir upp og ég verð eiginlega alltaf hálf ráðvilltur þegar ég hlusta á plötuna því ég veit ekkert hvernig ég get losað út alla spennuna sem safnast fyrir í líkama mínum á meðan á þessu stendur. Lagasmíðarnar þeirra eru virkilega góðar og öll lögin eru ótrúlega heilstæð og eftirminnileg. Þeir taka hluti héðan og þaðan úr hardcore og eins og það eru nú til ansi mörg bönd sem reynað að herma eftir Spazz þá finnst mér ekkert þeirra hljóma eins því það eru bara svo ótrúlega margir þættir í tónsköpun bandsins sem vantar í þessi svokölluðu klón.

Það sem mér finnst persónugera bandið í heild sinni en þó sérstaklega þessa plötu er hvernig þeir ná að nota ýmisleg óhefðbundin hljóðfæri í valda kafla og það hljómar alltaf töff. Það er svolítið kómískt en það verður aldrei kjánalegt og það passar alltaf inn í. Meira að segja ná þeir að nota saxófón án þess að ég verði pirraður. Breakdown og moshkaflarnir þeirra hafa líka ótrúlega mikinn hip hop fíling og mér finnst þeir skila því mun betur frá sér heldur en nokkurt annað band því það skapast aldrei neitt svona gangster harðjaxla andrúmsloft. Ég held ég geti heldur ekki látið frá mér umfjöllun um þetta band án þess að nefna hversu vel þeir nota það að þeir syngja allir. Það verður aldrei klunnalegt og mér finnst eins og það virkilega bæti við vídd í tónlistina þeirra og ég held að lögin væru ekki söm með bara einni rödd. Það er þessi fjölbreytni sem veldur því að ég mæli með þessari plötu fyrir þá sem þekkja ekki til power violence, til að byrja á. Því bönd eiga það til að hljóma einhæf og margir ná ekki kraftinum ef þeir eru ekki vanir að hlusta á svipuð bönd.

Þrátt fyrir alla þessa reiði og brjálæði í tónlistinni þá eru textarnir oftast bara frekar fyndnir og nördalegir. Mér finnst það allt í lagi samt því það skín í gegnum tónlistina að þeir taka sig ekki 100% alvarlega en það dregur ekki úr því hvað maður finnur fyrir útrásinni sem þeir fá við að spila þessi lög. Þessir menn elska greinilega það sem þeir gera og það hefur ekki bara sést í gegnum Spazz heldur einnig á því að allir meðlimir bandsins hafa haft ótrúleg áhrif á hina alþjóðlegu hardcore/pönksenu bæði með öllum böndunum sem þeir hafa spilað í, zine’unum sem þeir hafa skrifað í og plötuútgáfunum sem þeir hafa rekið.

-

Gefin út árið 1995 af Sound Pollution Records

1 WWF Rematch at the Cow Palace
2 4 Times a Day
3 Desperate Throat Lock
4 Bobby's Jackpot Jamboree
5 Dewey Decimal Stitchcore
6 Swampfoot
7 C.L.A.
8 Camp Chestnut
9 No Shadow Kick
10 The One With the Goat's Got an Orgy Up the Sleeve
11 Bitter (Execution of a Chump)
12 Let's Kill Fuckin' Everybody
13 Sweet Home Alabama
14 Raging Hate, Fear, and Flower Power Violence
15 Climate Best
16 Urinal Cake
17 8 Drunkard Genaii
18 Sesos
19 DaLJeet's Detonation
20 Turnbuckle Treachery
21 Backpack Bonfire
22 Don't Quit Your Day Job
23 Musica de la Rocha
24 Coil of the Serpent Unwinds
25 Golden Egg Stance
26 M.A.D

Ég fann engin lög af plötunni á netinu en hér eru samt þrjú lög með hljómsveitinni sem ættu að gefa góða hugmynd um hvernig bandið hljómar.

Gummo Love Theme (tekið upp fyrir soundtrackið á myndinni Gummo en lagið er þó ekki í myndinni sjálfri)
Satan's Scrilla
No Neck Joe

Þessi grein birtist upphaflega í pönkritinu Aumingi.
Paradísarborgarplötur