THE OBSERVERS - So What's Left Now
Gefin út árið 2004 af Vinyl Warning (Yellow Dog í Evrópu)

Meðlimir:
Douglas Burns – Lead Vocals, Additional Guitar
Johnny Kashani – Guitar, Vocals
Colin Grigson – Bass, Vocals
Mike Warm – Drums

Lagalisti:
1. Symbols, Slogans, Lies
2. Short Day
3. Lead Pill
4. Defeated
5. What a Waste
6. State of Decay
7. Paralyzer
8. The Condition
9. Us Against the World*
10. Down On Today
11. Expiration

* Aðeins á geisladisknum. Upprunalega flutt af The Speds (band sem innihélt meðlimi THE OBSERVERS).


-

Stundum koma plötur sem skipta svo miklu máli, sem ættu að breyta heiminum. Ef heimurinn væri sanngjarn, væru margar hljómsveitir, sem draga að 100-200 manns þegar þær spila á litlum skítaklúbbum, hylltar á sama hátt og Bítlarnir eða Elvis Prestley. Lífið er víst allt annað en sanngjarnt og því sitja mörg meistaraverk eftir í skugganum á meðan óvandaðar froðupoppplötur seljast í milljónum eintaka. Eitt af böndunum sem myndi breyta tónlistarheiminum ef ég fengi einhverju ráðið væru THE OBSERVERS.

Ég heyrði fyrst í þeim á netinu, lagið Lead Pill. Það var svo frábært. Ég var seldur á staðnum. Ég nældi mér fljótlega í sjötommurnar þeirra og svo loksins eignaðist ég So What’s Left Now? LP’ið á vínyl þökk sé Gagnauga distro’inu.

Fyrir mér er pönk sem tónlistarstefna, tónlistarleg fullkomnun eða svona eins nálægt því og ég get ímyndað mér. Galli pönks er að, vegna einfaldleika stefnunnar er auðvelt að hljóma nákvæmlega eins og milljón önnur bönd. Svo koma bönd eins og THE OBSERVERS og setja allt á annan endann.

So What’s Left Now? hljómar eins og allt annað sem THE OBSERVERS hafa gert en án þess að hljóma eins og endurtekning. Þeir taka power pop pælingar THE JAM og bæta inn dimmum, gotneskum, new-wave melódíum á sama hátt og þróaðari pönkbönd Bandaríkjanna á seinni hluta áttunda áratugarins og í upphafi þess níunda. Þó þetta sé að vissu leyti melankóliskt er þetta jafnframt sprengikröftugt.

Allt við þessa plötu finnst mér vera fullkomið. Hvort sem litið er á hvernig meðlimir bandsins virðast smella saman, hljóm plötunnar eða lagasmíðarnar. Lagasmíðarnar eru svo útpældar og karakterískar en samt verða þær aldrei skrýtnar. Hljómurinn er mjög gamaldags og hentar plötunni fullkomnlega. Söngvarinn syngur líka eins og hann sé að reyna að vinna Paul Weller (THE JAM) eftirhermukeppni.

Ég heyrði einu sagt að þetta hefði átt að vera platan sem THE JAM áttu að gera eftir This is the Modern World en ég er ekki viss. THE JAM er eitt af mínum uppáhalds böndum en samt held ég að þeir hefðu aldrei getað gert plötu sem myndi heilla mig jafn mikið og efni THE OBSERVERS.

(Lagið Lead Pill (þröngskífuútgáfan))
Paradísarborgarplötur