Wipers hefur á stuttum tíma náð að verða eitt af mínum uppáhalds böndum. Ég uppgötvaði bandið á mp3 bloggi félaga míns (http://plotunord.blogspot.com) og svo í sumar fann ég plötuna Over the Edge á vínyl þegar ég var á pönkhátíðinni K-Town fest sem er í haldin í squatti Kaupmannahöfn (fólk hefur kannski heyrt af uppþotum og látum í Kaupmannahöfn, það eru pönkararnir þar sem standa bakvið það mál en ég ætla ekki að leggja í nánari útskýringar á því máli). Þessi plata hefur ósjaldan fengið að snúast undir nálinni hérna heima. Ég hef því ákveðið að deila með ykkur lögum með þessari frábæru sveit (smellið á lagaheitin til að sækja mp3 skrár):

No One Wants an Alien
D-7

Ég veit ekki hvort það sé auðvelt að eignast plöturnar þeirra í dag. Over the Edge var gefin út á Braineater Records árið 1983 (já ég ætla að skrifa um 80's bönd hérna, andskotinn hafi það) og ég geri ráð fyrir að hún hafi verið endurútgefin því ég keypti hana á venjulegu verði. Til allrar hamingju gáfu Sub Pop út fyrstu skífu Wipers út og eru búnir að endurútgefa hana og því ætti ekki að vera erfitt að nálgast hana og jafnvel fá plötubúðir hér heima til að panta frá þeim þar sem þær fá allar plötur þaðan. Ég veit samt ekki hvort hún sé bara til á geisladisk eða hafi verið pressuð líka á vínyl. Ég persónulega vona að vínyllinn sé til.
Paradísarborgarplötur