Upphaf og þróun hjólabrettapönksins á 9. og10.áratuginum Þessi grein er skrifuð í tilefni af kærkominni endurkomu Blink 182 á þessu ári. Jafnframt er hún tileinkuð Jóa Ólafs. Blink Forever ;)

Upphaf og þróun hjólabrettapönksins á 9. og10.áratuginum

Í kjölfar pönksins, sem varð til og óx úr grasi um og uppúr miðjum 8. áratuginum, spruttu margar greinar. Þessar greinar pönktrésins gáfu af sér allskonar ávöxt en þó voru sumar greinar sem blómstruðu meira og lifðu lengur en aðrar. Ein þeirra er ,,skate-punk”-ið eða hjólabrettapönkið sem, eins og nafnið gefur til kynna, hefur tengingu við hjólabrettamenninguna. Þó svo að hjólabrettapönkið sé náskylt öðrum tónlistarstefnum þá sker það sig samt úr og ber réttilega sitt eigið nafn sökum einkenna sinna. Til að gera sér betur grein fyrir einkennum fyrstu hljómsveita hjólabrettapönksins, í upphafi 9. áratugarins, er rétt að fjalla lítilega um þann bakrunn og menningu sem þær eru upprunnar úr.
Hjólabrettið varð til í kringum 1950 í Kaliforníu i Bandaríkjunum þegar brimbrettagæjar, sem gátu ekki “surfað” sökum veðurs, fundu upp á því að láta dekk undir viðarplötur til að svala brettaþorstanum. Hjólabrettið hóf síðan þróun sína og tók miklum breytingum í sniði allt fram undir lok 20.aldar. Segja má að gullöld hjólabrettamenningarinnar hefjist í upphafi 9.áratugarins. Þá hafði “ollie-ið”(að hoppa með brettinu) nýlega verið fundið upp og með því opnuðust margir nýjir möguleikar við brettanotkun og fleiri brellur urðu til eins og t.d. “kickflippið”. Með tilkomu þessara nýjunga bæði í hönnun og notkun hjólabrettisins fóru vinsældir þess að aukast. Unglingar á hjólabrettum þeystust um götur borganna í auknum mæli og oftar en ekki hópuðust þeir saman og mynduðu brettahópa.
Þessir brettagæjar voru margir hverjir með svipaða afstöðu til lífisins, en þeir sem stunduðu hjólabrettin voru aðallega strákar þó ein og ein stúlkukindin hafi slæðst með. Þetta voru oft reiðir og þunglyndir unglingar sem sáu lítinn tilgang í lífinu og gáfu skít í ríkjandi gildi samfélags með uppreisnargjarnri hegðun. Þar kom hjólabrettið sterkt inn sem sameiningarmáttur og tæki til að hjálpa ,,skeiterunum” að tjá sig og fá útrás. Þessi andfélagslega hegðun birtist á ýmsan hátt. Sameiginlegar eignir samfélagsins fengu oft miður góða útreið hjá brettafólkinu þar sem það hjakkaðist mikið á bekkjum, handriðum, tómum sundlaugum og fleiri hlutum í almenningseign við hjólabrettaiðkun sína. Lögreglan fann sig oft knúna til að skerast í leikinn við litlar vinsældir skeitarana og mikill rígur skapaðist þar á milli og lögregluhatur varð ríkjandi innan hjólabrettamenningarinnar þó það hafi farið minnkandi með árunum. Skeitarar á 9.áratuginum fengu fljótt á sig stimpil sem uppreisnargjarn lýður og voru kallaðir “punks” með tilvísun í fyrstu pönkarana og hátterni þeirra. Því kemur það ekki á óvart að tónlistin sem varð til í kringum skeitmenninguna sé náskyld pönkinu.
Á sama tíma og brettanotkun óx fiskur um hrygg spruttu fram hljómsveitir í Kaliforníu undir áhrifum frá pönki 8.áratugarins. Það sem skapaði þessum hljómsveitum sérstöðu frá pönkinu var að tónlistin sem þær spiluðu varð hraðari, melódískari og tækni hljóðfæraleikara meiri. Samt sem áður var tónlistin mjög hrá og yfirleitt virtist ekki mikið hafa verið lagt í upptökurnar. Ástæður fyrir því að þessar hljómsveitir fengu á sig skeit-pönk stimpilinn eru nokkrar en sú sem vegur ef til vill þyngst í því tilliti eru textarnir en þeir endurspegla yfirleitt lífstíl skeitarans. Þeir einkenndust af vonleysi og tilgangsleysi og tilvísanir í hjólabrettaiðkun og anarkisma voru algengar. Þrátt fyrir þunglyndislegt innihald í textagerð þá greinir maður húmorískan undirtón hjá mörgum hljómsveitanna. Helstu skilaboðin sem lesa má út úr textum skeit-pönk sveitanna eru þannig að þeim var skítsama um allt og alla, meira að segja sama um sjálfa sig og heilsu sína, og það eina sem virtist skipta þessa hjólabrettapönkara máli var að skeita, hlusta á pönk tónlist og borða óhollan mat. Þessar pælingar má sjá á ótrúlega auðskiljanlegan hátt í lagi sem JFA sendi frá sér og nefnist “Cokes and snickers” en þeir sungu þennan texta í gegnum allt lagið: “Cokes and snickers is all I eat, cokes and snickers is all I need, health sucks, health sucks” sem og í lagi The Faction “Let’s go get cokes” en þar var mjög svipað inntak í textanum; “Let's go get Cokes, Anything else will make me choke, 7-11 gulps are the best, I won't settle for anything less, I won't stand for anything less”. Þetta skeitingarleysi gagnvart eigin líkama og heilsu endurspeglast líka í hjólabrettaiðkuninni sjálfri sem getur verið stórhættuleg og valdið stórvægilegum meiðslum á líkömum þeirra sem það stunda. En eins og minnst var á að framan þá innihéldu textarnir ekki bara hvatningarorð um óhollt mataræði heldur var einnig algengt að löggur fengu á baukinn; Þannig sungu JFA-liðar: “went to skate my favourite local pool, cops harass me like a criminal, they don't get the possibilities, cussing, biting, stealing, fighting, skateboard anarchy”.
Algengt var að meðlimir hljómsveitanna væru flinkir hjólabrettakappar. Sem dæmi má nefna að allir meðlimir einnar helstu skeit-pönk sveitarinnar, The Faction, voru skeitarar. Bassaleikarinn í þeirri hljómsveit, Steve Caballero, var og er atvinnu skeitari og hefur til að mynda verið notaður sem karakter í Tony Hawk’s hjólabretta tölvuleikjunum vinsælu. Hann spilaði því stóran sess í að draga athygli skeitara að hljómsveit sinni The Faction sem starfaði á árunum 1982-1985. Aðrar neðanjarðar sveitir skeit-pönk stefnunar á 9.áratuginum voru m.a. JFA og Suicidal Tendencies, auk Minor Threat og Black Flag sem skilgreinast reyndar frekar sem hardcore pönk en höfðu mikil áhrif á skeit pönk sveitirnar.
Flestar skeit-pönk sveitirnar á 9.áratuginum voru neðanjarðarsveitir (underground) sem tilheyrðu flestar hverjar sjálfstæðum útgáfufyrirtækum og voru þannig trúar pönkheimspeki sinni . En eins og með flestar neðanjarðar tónlistarstefnur er alltaf einhver hluti hennar sem fer upp á yfirborðið í “mainstreamið” og sogast þannig inní neyslumenninguna, skeitpönkið var ekki undanskilið þar. Hljómsveitirnar The Offspring, Green Day og Rancid komu skeit-pönkinu upp á yfirborðið um miðjan 10 áratugin og Blink 182 fylgdi þar á eftir ásamt mörgum fleirum. Í kjölfar þess varð hljóðið poppaðra hjá þessum sveitum, eflaust vegna pressu frá útgáfufyrirtækjum, og þær eyddu meiri tíma í stúdíóinu sem leiddi til þess að hráa pönk hljóðið hvarf. Skýrt dæmi um þessar breytingar á hljóði í kjölfar skipta á útgáfufyrirtæki var þegar Blink 182 gerði samning við MCA 1998. Þá höfðu þeir áður gefið út tvær plötur; Chesire Cat(1994) og Dude Ranch(1997) sem báðar voru teknar upp á tiltölulega stuttum tíma, sú fyrri á aðeins þremur dögum, sem skilaði sér í hráu hljóði auk þess sem tónlistin var hraðari og pönkaðri. Árið 1999, ári eftir samning við útgáfurisann gáfu þeir út Enema of the state sem skaut þeim upp á stjörnuhimininn. Sándið var orðið mun próduseraðra og tónlistin því aðgengilegri og poppaðri. Myndbönd með hljómsveitinni voru títt spiluð á MTV og vinsældirnar urðu til þess að sveitin var fengin til að leika gestahlutverk í tímamótamyndinni American Pie sem hafði mikil áhrif á unglingamenningu hins vestræna heims.


Heimildir:

http://en.wikipedia.org/wiki/Skate_punk
http://en.wikipedia.org/wiki/Skateboarding
http://en.wikipedia.org/wiki/JFA_(band)
http://en.wikipedia.org/wiki/The_Faction
http://www.skatepunk.com/profiled/faction-skate-rock
http://en.wikipedia.org/wiki/Suicidal_Tendencies
http://en.wikipedia.org/wiki/Blink_182
http://www.lyricstime.com/jfa-cokes-and-snickers-lyrics.html
http://www.lyricsondemand.com/f/factionlyrics/skateanddestroylyrics.html
http://www.sing365.com/music/lyric.nsf/Lemmings-lyrics-Blink-182/308EFCFB20C5DF934825689D00313910
http://www.lyricsmania.com/lyrics/jfa_lyrics_13167/other_lyrics_40110/skateboard_anarchy_lyrics_434890.html
http://www.lyricstime.com/faction-let-s-go-get-cokes-lyrics.html

Myndbönd:
Nervous Breakdown, Foundation Super Co. 1999