Þessi grein birtist upphaflega í pönkblaði sem ég gerði, sem hét Aumingi. Ég ákvað að birta hana hér vegna korks sem einhver skrifaði í sambandi við pönk og anarkisma.

Ég komst inn í pönktónlist þegar ég var 14 ára gamall. Í gegnum pönkið kynntist ég anarkisma sem og ýmsu um dýraréttindi og umhverfismál. Ég varð strax heillaður af hugmyndum anarkista og sökkti mér í texta frá hinum og þessum spekingum. Ég tók allar þessar hugmyndir sem ég las um og með árunum mótaði ég mína eigin sýn á anarkisma. Ég er samt sem áður ennþá að móta mínar skoðanir og ég er langt frá því að vera kominn með heilsteypta hugmynd um hvernig mér finnist að heimurinn skuli virka. Í rauninni verður eina lokaniðurstaða minnar heimsýnar vera það sjónarhorn sem ég hef þegar ég dey. Það að halda að maður hafi ráðið lífsgátuna eða að maður hafi í raun einhver svör þykir mér vera fáfræði. Lífið er endalaus leit af svörum við spurningum sem aldrei verður svarað og eins tilgangslaust og það hljómar, held ég að þetta sé svona því þetta drífur okkur áfram í gegnum lífið. Þetta er gulrótin sem við getum endalaust hlaupið á eftir. Þetta er okkar eðli. Náttúran er snjöll. Við höldum þó í sífellu að við séum komin með þetta, að við vitum betur. Þá hlaupum við af stað og boðum fagnaðarerindið. Reynum að bjarga öllum þessum týndu sálum. Róttæklingar tala um að maður verði að horfa meira út fyrir pönksenuna. Þeir segja að maður geti ekki endalaust predikað til þeirra sem þekkja boðskapinn jafn vel og handabakið á sér.

Eitt af því sem heillaði mig alltaf hvað mest við þær anarkísku hugmyndir sem ég gerði að mínum eigin, var uppreisnin. Þ.e.a.s. það að setja upp lítið samfélag byggt á þessum hugmyndum, innan stærra samfélags og svo myndi samfélagið smám saman stækka og á endanum gleypa samfélagið sem það var byggt innan í. Jafnvel ef þetta myndi aldrei gerast væriru kominn með samfélag sem byggt væri á þessum hugmyndum og það væri þá athvarf fyrir þá sem ekki teldu sig eiga heima í kapitalísku samfélagi. Ég held þó að almennt finnist fólki þetta vera langsóttir draumórar og að þessar hugmyndir um anarkisma og friðsama anarkíska uppreisn eigi lítið skylt við raunveruleikann. Ég held að fólk átti sig oft ekki á mikilvægi hinnar alþjóðlegu pönksenu því það er hún sem er stöðugt að afsanna að anarkismi virki ekki. Hér erum við að tala um risastórt alþjóðlegt samfélag þar sem hlutirnir ganga án afskipta stórfyrirtækja. Auðvitað er verslað eitthvað við stærri fyrirtæki en mismunandi lönd versla einnig sín á milli. Í nánast öllu er pönkið algjörlega sjálfstætt. Ef stórfyrirtæki dýfa sér inn og grípa bönd til að selja þá eru þessi bönd ekki lengur hluti af „gerðu það sjálfur“ neðanjarðarsenunni. Þau spila ennþá pönk tónlist kannski en þau eru komin út fyrir þessa senu sem þýðir að stórfyrirtækin hafa ekkert meiri áhrif á pönksamfélagið frekar en áður.

Það sem mér þykir merkilegast er að þetta samfélag inniheldur fólk frá öllum heimshornum og með alls konar skoðanir. Fólk sem hefur engan áhuga á anarkisma eða stjórnmálum yfir höfuð tekur virkan þátt í einni stærstu stjórnmálahreyfingu heimsins. Þess vegna þykir mér ráðlegra að, í staðinn fyrir að einbeita sér meira af því sem er að gerast hér og þar um heiminn, þá sé vert að setja meiri orku í að gera pönkið sjálfstæðara og stöðugra. Hvetja fólk til að vera virkt. Gera blöð, halda úti heimasíðum, gefa út plötur, við höfum okkar eigin fjölmiðla. Við hönnum okkar eigin föt, við þurfum ekki tískuiðnaðinn til að segja okkur hvernig við eigum að líta út. Við höldum eigin tónleika með eigin böndum því við þurfum ekki aðra til að skemmta okkur. Hvernig væri svo að vinna í því að pönksenan tæki inn fleiri þætti eins og húsnæði og fæði? Það er svo margt sem við getum gert. Það sem þarf að gera er að virkja sig og sína. Við erum uppreisnin, hvað svo sem fólk heldur.

Til þess að halda uppi þessari senu okkar þarf samt stanslaust að vera að vinna hörðum höndum að halda henni á lífi. Og ég held að það sé mikilvægt hvort sem fólk hugsi um senuna sem pólitískt afl eða ekki því þetta er einnig samastaður fyrir fólk sem passar ekki inn neinsstaðar annarsstaðar. Þetta á að vera umhverfi þar sem maður getur losnað við allt framhaldsskólakjaftæðið (já eða grunnskólakjaftæðið ef maður er að eiga við það). Þ.e. vinsældarkeppnirnar og allt það kjaftæði. Þetta á að vera umhverfi þar sem manni er tekið eins og maður er, hvort sem maður er lúði eða töffari, bara svo lengi sem maður er einlæg manneskja. Auðvitað verður það aldrei alveg þannig frekar en annarsstaðar en pönksenan er það horn samfélagsins sem ég hef komist næst því að upplifa það.

Ég hef persónulega eytt fullt af peningum, tíma og orku í þessa senu, sem og margir aðrir, en ég sé ekki eftir neinu. Það eina sem ég hef vonað er að það sem ég geri hafi verið hvatning fyrir einhvern þarna úti að gera eitthvað sem honum/henni hefur lengi langað til að gera. Mér finnst að pönksenan eigi að vera eitthvað þar sem fólk getur látið verða af draumum sínum. Okkar samfélag á að vera byggt á ævintýrum frekar heldur en svokallaðri raunsæishyggju hins stærra samfélags sem drepur niður vonir og væntingar og gerir fólk að vinnuafli, vélmennum, tölum, markaðshópum í stað þess að upphefja einstaklinga sem manneskjur. Því hvet ég fólk til að gera eitthvað. Hvað sem er. Skrifaðu zine, málaðu mynd, búðu til föt, settu upp distro með böndum sem þig langar að kynna fyrir fólki, gefðu út plötur með böndunum sem enginn vill gefa út en þér finnst hafa breytt lífi þínu, stofnaðu þitt eigið band.

Það er samt það sem okkar sena þarf fyrst og fremst akkúrat um þessar mundir: fleiri hljómsveitir. Því hvort sem manni líkar betur eða verr þá snýst okkar sena í kringum tónlist og þá er eins og er nauðsynlegt að hafa nægilega mikið af böndum að spila svo maður sé ekki alltaf að halda sömu tónleikana aftur og aftur. Ég veit að þetta er kannski stórt skref fyrir mörgum en það eina sem þarf er að redda sér einhverju til að spila á og halda svo tónleika eða tala við einhvern sem er að halda tónleika og reyna að troða sér inn á þá. Bandið þitt þarf ekki að vera best í heimi, það eina sem þarf er að þú gefir allt sem þú hefur í það sem þú gerir. Ef allir labba út þegar þú spilar þá skiptir það engu máli svo lengi sem þú gafst þig í þetta. Ég hef verið að spila í hljómsveitum síðan 2001 og ég get sagt ykkur það að margt af því sem ég hef tekið upp hefur verið alveg með því versta sem hefur verið gert í mannkynssögunni. Ég man ennþá þegar ég var 15 ára að vinna í unglingavinnunni árið 2000 og hafði mikið verið að hlusta á Minor Threat. Skrifaði allt sem ég átti með þeim á disk, mætti í vinnuna og eitt það fyrsta sem ég gerði var að sýna Höska vini mínum diskinn og segja við hann: „núna stofnum við pönkhljómsveit!“ Ári síðar var ég búinn að kaupa gítar og æfingamagnara og dag einn árið 2001 hittumst við Höski og Níels vinur okkar heima hjá mér og inn í herberginu mínu fæddust fyrstu upptökur hinnar stórmerku ofurgrúppu Blondage (við hétum Bondage þá vegna ónáttúrulega mikils áhuga eins meðlimsins á klámi). Höski hafði þá reddað sér bassa og magnara og við glömruðum eitthvað á þetta og tókum upp á tölvuna svo notuðum við tölvutrommur undir og einstaka bongótrommuslagverk eftir meistara Níels. Tveimur árum síðar gáfum við svo út demo sem, þrátt fyrir að hafi verið illa spilað og hálf kjánalegt, ég er mjög stoltur af. Það verður endurútgefið á næstu vikum í von um að hvetja fólk um að stofna bönd hvort svosem þau kunni eitthvað eður ei. Því fyrir mér er þetta eiginlega það sem pönk snýst um og ég held að þetta hafi bara alltaf verið drifkaftur pönksins: það að það sé ekkert í gangi eða að maður er ekki að gera eitthvað sem maður vildi að maður væri að gera og að lokum áttar maður sig á að það er bara manns eigin iðjuleysi að kenna og maður ákveður að gera eitthvað í þessu og fer af stað og lætur hluti gerast.

Það eru samt ekki bara hljómsveitir sem nauðsynlegt er að hafa. Þetta væri hálf fátæklegt samfélag ef svo væri. Sumir vilja t.d. frekar nota penna til að tjá sig heldur en gítar og þá er tilvalið að skrifa zine. Það er hægt að skrifa um tónlist, tilfinningar, hvað sem er. Það er eins með það og hljómsveitir: maður þarf ekki að vera bestur, bara að leggja sig fram og njóta þess sem maður er að gera. Það eiga aldrei allir eftir að hafa gaman af því sem þú gerir þannig að ekki hafa of miklar áhyggjur af skoðunum annara. Ég hef gert zines lengi og það er ótrúlega gaman. Mig dreymir um tíð sem ég sé nýtt íslenskt zine reglulega á tónleikum og fæ að skoða hugmyndir nýs fólks. Ég vil einnig hvetja fólk sem hefur gaman af því að sauma föt eða gera stensla og jafnvel screen-printa að gera hanna föt og selja á tónleikum. Hafa jafnvel samband við hljómsveitir og gera föt eða bætur fyrir þær og þar með er komin tenging og samvinna innan senunnar. Einnig fólk sem kann að teikna eða mála, þið ættuð að reyna að koma verkum ykkar á framfæri sem og allt þetta fólk sem er að taka myndir á tónleikum. Ég væri til í að sjá þessar myndir. Hvernig væri að setja saman ljósmyndazine? Eða að halda tónleika og listasýningu saman eða jafnvel bara sér listasýningu? Pönksenan getur orðið svo ótrúlega fjölskrúðugt menningarsamfélag. Möguleikarnir eru endalausir.

Ég er kannski ekki besti penni í heimi en ég vona þó innilega að þessi skrif mín verði hvatning til einhvers sem hefur lengi langað að láta verða af einhverju en ekki þorað því. Ef þið eruð í vandræðum með að setja saman zine eða koma bandinu ykkar á tónleika eða bara eitthvað þá er aldrei að vita nema að ég geti hjálpað ykkur þannig að endilega hafið samband.
Paradísarborgarplötur