Plöturýni - The fame / The Fame Monster Í millilandaflugi um daginn var ég í stuði fyrir tónlist og ákvað að kynna mér hina athyglisverðu (eða –sjúku) Lady Gaga. Það sem boðið var uppá í afþreyingarkerfi flugvélarinnar var samsuða af báðum plötum söngkonunnar, The Fame (2008) og The Fame Monster (2009). Alls voru þettta 21 lag, 1 klukkustund og 31 mínúta.

Ég hef ekki kynnst Lady Gaga nema í gegnum hófsama útvarpshlustun og finnst margt af því sem þar hefur heyrst skemmtilegt. Ég hlusta á ýmsar aðrar tegundir af tónlist en hef oft gaman af hressu, skemmtilegu og góðu poppi.

Platan byrjaði vel með útvarpssmellunum Bad Romance og Alejandro sem náðu að lífga mig við eftir langan dag af ferðalögum. Ég held að bæði lögin hafi verið í lengri útgáfu en þau voru spiluð í útvarpinu og það fannst mér óþarfi. Reyndar tók ég sérstaklega eftir því að fimm fyrstu lögin voru yfir fjórar mínútur að lengd og tvö þeirra voru ansi hátt á fimmtu mínútuna. Fyrir dans/popptónlist af þessu tagi finnst mér þetta heldur mikið af löngum lögum.

Ég varð hissa á því hversu mörg laganna ég þekkti úr útvarpi og verð að játa að mér fannst þau yfirleitt skemmtilegri en lögin sem ég kannaðist ekki við. Taka má fram að ég hlustaði bara á plötuna einu sinni. Eina „nýja“ lagið sem mér fannst skera sig úr var lagið Speechless. Bæði er lagið fallegt og söngstíllinn sem Lady Gaga beitir í því frábrugðinn því sem hún gerir í öðrum lögum plötunnar. Í þessu lagi sannaði hún fyrir mér að hún getur sungið og það vel. Röddinni hefur ekki verið breytt eða skreytt með rafrænum áhrifum og er dýpri en í flestum öðrum lögunum. Ég hefði viljað heyra meira af þessum toga.

Þegar líða fór á plötuna fór mér að leiðast plastáferðin á röddinni og róbótataktarnir. Hæstu hæðum fannst mér þetta ná í laginu Eh, Eh (Nothing Else) sem minnti mig á lag með hljómsveitinni Aqua.

Ég lagði mig ekki sérstaklega eftir textunum en varð þó hissa á því hversu mikið af viðlögum og öðrum „krækjum“ sem eiga að grípa áheyrendur byggir á orðaleysum á borð við „rah, rah, ah, ah, ah, roma, roma, ma, gaga, ooh la la“ (Bad Romance). Af manneskju sem er með tilvitnun í þýskan heimsspeking tattúrveraða á handlegginn á sér bjóst ég við aðeins meira.

Í heildina hafði ég takmarkað gaman af þessum plastkennda og róbótíska stíl Lady Gaga. Þetta er ekki plata sem ég þarf að eiga en ég er þó fegin að hún sé til vegna útvarpssmellanna.
Lady Gaga er greinilega góð söngkona en skemmtilegt væri að heyra hana syngja meira með sinni náttúrulegu rödd.

Ef ég ætti að gefa stjörnur væru það 2,5 af 5.
Forever is such a long, long time and most of it hasn't even happened yet.