Snowler skellir sér á tónleika Hljómsveit: Sugababes
Dagsetning: 8.apríl 2004
Staðsetning: Laugardalshöll
Ástæða tónleika: Evrópuferð þeirra til að kynna nýja diskinn Three.

<b>Inngangur</b>
Já það eru sennilega ekki margir karlkyns aðdáendur Sugababes á Íslandi en ég verð að viðurkenna að ég er einn af þeim. Frá því að ég heyrði Overload hefur mér alltaf fundist bandið skera sig töluvert frá öðrum stúlknahljómsveitum. En ég ætla nú ekki að fara neitt nákvæmlega í það af hverju mér finnst hljómsveitin öðruvísi, þetta er sennilega að mörgu leyti huglægt mat en einnig spilar inn í hvernig hljómsveitin var stofnuð, hvernig lögin verða til o.s.frv.


En hvað sem því líður þá hélt ég fullur eftirvæntingar í átt að Laugardalsvelli og var kominn þangað rétt fyrir klukkan níu. Ég nennti ekki að sjá Skytturnar og Önnu Katrínu, að vísu eru Skytturnar góðar en ég var bara ekki viss hvor hituðu upp á undan og ég nennti ekki að mæta of snemma. Þegar komið var á staðinn bjóst ég ekki við neinum ógurlegum mannfjölda en þarna streymdi fólk að og keypti miða á staðnum auk þess sem að ansi margir voru þegar mættir. Ég gæti trúað því að það hafi allt að því selst upp, a.m.k. var vel stappað þegar tónleikarnir hófust. Þarna var fullt af fólki mætt og aðallega stelpur á aldrinum 8-15 ára auk þess sem fullt af foreldrum voru á staðnum. Nokkrir strákahópar voru þó áberandi og skáru sig vel úr á gólfinu enda höfðinu hærri en meginþorri þeirra sem mættur var. Gríðarlegur hiti var enda hefur undirritaður sjaldan eða aldrei séð eins marga hlýraboli mætta á sama stað. Var því vel til fundið hjá þeim sem veg hafa af þessum tónleikum að hafa fatahengi þar sem hægt var að skilja eftir föt og töskur. Kostaði reyndar 200 krónur, en þá upphæð borgaði ég með glöðu geði enda þegar byrjaður að svitna sökum hitans.
Róleg tónlist var spiluð undir á meðan beðið var eftir stúlkunum í Sugababes. Spennan lá líka í loftinu og þegar klukkan var kortér gengin í tíu kom bandið sem spilar undir sér fyrir á sviðinu og byrjaði að spila Kashmir sem Led Zeppelin gerðu frægt á sínum tíma. Spennan gríðarleg og þegar stúlkurnar þrjár stigu á svið varð allt brjálað og skerandi hróp lítilla aðdáenda nístu inn að beini, tónleikarnir voru byrjaðir.

<b>Lögin</b>
Fyrsta lagið sem þær tóku var Freak, sennilega eitt besta popplag síðustu fimm ára. Laglínan er tekin úr laginu Are Friends Electric sem Gary Numan gerði ekkert sérstaklega frægt á sínum tíma, enda er hann talinn „one hit wonder“ tónlistarmaður og lagið sem gerði hann frægan var lagið Cars. Mæli með því. Næsta lag var lag af fyrstu plötu þeirra og það lag sem gerði þær frægar á sínum tíma, þegar Keisha og Mutya voru aðeins 15 ára gamlar. Lagið heitir Overload og var Heidi ekki komin í hljómsveitina þá heldur var þar stúlka að nafni Siobhan Donaghy. Síðan héldu lögin áfram hvert á fætur öðrum. Dave sem er einn af þeim sem spila undir settist hjá þeim og spilaði á kassagítar „acoustic“ útgáfu af lögunum Shape og Breathe Easy. Reyndar var lögunum steypt saman og Shape ekki spilað til loka, enda er viðlagið fengið að láni frá meistara Sting. Ég man reyndar ekki röðina á lögunum sem komu eftir á en man þó það að Round Round var lokalagið.

Eftirfarandi er listi yfir lögin sem voru flutt, þetta er eftir minni (gæti vantað lag) og ekki í réttri röð:
Freak (Angels With Dirty Faces)
Overload (One Touch)
Shape/Breathe Easy (Acoustic Jam) (bæði af Angels With Dirty Faces)
Virgin Sexy (Angels With Dirty Faces)
Round Round (Angels With Dirty Faces)
Stronger (Angels With Dirty Faces)
Caught In A Moment (Three)
Buster (Three)
Run For Cover (One Touch) –ég er ekki alveg klár á þessu lagi samt-
Too Lost In You (Three)
Million Different Ways (Three)
In The Middle (Three)
Hole In The Head (Three)

Þau lög sem ég hefði viljað heyra en voru ekki flutt eru Converstation Over og Sometimes af nýju plötunni og af Angels With Dirty Faces hefði ég viljað heyra Supernatural og Blue. Hins vegar er eina lagið sem mér finnst hefði mátt missa sín er Buster, sem er að mínu mati einfaldlega ekki gott lag.
Þær töluðu aðeins á milli laganna en þó aðallega til þess að biðja fólk um að færa sig aðeins frá sviðinu. Heidi talaði mest og heyrði ég á fólki að því fannst hreimurinn frekar skrýtinn en þetta er sterkur Liverpool hreimur fyrir þá sem vilja vita það. Annars virtust þær frekar ánægðar með áhorfendur og vinkuðu mikið út í sal til þeirra og brostu blítt.
Fyrir lokalagið sögðu þær að það yrði lokalagið og eftir að það var búið voru þær roknar í burtu og dauft uppklappið hafði lítið sem ekkert að segja, þær voru farnar.

<b>Showið, hljóð og fleira</b>
Eftir að hafa séð eitthvað úr tónleikum þeirra í Brighton átti ég alveg eins von á mikilli sýningu. Ekki varð það svo og reyndar var Nasty Ghetto lagið ekki flutt, en samkvæmt því sem að ég hef séð, hafa þær kallað á karlkyns áhorfanda úr sal og hlekkjað hann við rúm þegar þetta lag er flutt. En hvað sem því líður þá var þetta nokkuð einfalt hjá þeim, ekki mikill dans heldur smá mjaðmahreyfingar og svo var labbað yfir sviðið og skipt um staðsetningu við hinar. Einnig settust þær á stóla og tóku róleg lög. Sem sagt showið var ekki mikið hvort sem var í ljósum, dansi eða öðru en þetta var samt alveg fínt. Persónulega hefði ég ekki viljað sjá einhverja Britney Spears stæla á þetta. Flutningur laganna var hins vegar með ágætum og þær eru nokkuð góðar söngkonur það verður ekki tekið af þeim. Það eru ekki allar söngkonur sem syngja á tónleikum og sumar þær frægustu eiga það til að „mæma“ heilu tónleikana. Það er líka miklu skemmtilegra að fá lifandi hljómsveit í þetta.
Það sem mér þykir þó mestur galli við þetta er hversu þær eiga erfitt með að brjótast úr forminu, þ.e. þær eru frekar staðlaðar í sínum hreyfingum og breðga lítið út af vananum. Ekkert óvænt ekkert sérstakt. Þá er ótalið það að ekkert aukalag var tekið, stór galli sem þær ættu að athuga.

Þær klæddust svo sem alveg siðsamlega, en ég ætla mér sem minnst að fara út í fatamálin þar sem að ég þekki ekkert inn í þennan heim kvennfatanna. Heidi var í vel flegnum svörtum jakka og sást vel í svartan brjóstahaldarann. Svipuð föt og hún klæðist í In The Middle myndbandinu. Hinar voru í gallabuxum og einhverjum toppum.

Nýjar hljóðgræjur áttu að hafa verið keyptar og vígðar á þessum tónleikum. Eru þær víst einhverjar þær fullkomnustu hljóðgræjur sem völ er á. Eitthvað þurfa samt menn að læra betur á þær því að einstaka sinnum kom svona leiðinda ískur auk þess sem míkrafónn Keisha datt út í smá stund. Hins vegar var hljóðið mjög gott þegar allt var í lagi en ég vil fá það hærra stillt þegar að næsta rokkband á eftir að notast við það. Ég hafði reyndar fregnir af því að fólk sem sat í stúkunni hefði verið sátt með hljóðið sem átti víst að hafa borist vel upp í stúku.

Troðningurinn var gríðarlegur og hef ég sjaldan séð jafn marga vera togaða yfir girðinguna sem heldur áhorfendum frá sviðinu. Á móti kemur þó að þetta voru mest all smástelpur sem hafa ekki þolað súrefnisskortinn sem varð. Gæslumenn stóðu sig nokkuð vel í sínu starfi sýndist mér. Furðulegt þótti mér samt að sjá allar þessar litlu stelpur, sumar varla eldri en 8 ára troðast í gegnum þvöguna til þess eins að komast sem næst sviðinu. Þær voru svo litlar að þær sáu margar ekki neitt, en viljinn var til staðar. Vekur mig samt til umhugsunar um hvar foreldrarnir hafi verið.

<b>Eftir tónleika</b>
Eftir tónleikana fór einhver hluti áhorfenda bak við til að reyna að næla sér í eiginhandaráritun eða jafnvel ná mynd af stúlkunum þremur. Þær voru hins vegar á bak og burt og það eina „merkilega sem sást“ var bandið sem spilaði undir. Fréttist að þær hefði farið upp á hótel og settist ég því upp í bíl stefnid á Nordica hótel. Ekkert sást til þeirra þar en nokkrir einstaklingar höfði ákveðið að bíða þar til þess að sjá hvort að þær væru þar. Sá ég strax að þetta var ekki hótelið sem þær dvöldust á og því kom aðeins eitt til greina, að bruna upp á Hótel Sögu. Þar stóðu fyrir utan BMW 745 Li, Range Rover Vogue og VW Tourang. Ég var á rétta staðnum og settist á bekk og beið átekta. Síðar kom Mutya út og fékk ég þar eiginhandaráritun fyrir frænku mína (nei þó ég sé fan er ég ekki að safna eiginhandaráritunum). Náði ég aðeins að spjalla við hana og var hún hress á leið í partý en hinar tvær voru farnar að sofa. Hélt ég því heim á leið sáttur eftir fínasta kvöld.

<b>Niðurstaða</b>
Fínir tónleikar, heldur stuttir (1 klst. og 15 mín.) en að mestu leyti lausir við tilgerð. Ég held að meginþorri áhorfenda hafi fengið það sem þeir óskuðu eftir.
En maður hlýtur loks að spurja sig koma þær aftur til Íslands til þess að halda tónleika? Ég held því miður að svarið sé nei, ekki vegna áhugaleysis þeirra heldur vegna þeirrar staðreyndar að miðasala gekk illa og því sjái fáir sér leik á borði til þess að græða á þessu.