Jæja gott fólk, nú ætla ég að skrifa um eina snilldar skífu sem ég keypti loksins um daginn—kominn tími til! Diskurinn heitir OFF THE WALL, og flytjandinn er enginn annar en Konungur Poppsins (“einu sinni konungur, alltaf konungur…”), MICHAEL JACKSON.


OFF THE WALL kom út árið 1979. Þá var Michael 21 árs, og þetta var fyrsta alvöru (“fullorðins”) sólóplatan hans.

Eins og flestir vita þá hafði Michael Jackson gert garðinn frægan með bræðrum sínum í The Jackson 5. Þeir slógu rækilega í gegn árið 1970 þegar Michael var aðeins 12 ára.

Eins og sumir vita kannski líka þá voru þeir á mála hjá plötuútgáfunni frægu Motown Records. Þar á bæ voru menn ekki hrifnir af því að leyfa artistunum að leika lausum hala tónlistarlega séð—lagahöfundar og pródúsentar fyrirtækisins sáu um alla listræna stjórn. (Upp úr 1970 fengu reyndar tveir menn undantekningu frá þeirri reglu—Marvin Gaye og Stevie Wonder.)

Um 1975 voru vinsældir Jackson 5 aðeins farnar að dala, og þá var líka farið að lengja eftir meiri stjórn á því sem þeir gerðu. Þeir ákváðu því að skipta um plötufyrirtæki og skiptu yfir til Epic Records, þá undir nafninu The Jacksons og án elsta bróðursins Jermaine.

Eftir þessi umskipti fór að gæta aukins sköpunarkrafts hjá strákunum, og þá sérstaklega Michael (hann var nú undrabarnið í fjölskyldunni eins og hafði verið augljóst frá upphafi).

Fyrsti hápunkturinn kom 1978 með plötunni DESTINY, sem var öll samin og pródúseruð af Jackson-bræðrunum. Þetta var eðal plata sem innihélt danssmelli á borð við “Blame It On The Boogie” og “Shake Your Body (Down To The Ground)”, sem og næmari lagasmíðar eins og “Push Me Away”, “Destiny” og “That’s What You Get For Being Polite”.

Þegar hér var komið sögu var Michael orðinn tvítugur og vildi fara að gerast sjálfstæðari. 1978 tók hann þátt í kvikmyndinni “The Wiz”, sem var svona black útgáfa af “The Wizard Of Oz” þar sem Michael lék fuglahræðuna. Tónlistarstjórn myndarinnar var í höndum hins gamalreynda og fræga pródúsents Quincy Jones.

Eftir að kvikmyndavinnunni lauk ákvað Michael að nú væri kominn tími til að gera sólóplötu. Hann fór að spá hvern hann ætti að fá til að vinna hana með sér, og spurði Quincy Jones hvort hann vissi um einhvern? Jú, “Q” var sjálfur meira en til í að taka að sér þetta verkefni.

Það var strax hafist handa við að afla efnis á plötuna. Michael skrifaði sjálfur þrjú lög, eitt þeirra með öðrum. Quincy fékk til liðs við þá breska tónlistarmanninn Rod Temperton úr hljómsveitinni Heatwave, og bað hann að skrifa nokkur lög. Svo kom Stevie Wonder með eitt lag, eitt var eftir Paul McCartney, plús tvö eftir aðra höfunda.

Tónlistarmennirnir sem Q réði til að spila á plötunni voru svo margir af topp stúdíómúsíköntum Los Angeles, þar sem upptökurnar fóru fram.

Þetta allt saman auk eðal upptökustjórnar Quincys og auka útsetningavinnu góðra manna varð til þess að útkoman gat ekki orðið annað en snilld!



1. DON’T STOP ‘TIL YOU GET ENOUGH
Lagið sem kickar off plötuna svona glæsilega er eftir Michael sjálfan. Byrjunin er ógleymanleg: synth-bassalínandum… dum, du-dum, du dum dum, du-dum…. hristiegg gefur ryþmann… Síðan byrjar Michael að tala… lágt… hálf hvíslar með sinni feimnislegu rödd, þar til hann bara getur ekki hamið sig lengur, sæluóp brýst út og óstöðvandi groovið startar af fullum krafti!
Myndbandið við “Don’t Stop” er líka skemmtilegt, Michael er skælbrosandi og ræður sér varla fyrir spenningi og kæti, síðan fjölgar hann sér og allt er fullt af syngjandi og dansandi Michaelum!
THRILLER-MOMENT: 1) Byrjunin—“You know, I was… I was wondering, you know… if… if we could keep on, because… the force, it… it’s got a lot of power, you know… it make me feel like, uh… it…. make me feel like……..OOOOOOOOOOOH!!”
2) 05:30—Öll hljóðfærin byrja smám saman að feida út, blásararnir, strengirnir, bassinn, trommurnar…. þar til bara eru eftir funky gítarlína, slagverkið sem heldur uppi ryþmanum ómótstæðilega, og söngurinn sem endurtekur: “Keep on with the force, don’t stop, don’t stop ‘til you get enough, keep on….” SWEEET!
10/10

2. ROCK WITH YOU
Eitt af lögunum sem Rod Temperton skrifaði fyrir Michael, og það langbesta. Hann spurði Mike og Q reyndar hvaða eitt af lögunum þremur þeir vildu setja á plötuna, og þeir ákváðu bara að nota þau öll!
Þetta er gullfalleg, rómantísk diskó-ballaða á miðlungs hraða. Michael syngur af einstakri tilfinningu. Þetta er svo mikið feelgood lag að maður gæti hreinlega haft það á repeat hálft kvöldið (ég hef gert það)!
“You gotta feel that heat/And we gonna ride the boogie/Share that beat of love…. I wanna rock with you, all night/Dance you into day…”
THRILLER-MOMENT: 02:50—“I wanna ROOOOOOOOOOOOOOOOOOOOOOOOOOOOOOOOOOOCK with yoouu, GIIIIIRRL….” PERFECT! Eyrnakonfekt.
10/10

3. WORKIN’ DAY AND NIGHT
Þetta er annað af eigin lögum Michaels. Það byrjar með heitum ryþma framkölluðum af hristi- og ásláttartólum ásamt rödd Michaels, sem kemur með ryþmísk öndunarhljóð og “do-dah-dodo-do-dah”-hljóð… mjög flott!! (Þetta hefur hann notað oftar en einu sinni.)
Þetta er mjög flott og funky lag. Frábær blásaraútsetning sem minnir mjög á blásarana í “Bad” og “Smooth Criminal”.
THRILLER-MOMENT: 02:42-03:12—blásararnir. Annars ekki mikið sem stendur upp úr, bara overall cool lag og mjög flottur taktur auðvitað.
8/10

4. GET ON THE FLOOR
Þetta er GEÐVEIKT LAG!! Super hot & funky eðal diskó, ekkert minna! Michael skrifaði það með bassaleikaranum frábæra Louis Johnson, sem spilaði á mestallri plötunni.
Trommurnar, bassinn - ryþminn allur er ótrúlegur í þessu lagi, og söngur Michaels er seiðmagnaður! Innlifunin er algjör…. Hér notar hann aftur ryþmísk raddhljóð á ólýsanlega flottan hátt.
THRILLER-MOMENT: 02:50-03:44—Trommu- og bongo-break, svo kemur Michael inn með raddhljóð og fer svo að þylja, spýtir orðunum út úr sér eins og hann sé að fara með kynngimagnaða galdraþulu, og spennan stigmagnast: “Get up, wontcha g’on down, shake your body wontcha g’on get down! Get up, wontcha g’on down, shake your body wontcha g’on get down! Get up, wontcha g’on down, shake your body wontcha g’on get down”—og svo losnar spennan: “Get on the floor….” Michael að fíla þetta alveg í botn og það heyrist sko! Sjúklega flott! AARRGH!
11/10!

5. OFF THE WALL
Annað eftir Rod Temperton. Titillagið. Rod segir í viðtali í endann á disknum að hann hafi skrifað þessi lög með söngstíl Jacksons í huga, stuttir ryþmískir frasar í laglínunum. Kemur vel út. Fínt lag, smooth diskó-fílingur, góð melódía, góð útsetning. Samt ekkert sem stendur sérstaklega uppúr.
6/10

6. GIRLFRIEND
Paul McCartney skrifaði Girlfriend með það í huga að Michael myndi kannski vilja covera það, sem varð úr. Þetta er alveg týpískt McCartney popplag, skemmtileg melodía, hálf silly… samt allt í lagi að fá eitt léttara lag í miðri plötunni.
4/10

7. SHE’S OUT OF MY LIFE
Þetta er undurfalleg, ljúfsár ballaða með tilfinningaþrungnum texta um það að stelpa sem hann var ástfanginn af er horfin úr lífi hans, og hann hafði aldrei tjáð henni ást sína eins og hann vildi að hann hefði gert, og nú er það um seinan… tilfinningin er eins og hnífsstunga í hjartað.
Michael syngur lagið af einstakri næmni… Í lok disksins segir Quincy Jones frá því að þegar þeir voru að taka það upp, þá hafi Michael alltaf verið farinn að gráta þegar kom að lokum lagsins. Q lét hann gera einhverjar tíu tilraunir án árangurs, þannig að hann sagði bara, “OK, þetta á greinilega að vera svona, látum það vera”. Og það er rétt, í endann á laginu heyrist greinilega að Michael er orðinn klökkur, og síðustu tónarnir koma frekar ámátlega út… Q segir líka að hann hafi eiginlega ekki alveg skilið hvað Michael lifði sig vel inn í lagið, þar sem hann hafði að hans viti aldrei verið í svona þroskuðu ástarsambandi…
THRILLER-MOMENT: 02:57-03:35—sjá að ofan. Þetta er svo hjartnæmt að maður verður annaðhvort sjálfur að fella nokkur tár, eða þá brosa góðlátlega að elsku tilfinninganæma drengnum… : )
8/10

8. I CAN’T HELP IT
Þetta skrifaði Stevie Wonder fyrir fyrrum Motown-félaga sinn, og það heyrist vel. Laglínan er mjög góð, sérstök og grípandi, týpísk fyrir Stevie. Afslappað og þægilegt.
8/10

9. IT’S THE FALLING IN LOVE
Söngkonan Patti Austin syngur með Michael á köflum í þessu fína létta popplagi. Góður fílingur í þessu, sérstaklega er textinn í viðlaginu flottur: “It’s the falling in love that’s making me high/It’s the being in love that makes me cry, cry, cry…”
7/10

10. BURN THIS DISCO OUT
Þriðja Rod Temperton-lagið. Ágætis lag, ekki stórkostlegt, en samt nokkuð flott. Hentar vel sem lokalag plötunnar.
6/10


Á SPECIAL EDITION-útgáfunni frá 2001 tekur hér við smá aukaefni: Demó-upptökur af “Don’t Stop ‘Til You Get Enough” og “Workin’ Day And Night”, ásamt viðtölum við Quincy Jones og Rod Temperton.
Demóin eru skemmtileg, Janet og Randy systkini Michaels spila á ásláttarhljóðfæri með Michael, og það skín í gegn sköpunarkrafturinn, metnaðurinn og hin einskæra gleði sem gegnsýrði vinnuna við OFF THE WALL.
Viðtölin eru fróðleg og gefa smá meiri innsýn í vinnslu plötunnar og andrúmsloftið kringum hana.

HEILDAREINKUNN: 9/10



OFF THE WALL er af flestum talin þéttasta plata Michaels. Hvort hún er hinsvegar sú besta er álitamál og hreint smekksatriði.

Ég persónulega er sammála fyrra atriðinu, allar plöturnar sem hann hefur gert síðan hafa verið ójafnari í gæðum. En um leið er OFF THE WALL sú einsleitasta þeirra allra. Ég hef ekki þekkt hana nógu lengi til að ákveða hvort hún á eftir að vera uppáhalds Jackson-platan mín. Í augnablikinu er ég yfir mig hrifinn, enda nýbúinn að uppgötva hana og ennþá að kynnast henni.

Á eftir OFF THE WALL kom svo út önnur Jacksons-plata, VICTORY. En síðan tók við næsta sólóverkefni—og Michael var búinn að ákveða að það ætti að verða söluhæsta plata allra tíma………….






The Soulman