In The Zone – Britney Spears Poppgellan Britney Spears var að gefa út fjórðu plötu sína “In The Zone” á mánudaginn eða rúmlega 2 árum eftir að hún gaf út plötuna “Britney”. Þessi plata er með nýjum og skemmtilegum hljómum og einnig sýnir Britney líka nýjar hliðar á röddinni sinni. Flestir hefðu ekki trúað því að Britney Spears myndi gefa út fjórar plötur eða meira en gagnrýnendur töldu á sínum tíma að hún myndi ekki lifa af í bransanum nógu lengi til þess að gefa út fleiri en tvær plötur. En maður er ekkert svo hissa að þeir hafi rangt fyrir sér enda hefur þessum dómi verið skellt á flesta poppara í gegnum tíðina, t.d. Madonnu, Janet Jackson og Backstreet Boys. Nú mun ég fjalla um hvert lag fyrir sig…

Me Against The Music – 4 stjörnur (af 5 mögulegum).

Þetta lag er mjög ólíkt þeim lögum sem að Britney hefur verið að gefa út í gegnum tíðina. Lagið sjálft er með ferskum tóni og einnig syngur hún það á mjög sérstakan og öðruvísi hátt. Ekki má líka gleyma því að vinkona hennar Madonna aðstoðaði hana við lagið, en þó hún geri það ekki endilega betra þá er samt gaman að heyra þær syngja saman. Lagið fjallar um að Britney sé að “berjast” við tónlistina, og haldi áfram að reyna að bæta sig á fullu á meðan hún dansar við lagið. Texti: B. Spears, Madonna og fleiri. Lag: Trixter (Redzone).

(I Got That) Boom Boom – 3 ½ stjörnur.

Þetta er líklega mesta “hip hop” lag sem að Britney hefur gert enda syngja “Ying Yang Twins” lagið með henni. Tónninn er ágætur og öðruvísi og röddin á Britney er skemmtileg og kynþokkafull, en mér persónulega finnst að “Ying Yang Twins” eigi ekki að syngja jafn stóran hluta lagsins og þeir gera, þeir eru alveg með helminginn af laginu og ég hefði frekar vilja sjá það vera svona 1/3 af því. Þetta lag á möguleika á að verða mjög vinsælt enda myndu bæði hip hop og popp rásir spila þetta lag, næturklúbbar myndu líka spila það mikið. Texti og lag: R. Hamilton, C. Royal og fleiri.

Showdown – 2 ½ stjörnur.

Þetta lag er mjög mikið “bland í poka”. Það er eins og það sé tekið popp, R&B og rokk og blandað því í hrærivél í einhverjum tölvuheimi. Tóninn er ágætur og mjög öðruvísi, en þó hefði Britney mátt syngja það betur enda er röddin bara mjög venjulega og ekkert til þess að hrópa húrra fyrir. Lagið fjallar um samband Britney við einhvern af hinu kyninu, eins og hún sé smá að stríða honum. Texti: B. Spears, C. Dennis og fleiri. Lag: Bloodshy & Avant.

Breathe On Me – 4 1/2 stjörnur

Þetta lag er einfaldlega hrein snilld að mínu mati og uppáhalds lagið mitt af plötunni ásamt Shadow. Britney færist nær Evrópu með því að gera þetta lag enda er þetta týpískt lag sem að yrði gríðarlega vinsælt í Evrópskum næturklúbbum, svona popp/dans lag. Minnir mann smá á Kylie lög enda ef ég man rétt er hefur lagahöfundurinn unnið með Kylie áður. Lagið fjallar eiginlega um forleik, eða að hann (eða hún ? hmm) þarf ekki að snerta hana, heldur bara anda á hana. Bæði tónninn og röddin hennar Britney eru frábær og passa mjög vel saman. Texti: S. Lee , S. Anderson og fleiri. Lag: Mark Taylor.

Early Mornin’ – 2 1/2 stjörnur

Þetta lag er ekkert sérstakt að mínu mati. Tónninn er jú öðruvísi og alveg skemmtilegur en röddin hennar Britney og textinn mættu vera betri. Annars fjallar lagið um hvernig kvöldið áður hafi verið… Orðið full, dansað, reynt við strák, misst meðvitund og svo vaknað “Early morning” og byrjað að syngja um það. Texti: B. Spears, Moby og fleiri. Lag: Moby.

Toxic – 3 stjörnur

Ég var ekki alveg að fíla þetta lag fyrst en eftir að hafa hlustað á það nokkur skipti byrjaði ég að fíla það aðeins meira. Eiginlega eins og að lagið sé bland af týpísku Bandarísku poppi og lagi frá miðausturlöndum, syngur það ágætlega. En það fjallar um “Toxic guy” sem að Britney lýsir eins og fíkniefni, eða hann gerir hana háða honum og fer með hana í annan heim. Texti: C. Dennis, C. Karlsson og fleiri: Lag: Bloodshy & Avant.

Outrageous – 4 stjörnur.

Þetta er mjög skemmtilegt hressandi lag og Britney syngur það frekar vel. Eins og Toxic er smá miðausturlanda fílingur í því en samt aðeins meiri popp hljómur í því og kannski smá R&B. Fjallar um að fólk sé alltaf að hneykslast yfir því sem hún gerir, hvort sem hún sé að djamma, versla eða að dansa að þá er alltaf einhver að gagnrýna hana. Og segir að fólk sem að veit ekkert um hana eigi ekki að dæma hana. Lag og texti: R. Kelly og fleiri.

Touch Of My Hand – 4 stjörnur

Þetta er mjög gott lag og röddin hennar Britney er mjög flott í laginu, tæknibrellurnar á plötunni eru líka bestar í þessu lagi. Það er eins og þetta lag sé bland af asískum hljómi og poppi, og það er eins og maður ferðist í annan heim með því að hlusta á þetta lag. Það fjallar um að það sé alveg jafn sjálfsagt að stelpur frói sér eins og strákar, að hún elski sjálfa sig og skammist sín ekkert fyrir þessa athöfn. Góð skilaboð enda er allt of algengt að stelpur skammist sín fyrir sjálfsfróun þó það sé að lagast. Texti: B. Spears, J. Harry og fleiri. Lag: J. Harry, S. Solomon.

The Hook Up – 3 stjörnur.

Eins og Showdown þá er þetta smá blanda af R&B, rokki og poppi. En samt ekki jafn “tölvulegt” lag. Ágætur tónn og vel sungið lag. Fjallar um að Britney sé á djamminu og “hookar upp” með einhverjum á dansgólfinu sem henni líkar vel við. Texti: B. Spears, C “Tricky” Steward of fleiri. Lag: Trixter (Redzone).

Shadow – 4 1/2 stjörnur.

Þetta er eitt af tveimur rólegu lögum á plötunni, og eitt af mínum uppáhalds Britney lögum. Rólegur tónn en samt smá rokk hljómur í því, og Britney syngur það mjög vel og þá sérstaklega í endanum á laginu. Allir sem að telja að Britney geti ekki sungið ættu að prófa að hlusta á þetta lag. Fjallar um að hún sjái bara skuggann af ástinni sinni en ekki hann sjálfan, og að hún horfi á hann hverfa. Texti: B. Spears, L. Christy og fleiri. Lag: The Matrix.

Brave New Girl – 3 stjörnur.

Mjög skemmtileg blanda af týpísku píkupoppi og R&B lagi. Tónninn er ferskur og skemmtilegur og hún syngur það bara ágætlega. Lagið fjallar um stelpu sem að er orðin leið á því að vera þæg stelpa. Hún er hugrökk og ákveður að fara út í heiminn og finna það sem henni langar í. Texti: B. Spears, B. Kierulf og fleiri. Lag: Brian & Josh (KNS).

Everytime – 3 stjörnur.

Ég heyrði þetta lag í fyrsta skipti þegar hún söng það fyrir SNL sjónvarpsþáttinn. Ég féll rosalega fyrir því og hugsaði að þetta væri besta lag sem hún hefði gert, og því er ég smá vonsvikinn enda er þetta lag ekki nálægt því að vera jafn gott á plötunni og það er live. Tekið öll bestu atriðin úr því og tölvubreytt því of mikið miða við að vera svona rólegt lag. Annars þá syngur hún ágætlega og tóninn er mjög tilfinningalegur og skemmtilegur, þarf bara að vera meira náttúrulegra. Hefði gefið því 4 ½ stjörnur ef það hefði verið eins og SNL útgáfan. Lagið fjallar um hversu mikið hún saknar elskhuga síns og að hún geti ekki verið án hans. Texti: B. Spears og A. Stamatelatos. Lag: Guy Sigsworth.

Me Against The Music (Rishi Rich’s Desi Kulcha Mix) – 3 stjörnur.

Allt í lagi remix af þessu góða lagi en ég fíla upprunalega lagið betur.

The Answer (bónuslag fyrir Evrópu) – 3 stjörnur.

Er ekki alveg að fíla hljóminn á þessu lagi nógu vel en það bætir upp að Britney syngur það vel í köflum, frekar rólegt popp/R&B lag og hefði kannski mátt vera aðeins hressara. Lagið fjallar um að hún sé búinn að finna einhvern sem að er “The Answer” fyrir því sem henni vantar. Texti: R. Leslie og P.Diddy. Lag: P. Diddy.

Að lokum vil ég bara segja að þetta er fín, vönduð og skemmtileg plata að mestu leiti og gef ég henni 4 stjörnur og sé alls ekki eftir því að hafa fjárfest í henni. Mæli með henni fyrir alla þá sem að fíla skemmtilega popp tónlist, og ef þið eigið ekki pening eða eruð nísk þá er auðvitað hægt að setja hana á jólalistann enda er bara rúmlega mánuður í jólin.

P.s. Hef heyrt að (I got that) Boom Boom, Breathe On Me og Touch Of My Hand verði næstu smáskífur/myndbönd hennar. Og ég er bara mjög sáttur við það.