Aaliyah Aaliyah – IN MEMORIAN
Söngkonan Aaliyah
Nafn hennar merkir á swahili „hin öfluga“, og hún bar nafn með rentu er litið var til árangurs hennar í tónlistarheiminum. Hún var ein frægasta R&B söngkona heims.
Aaliyah fæddist þann 16. janúar 1979 í New York en ólst upp í Detroitborg í Michiganríki í Bandaríkjunum. Um miðjan tíunda áratuginn var hún strax farin að vekja athygli sem hluti af hinni nýju tónlistarstefnu sem var í mótun. Tónlistarmaðurinn velþekkti R.Kelly tók stúlkuna upp á arma sína og til hans, á heimili hans í Chicago, flaug hún alltaf annað veifið meðan hún var að klára nám sitt í Detroit High School of the Performing Arts. Þrátt fyrir miklar annir fékk hún alltaf hæstu einkunn í öllum fögum og gætti þess vel að láta skólann ganga fyrir skemmtana-
iðnaðinum. Árið 1994 gaf Aaliyah út geisladiskinn „Age Ain’t Nothing But A Number“ og skaust lengst upp á stjörnuhimininn á einni nóttu. Tvö laganna af plötunni komust í topp 10 sæti á Bandaríska listanum en það voru lögin „Back & Forth“ og „At Your Best (You Are Love)“. Einkalíf hennar varð allt í einu á allra vörum, en þar bar hæst samband hennar við söngvarann R.Kelly, sem var ekki eingöngu á faglegum nótum. Á forsíðum hvarvetna um heiminn var sambandi þeirra slegið upp, enda 12 ára aldursmunur á þeim, R.Kelly þá 27 ára og Aaliyah 15 ára og þrátt fyrir mikla þrautseigju, hjónabandsvottorð sem birt var í tímaritinu „Vibe“ og þrusuplötu með tveimur topplögum gafst Aaliyah að lokum upp og lét lítið fyrir sér fara. „Þetta var sársaukafullur tími fyrir mig og fjölskyldu mína, en ég komst í gegnum þetta.“ sagði Aaliyah í viðtali. „Þess vegna er ég stolt af því að segja að ég sé sterk manneskja. Ég þraukaði þetta og get því ráðið við allt. Ég er alveg viss um það. Ég kem frá sterkri fjölskyldu sem er alltaf til staðar til að vernda mig. Ef mig vantar hjálp þá hringi ég bara í mömmu, pabba eða bróður minn, en við erum mjög náin.“
Eftir að hafa gifst og skilið við R.Kelly gaf hún út aðra plötu árið 1996 sem ber nafnið „One In A Million“, sem hún vann að með „pródúsernum“ Timbaland, sem er mjög eftirsóttur. Þá hafði hún öðlast sjálfstraust að nýju og aðra framkomu eins og Dionne St.Hill segir frá: „Hin næstum pínlega feimna unga dama sem ávann sér frægð fyrir tveimur árum hefur myndbreyst í glæsilega konu sem er fær í flestan sjó. Þegar ég hitti hana fyrst var það líkast því að taka viðtal við mús. 15 ára stelpan leit út fyrir að vera allavega tveimur árum yngri, sem gaf þeim orðrómi, að hún væri í rauninni bara 13 ára, byr undir báða vængi. R.Kelly spurningar voru bannaðar og hvert orð sem Aaliyah muldraði út úr sér var vel ritskoðað af risastórum lífverði, föður hennar og vinkonu hennar, sem neitaði að víkja frá hlið hennar. Aaliyuh virtist ekki líka hin skjóti frami mjög vel og orð hennar voru varla meir en hvískur. Skemmtileg, orkumikil og hláturmild hefur Aaliyah nú jafnað sig á skrekknum og svarar nú spurningum um R.Kelly og líf sitt full sjálfsöryggis.“
Aaliyah skilgreindi nýju plötuna sína sem frelsisyfirlýsingu. „Þegar ég var að gera fyrstu plötuna mína var ég meira að halda mér utan við hluti og bara skoða hvað var að gerast. Á þessari plötu nota ég það sem ég hef lært og tek stjórnina. Maður gæti sagt það vera frelsandi reynslu. Aalyah var harður talsmaður menntunar og gekk um tíma á milli skóla í London til að hvetja krakkana til að mennta sig vel og undirstrika hve mikilvæg góð menntun er. Fjöldi smástirna á táningsaldri gefa það í skyn að það sé töff að hætta í skóla, ráða einkakennara og reyna að „meika það feitt“ í tónlistarheiminum. Aaliyah sagði það vera undantekningu frekar en reglu. „Ég veit að ég er heppin og þess vegna er ég að segja krökkunum að setja skólann í fyrsta sæti.“
Aaliyah var ekki bara söngkona. Hún hafði mikinn áhuga á leiklist, og hafði þá skoðun að jafnvel þeir sem hefðu mikla hæfileika yrðu að æfa þá. Eins og sú dæmigerða steingeit sem hún var sagði hún: Ég held að fólk líti oft framhjá þeirri staðreynd að æfing er mikilvæg. Ég meina, mér finnst ég heppin að hafa þá kenningu. Ég er enn í söngtímum, ég dansa og ég er í leiklistartímum. Það hjálpar þegar fram í sækir.“
Á meðan enn eitt lag frá henni komst á vinsælda-lista árið 1998, „Are You That Somebody?“ og hljómaði á öldum ljósvakans í útvarpi og sjónvarpi fór hún í prufu fyrir Broadway útfærslu Elton Johns á óperu Puccinis „Aida“, og komst í þriggja manna útslátt fyrir aðalhlutverkið. Sú staðreynd að hún fékk ekki hlutverkið gæti hafa verið lán í óláni. Hún einbeitti sér að því að bæta leik sinn á meðan Diane, móðir hennar, yfirfór kvikmyndahandrit í leit að heppilegu hlutverki fyrir dóttur sína. Hún tók sérstaklega eftir hinni sterku og kvenlegu aðalpersónu í myndinni „Romeo Must Die“ og það leið ekki á löngu þar til þær voru komnar til Hollywood þar sem Aaliyah fór létt með að landa hlutverkinu.
„Romeo Must Die“ sló í gegn og annað lag með Aaliyuh í kjölfarið, lagið „Try Again“, sem varð einmitt einstaklega vinsælt hér á landi sumarið 2000. Það lag fór á topp bandaríska vinsældalistans í júní 2000. Þótt Aaliyah hafi vaðið í karlkyns aðdáendum hvert sem hún fór lét hún lítið uppi um ástarlíf sitt. „Aaliyah er einhleyp í augnablikinu. „Starfsferill minn og skólinn taka mikinn tíma. Ég myndi ekki segja að ég væri að leita að neinum sérstökum og ég verð svo sannarlega aldrei einmana. Ég er umkringd fólki sem þykir vænt um mig og elskar mig. Ég er ung svo ég er ekki beinlínis að einbeita mér að því að eiga í nánum samböndum. Ég held það komi bara þegar það á að koma“.
Þann 23. ágúst síðastliðinn flaug Aaliyah til Bahamaeyja til að taka upp nýtt myndband. Á laugardeginum, þegar tökur voru búnar, var áætlað að halda af stað til Miami. Flugvallarstarfsmaður sem sá um að ferja vélina varaði flugmanninn við því að fara á loft, þar eð vélin væri ofhlaðin og það væri ekki öruggt. Vélin brotlenti, aðeins nokkrum mínútum eftir að hafa farið á loft. Aaliyah, sem átti að baki sér tvö Grammy verðlaun, platínum-söluplötu og mörg góð kvikmyndahlutverk lést samstundis. Fimm aðrir dóu líka um borð og þrír til viðbótar dóu síðar af sárum sínum.
Aaliyuh verður sárt saknað sem söngkonu í tónlistarheiminum, en hennar verður líka minnst sem sterkrar, gáfaðar og hæfileikaríkrar konu sem skaust upp á stjörnuhimininn - og hélst þar.

A.T.H. þetta er EKKI copy/paste.

Heimildir: Smellur,Extra blaðið og Aaliyahicare4u.com