Samfésball Samfésball í Kaplakrika

Samfésballið verður öðru sinni í Kaplakrikanum föstudaginn 7. mars, boðið verður upp á fremstu skemmtikrafta landsins.

Meðal hljómsveita og skemmtikrafta verða Sálin Hans Jóns Míns, Írafár, Í Svörtum Fötum, Sign, Ber, Igore, Bæjarins Bestu og Búdrýingdi. Auk þess verða sigurvegarar Rímnaflæðis og söngkeppninnar.

Kynnir verður Villi úr 200.000 Naglbítum og sjónvarpsþættinum At.

Miðaverð er kr. 1400. Miðasala fer eingöngu fram í félagsmiðstöðvum.


Það var árið 1991 sem Samfésballið var haldið í fyrsta skipti í Hinu húsinu þegar það var staðsett í gamla Þórscafe í Brautarholti, en þar var skemmtunin til húsa næstu þrjú árin. Ballið var með öðru sniði þá en það er í dag, enda bauð húsnæði Hins hússins uppá annað fyrirkomulag. Hljómsveit spilaði í aðal sal hússins og plötusnúðar þeyttu skífum í öðrum. Um það bil fjögur til fimmhundruð krakkar sóttu skemmtunina á þessum árum og var það mikið keppnismál að næla sér í miða.
Ákveðið var að halda ballið í Reiðhöllinni í Víðidal árið 1995 til að sinna eftirspurn. Hafði Reiðhöllin nokkrum sinnum verið notuð til tónleikahalds við góðar undirtektir, en unglingarnir tóku þessum breytingum ekki nógu og vel og skemmtunin var algerlega misheppnuð. Rýmið var of stórt. Þegar í stað var ákveðið að halda ballið í öðru húsnæði að ári liðnu. Íþróttahúsið við Strandgötu í Hafnarfirði varð fyrir valinu.
Árin 1996 til 2001 var Samfésballið haldið í Strandgötunni og myndaðist á þessum árum hefð fyrir að halda ballið þar. Félagsmiðstöðvar í Hafnarfirði hafa komið verulega að skipulagningu ballsins en það hefur verið í þeirra höndum að halda m.a. utan um gæslumálin. Í Strandgötunni stækkaði Samfésballið jafnt og þétt, eða frá því að 900 unglingar mættu árið 1996 og þar til að húsið sprengdi allt utan af sér árið 2001, en þá voru 1700 manns í húsinu. Enn náðist ekki að sinna eftirspurn og ballið var flutt um setur enn eina ferðina.
Nú síðast árið 2002 var ballið haldið í Kaplakrikanum í Hafnarfirði og hefur það aldrei verið jafn fjölmennt, en um 3100 unglingar og starfsmenn voru þar saman komnir. Fjöldi hljómlistarmanna steig á stokk, en slegist er um það meðal hljómsveita að spila á Samfésballinu og má líkja því við tónleika, þar sem svo margir listamenn koma fram. Fremstu hljómsveitir landsins sjá sér mikinn hag í því að koma frá á Samfésballinu því þar gefst þeim einstakt tækifæri á því að kynna sig og sína tónlist fyrir stórum hóp unglinga af öllu landi.

Heimildir: www.samfes.is