Hljómsveitin Land og Synir var stofnuð 1997 á Hvolsvelli af nokkrum Sunnlendingum og eru tveir upprunanlegra meðlima, þeir Hreimur Ö. Heimisson söngvari og Jón Guðfinnsson bassaleikari enn í bandinu.
Hljómsveitin náði þetta sumar að koma sér á tónlilstakortið með laginu Vöðvastæltur sem naut mikilla vinsælda þetta sumar. Upp úr áramótum 1998 urðu svo mannabreytingar í L&S, þeir Birgir Nielsen trommuleikari og Gunnar Þ. Eggertsson, gítarleikari gengu til liðs hana ásamt Dísellu Lárusdóttur sem lék á trompet og hljómborð. En í apríl ´98 fór Dísella að sinna öðrum störfum og Njáll Þórðarson tók við hennar sæti og er núverandi skipan Land og Sona óbreytt síðan þá.
Um haustið það ár kom geisladiskurinn “Alveg eins og þú” út og hlaut frábærar viðtökur, hann hefur selst í yfir 8 þúsund eintökum og 7 lög af þessari plötu rötuðu inn á vinsældalista sem teljast má góður árangur.

Sveitin flokkaðist á þessum tíma og telst enn þann dag í dag til sveitaballahljómsveitar og sendi reglulega frá sér efni til að halda eftirspurninni gangandi. Til að mynda kom 5 laga EP diskur Frelsi út sumarið 1999 í samstarfi við Símann-GSM sem seldist í um 3 þúsund eintökum. Haustið þetta ár kom út annar “stóri” geisladiskurinn “Herbergi 313” og kvað við breyttan tón, horfið var að mestu frá “týpýsku” sveitaballapoppi og metnaðarfyllri tónsmíðar litu dagsins ljós og hróður sveitarinnar jókst til muna.
Meðal annars var “Herbergi 313” í sextugasta sæti yfir bestu plötur aldarinnar (skv. Kosningu á RÁS2). Hluti af vinnunni við diskinn fór fram í Danmörku þar sem unnið var við bestu aðstæður og við það kviknaði áhugi á að geta unnið hlutina alltaf svoleiðis.
Það kostaði bara meiri peninga og þar sem Íslandsmarkaður er frekra smár í sniðum vöknuðu draumar á meðal meðlima að komast á kortið víðar en á Íslandi. Fljótlega eftir þetta var ákveðið að syngja enska texta við lögin sem þá var búið að hljóðrita, til þess að leyfa erlendum útgáfustjórum að hlýða á. Farið var með nokkur lög á ráðstefnur hljómplötuútgefenda en ekkert markvert gerðist.

Svo gerist það um páskana árið 2000 að mikils metinn amerískur framleiðandi (e.producent) að nafni Jive Jones kemur til að vinna með Svölu Björgvinsdóttur söngkonu og ákveðið var að taka á móti honum í Stúdíó Sýrlandi, en þar sem móttökuliðið var ekki nærtækt æxluðust mál þannig að Njáll Þórðarson, hljómborðsleikari L&S sem þá var að vinna í stúdíóinu tók á móti honum. Þeir tóku tal saman og rak Jive augun í nokkrar gullplötur sem voru uppi á veggjum og hló mikið þegar hann sá hversu mörg eintök (5 þúsund) þurfti að selja til að ná slíkri gullplötusölu. Jive var gert grein fyrir stærðarhlutföllum á milli Íslands og Bandaríkjanna og þá minnkaði hláturinn aðeins hjá kananum!
Þegar Jive komst að því að þessi náungi sem hann var að ræða við, væri í bandi sem hefði náð gullsöluplötu vildi hann ólmur fá að hlýða á lögin og úr varð að lögin með enskum textum voru sett yfir geislann. Jive féll kylliflatur fyrir tónsmíðum og útsetningum L&S og sagðist ólmur vilja vinna með hljómsveitinni.
Í ljósi reynslu sinnar úr tónlistarbransanum tóku meðlimir áhuga Jive með stóískri ró því oft höfðu þeir hitt menn sem þóttust vera ofsalega áhugasamir og lofuðu öllu fögru en var svo ekkert mark takandi á. En Jive var mjög ákveðinn og áhugasamur því hann hafði lengi viljað vinna með bandi sem hafði fosögu, reynslu í því að spila saman og síðast en ekki síst að geta samið góð lög. Hann vildi fund hið snarasta með útgáfustjóra Skífunnar, Eiði Arnarsyni.
Hann ákvað svo að framlengja dvöl sína á Íslandi til að vinna með hljómsveitinni og þar sem Land og Synir voru á leið í páskaspilamennsku var Jive bara drifinn með upp í rútu og svo haldið af stað. Jive og Hreimur sömdu í þessari ferð fyrstu 3 lögin sem prýða nú næstu breiðskífu Lands og Sona. Jive fór eftir þennan páskatúr með prufutökur af lögunum 3 sem samin voru undir Snæfellsjökli um liðna páska með sér til Bandaríkjanna og í krafti hans komust Land og Synir í samband við fullt af hákörlum í tónlistarbransanum úti í Bandaríkjunum.

Eftir að Jive fór, tók hljómsveitin uppveðruð af gleði og krafti, upp 5 laga EP disk í Hveragerði sem ber heitið “Njótið vel” og hefur hann selst í um 10 þúsund eintökum í samvinnu við Vífilfell. Á meðan tökum á plötunni stóð bárust fréttir af atorkusemi Jives og var hann búinn að koma málum þannig fyrir að aðilar í útgáfubransanum vildu fá lögin 3, fullkláruð til hlustunar.
Ráðist var í að taka þau upp og þau send út og Jive kom lögunum til þekkts umboðsmanns í Bandaríkjunum, David Sonnenberg sem er m.a. með hljómsveitir eins og 98 Degrees, Meatloaf og The Fugees á sínum snærum en á þessum tíma var 98 Degrees að ná kjölfestu á bandaríska markaðinum og því fór mest öll orka Davids í þá pilta, en hann náði að koma Landi og Sonum í samband við Johanna Ifrah sem var útgáfustjóri hjá Sony/Columbia en var að hætta á þessum tíma en hún sagði drengjunum að hún fengi strax vinnu hjá öðru útgáfufyrirtæki og það sem hún ætlaði fyrst að koma á framfæri væri þeirra hljómsveit.
Þetta var haustið 2000 og lítið markvert var að gerast á þessum tíma, Johanna réði sig ekki strax í vinnu, Jive var á fullu að reyna að ota sínum tota og drengjanna því hann hafði mikilla hagsmuna að gæta sem meðhöfundur (co-writer) flestra laganna sem myndu koma út á næstu plötu og allt var því með kyrrum kjörum. Því ákváðu L&S í samráði við Skífuna í október árið 2000 að Hreimur söngvari ætti drífa sig út til Bandaríkjanna og hitta þessa menn og reyna að kippa í nokkra spotta.
Í þessari heimsókn til “lands tækifæranna” hitti Hreimur nokkra stórkarla í tónlistarbransanum eins og Dave Novak hjá RCA, David Massey yfirmann Sony/Epic og Kathlyn Murphy útgáfustjóra Epic Records og fyrrnefnda Johanna Ifrah og það fynda við þessa fundi var það að Hreimur gerði sér ekki grein fyrir hversu mikilvægt fólk hann var að hitta! Hann mætti bara inn á skrifstofu hjá þeim með sitt opna og viðkunnanlega viðmót, setti lappirnar upp á borð og tók kassagítarinn upp og trallaði lögin fyrir fólkið!!!
Hreimur náði að heilla fólkið með sér en það er spurning hvort hann hefði beitt þessari “íslensku” aðferð hefði hann vitað hversu mikilvægir fundir þetta voru, hann hefði kannski skriðið inn í skelina og orðið feiminn mjög og þá kannski ekki náð eins góðri athygli og raun bar vitni.

Svo gerist það í febrúar 2001 að L&S voru ráðnir til að spila á þorrablóti hjá Íslendingum í Miami og var ákveðið að kíkja við í New York á leiðinni heim og hitta allt þetta bransafólk og leyfa því að hlusta á grófar upptökur af 10 lögum sem höfðu verið tekin upp með Jive í Janúar. Ferðin gekk vonum framar og Johanna réði sig svo til vinnu hjá London/SIRE sem er dótturfyrirtæki AOL/Time/Warner í Bandaríkjunum og gerður var 6 plötu samningur við Land og Syni. Samningurinn er mjög góður og frábær miðað við “fyrsta samning” (erlendis).
Svona ferli tekur langann tíma og óhætt að segja að útlitið sé bjart. Þessu fylgir líka mikill fórnarkostnaður og það þýðir ekki að telja eftir sér aura eða tíma sem hefur farið í þetta verkefni og ef menn hefðu fengið greitt fyrir þá vinnu sem búið er að leggja til núna væru Land og Synir sterkefnaðir fjárhagslega.

Núna nýlega réðu Land og Synir til sín umboðsmenn til að starfa fyrir sig í Bandaríkjunum. Þessir menn hafa mikla reynslu af slíkum málum, sitt í hvoru lagi en þeir sameinuðu krafta sína í þeim tilgangi einum að vinna fyrir L&S.

Mikið hefur verið talað um af hverju Land og Synir hefðu skipt úr því að flytja lögin á íslensku yfir á ensku og oft hefur fylgt því neikvæðnistónn. En ástæðan er einföld, nú þegar búið er að eyða tugum milljóna í verk eins og þessa hljómplötu og margir heimskunnir snillingar úr tónlistabransanum hafa lagt hönd á plóginn er ekki annað hægt en að leyfa Íslendingum að njóta afrakstursins.
Það er mikið nær fyrir Land og Syni að gefa þetta efni út hér í staðin fyrir að setja það ofan í skúffu og taka upp aðra plötu fyrir innlendan markað.
Hljómplatan “Happy Endings” kom út í október 2002.

 

Nú er að hefjast sjötta starfsár Lands og Sona.

Á árinu 2003 er m.a. áætlað að gefa út fjórðu breiðskífuna (þó sjöttu sjálfstæður útgáfuna þ.e. “Njótið vel” og “Frelsi”) ásamt því að fylgja þessu nýja verki eftir, með því að spila um allt land.
PS. Ég var búinn að senda eithvað á korkin um land og syni líka.
www.bit.ly/1ehIm17