Staðfest hefur verið að norður-írska rokksveitin Ash mun hita upp fyrir Coldplay á tónleikum þeirra síðarnefndu í Laugardalshöll 19. desember næstkomandi.

Ash hefur áður leikið á Íslandi, á Broadway, en sveitin kom hingað til lands árið 1995 er lagið “Girl from Mars” tröllreið vinsældalistum. Fyrir stuttu kom út smáskífusafnið Intergalactic Sonic 7“s og hefur það vakið talsverða eftirtekt, enda Ash alltaf verið mikið smáskífuband. Ash hefur verið meðal helstu helstu rokksveita Bretlands síðasta áratuginn. Sveitin hefur gefið út þrjár breiðskífur.

Sala miða hefst mánudaginn 18. nóvember í verslunum Skífunnar. Miðaverð í stæði er 4.400 kr. en í stúku 5.400 kr. og er hámark miða á einstakling 10 stk. Tónleikar Coldplay og Ash verða haldnir í samstarfi við Íslandsbanka, Svarta kortið frá VISA og FM 95,7.

Coldplay lék síðast í fullri Laugardalshöll í ágúst 2001 og hafði Morgunblaðið eftir Chris Martin, söngvara Coldplay, að þeir sveitarmenn geti vart beðið eftir því að leika aftur fyrir íslenska aðdáendur. ”Við hlökkum það mikið til tónleikanna að þið mynduð ekki trúa því. Okkur langaði til að halda jólatónleika á einhverjum sérstökum stað og þar sem flest öll uppáhaldstónlistin okkar kemur frá Íslandi, auk þess sem uppáhaldsfólkið okkar er þaðan, er þetta alveg kjörið. Auk þess eru drykkirnir á Kaffibrennslunni þeir bestu í heiminu!"

Björn Þór - bjorn@internet.is