Nýr eftirlitsbúnaður sem bandaríska alríkislögreglan, FBI, hefur kynnt er að sögn
sérfræðinga í öryggismálum lítið annað en þriggja ára gömul tækni sem tölvuþrjótar beittu
á sínum tíma. Um er að ræða einskonar tölvuveiru eða öllu heldur Trójuhest sem komið er
fyrir í tölvu grunaðra án vitneskju þeirra. Hugbúnaðurinn sendir síðan FBI ýmsar nytsamar
upplýsingar enda skráir hann hvern einasta áslátt á lyklaborðið og þannig fást til dæmis
upplýsingar um lykilorð sem að gagni geta komið.