Samtök kvikmyndaframleiðanda í Ameríku hafa tilkynnt að þau ætli að hefja mál á hendur sex svokölluðum BitTorrent netsíðum fyrir að gera netnotendum kleift að skiptast ólöglega á myndum og sjónvarpsþáttum.

Er þetta í fyrsta skipti sem framleiðendur beina spjótum sínum að þeim sem skiptast á sjónvarpsefni en í fréttatilkynningu frá samtökunum kemur fram að skipti á ólöglegu sjónvarpsefni á Netinu hafi aukist um 150% á einu ári.

BitTorrent-síður virka þannig að þær vísa notendum á efni t.d. tónlist, kvikmyndir eða sjónvarpsþætti sem aðrir notendur hafa sett á Netið. Á meðal síðanna sem lögsótt verður út af eru ShunTV, Zonatracker, Btefnet, Scifi-Classics, CDDVDHeaven og Bragginrights.

mbl.is 13.5.2005