Byrja á því að segja að vonandi kemur fólk með gagnrýni, athugasemdir og hugmyndir að öðruvísi/betri/verri lausnum.

Ég hef verið að velta mikið fyrir mér afhverju ætti að borga fyrir vef, hvað þarf til að fá fólk til að borga og mun það einhverntíman verða raunverulegur kostur fyrir vefsvæði að byrja að rukka fólk fyrir aðgang. Þessar spurningar hafa verið að koma upp vegna þess að ég þekki fólk sem rekur vefsvæði og langar þeim til að láta rukka fyrir aðganginn á vefsvæðinu þeirra. Þetta vefsvæði þeirra er ekki gríðarlega stórt en það er ákveðinn hópur sem kemur þangað, að meðaltali 800 heimsóknir á dag og um 4000 meðlimir, vefsvæðið bíður upp á mikið af upplýsingum og þjónustu fyrir notendur.

Þannig að fyrsta spurningin er; afhverju ætti að borga fyrir vef.
Það er nokkuð góð regla á því hvað fólk hefur alla tíð keypt: vörur, afþreging(t.d. leikir), klám(alveg sér flokkur :) og upplýsingar. Flóknara er það ekki. Spurningin er bara erum við með upplýsingarnar og afþreginguna sem fær fólk til að borga. Við höldum það.

Önnur spurningin er; hvað þarf til að fá fólk til að borga?
Fyrir utan að sjálfsögðu upplýsingar og þjónusta, þá þurfa upplýsingarnar að vera góðar, ýtarlegar og umfram allt réttar. Þjónustan þarf að virka og bjóða upp á marga möguleika. Þannig að það er ekki bara nóg að vera bara með upplýsingar og þjónustu, heldur þurfa þau að vera greiðslunar virði.
  En svo er það greiðslan. Hvað á að greiða fyrir svona svæði. Hægt er að leika sér með tölur, t.d. 300 kr. á mánuði er ekki mikill peningur, u.m.þ.b. 2 pylsur. Við gætum látið árið kosta 3.000 kr, þú færð 2 mánuði fría fyrir að borga fyrir heilt ár. Ég meina fólk er áskrifandi af tímaritum sem koma út 8 sinnum á ári og er að borga 5 þús fyrir það, komum að því seinna. Ef við áætlum að við náum 300 áskrifendum þá fáum við um 900.000 kr. í kassan fyrir árið, þetta gefur okkur að sjálfsögðu aukin möguleika á að borga sérfræðingum til að skrifa greinar á vefsvæðið sem þýðir að gæði vefsvæðisins eykst og við getum auglýst í blöðum, útvarpi og sjónvarpi. Þegar maður auglýsir þá koma fleiri áskrifendur að vefsvæði -> aukinn peningur(þess má geta að þessi vefur auglýsir fyrir 0 kr. í dag).
  Þá kemur upp í hugan, hvað ef maður er að borga fyrir nokkur svæði sem kosta að meðaltali 300 kr. á mánuði, þá er það málshátturinn “margt smátt gerir eitt stórt”, því getur maður verið byrjaður að borga mikla peninga fyrir vefsvæði sem áður voru frí, og maður sjálfsagt getur fundið svörin við spurningum sínum á erlendum fríum vefsvæðum. Þannig að við erum nokkurnvegin að stóla á að notendur okkar séu ekki sérlega góðir í ensku/dönsku/osfrv.(sem er hverfandi hlutur á Íslandi í dag). Reyndar verða alltaf til sér íslenskar upplýsingar sem ekki er hægt að finna á erlendum síðum.
  Minnkum þá greiðsluna, hvað með 500 kr á ári, þá getum við pottþétt búist við fleiri áskrifendum og líkurnar á “margt smátt gerir eitt stórt” stórlega minnka. En getum við búist við 6 sinnum fleiri notendum, en ef verðið væri 3.000 kr. á ári? Veit það ekki.
  Hinsvegar við “hikum” ekki við að kaupa áskrift að Vikunnni(eða hvaða blaði sem er, bara dæmi) til þess að lesa og borgum nokkur þúsund krónur fyrir það, hvers vegna er það? Jú við getum lesið það uppí rúmi eða á klóstinu, við vitum að blaðið er alltaf XX margar blaðsíður, kannski erum við að leita eftir einhverjum ákveðnum dálki, ef okkur leiðist rosalega þá getum við alltaf lesið þetta blessaða tímarit einusinni enn og svo er það líka það að við höfum alltaf þurft að borga fyrir tímarit og því er ekkert sjálfsagðara. Það kostar einnig að prenta hverja blaðsíðu í Tímariti og þannig að kostnaðurinn eykst eftir því sem áskrifendur eru fleiri en það á ekki við um vefsíður.

Að lokum er það; mun það einhverntíman verða raunverulegur kostur fyrir vefsvæði að byrja að rukka fólk fyrir aðgang?
Það fer að sjálfsögðu allt eftir vefsvæðinu, en ég held að það sé tvímælalaust raunverulegur kostur. Reynum að hugsa þetta út frá viðskiptalegu sjónarhorni, ekki bara sem reiðir notendur sem berjumst á móti að borga fyrir vefsvæði(ég er líka í þeim hóp).
  Fyrirtæki eru á markaðnum til að veit þjónustu til notenda og um leið fá sem mesta pening inn við sem hagstæðustu skilyrði, þ.e. að framlegðin sé sem best. Því væri hagstæðast ef vefsvæðið væri að bjóða upp á fjölbreytta þjónustu á einu verði, svipað og maður er að borga 2.000 kr. fyrir 10 rásir á fjölvarpinu en ekki 200 kr. fyrir hverja rás til sitthvorn aðilans í 10 reikningum. Þetta er að mér skilst Viðskiptafræði 101(ég er engin viðskiptamaður né fræðingur), það er ódýrara að reka 10 hluti undir 1 batteríi en 1 hlut undir 1 batteríi. Hvernig væri ef CNet færi að láta notendur sína borga? Þeir bjóða upp á ótrúlegt magn af upplýsingum, fréttir, greinar, “download”, “product review” og margt fleira. Ef þeir mundu rukka 1.000 kr. og þú fengir aðgang að þessu öllu, væri maður til í að borga, veit það ekki.
  Ætti þá kannski margir litlir íslenskir vefir að koma sér saman um greiðsluleið þannig að auglýsingin verði svona “Fyrir 1.500 kr. á mánuði færðu aðgang að 40 vefsvæðum sem innihalda leiki, gagnasöfn, umræðuþráði, frí netföng, fríar heimasíður, …………………., aðeins 1500 kr.” það hljómar betur en “3.000 kr. á ári fyrir aðgang að 1. vef”

Þetta eru hugleiðingar mínar í dag, ég bið ykkur um að koma ekki með augljóslega heimskulegar athugasemdir(eins og “þú ert asni”), svoleiðis fólk er alltaf leiðinlegt og ekki þess virði að svara. En allar þær athugasemdir sem auka umræðuna málefnalega eru allar velkomnar.

kv.
ingig