Í umræðunni um ótakmarkað eða mælt DL, hvort sem það er er innanlandsDL eða útlandaDL, hafa komið fram miklar ranghugmyndir um hvað er hvað í ADSL tengingum og Internetþjónustu um þær.

Ég ætla að reyna að leiðrétta eitthvað af þeim hér og vona að ég geti skrifað þetta sæmilega skiljanlega…alla vega takið viljann fyrir verkið….

Þegar rætt er um Internetþjónustu verður að skilja á milli aðgangsnetsins og Internetþjónustunnar. Viðskiptavinur Internetþjónustu verður að nálgast þjónustuna um eitthvert aðgangsnet, en þetta aðgangsnet er ekki hluti af Internetþjónustunni sem slíkri.

Þegar hringt er inn með mótaldi, er talsímakerfið þetta aðgangsnet. Það er öllum ljóst held ég, að símreikningurinn frá Símanum fyrir klukkutímasímtal að kvöldi til, er Internetþjónustu Islandia óviðkomandi. Viðskiptavinurinn greiðir Símanum í þessu tilviki fyrir aðgangsnetið. Hann greiðir Islandia fyrir Internetþjónustu og fær leyfi (aðgangsorð og lykilorð) til að tengjast þjónustunni um þetta aðgangsnet.

Eins er það með ADSL aðgangsnetið. Viðskiptavinur sem tengist Islandia Internet gegnum ADSL kerfi Símans greiðir Símanum 2500 krónur á mánuði fyrir tengingu upp á 256Kbps afköst. Það kemur Internetþjónustu Islandia sem slíkri ekkert við, enda er fullt af fólki að tengjast vinnustað sínum með ADSL og tengist staðarneti vinnustaðsins en hefur ekki Internetsamband þannig. Viðskiptavinurinn greiðir Islandia fyrir Internetþjónustuna og allt sem henni viðkemur eftir gjaldskrá Islandia.

Síminn Internet hefur sömu stöðu og Islandia. Aðgangsnetið og kostnaður viðskiptavinarins við það koma í raun ekki Símanum Internet ekki beint við. Það er eingöngu verðskrá Símans Internet fyrir Internetþjónustu sem um er að ræða. Fyrir fast gjald upp á 1320kr fæst ótakmarkað innanlandsDL, 3 netföng, heimasíðupláss, aðstoð í 800 7000 og 100MB af útlandaDL með meiru. Fyrir 2200 fæst sama þjónusta nema með 500MB útlandaDL.

Til eru mörg aðgangsnet og það er mismunandi hvaða Internetþjónustuaðilar veita Internetþjónustu um þau. Síminn er með talsímakerfið, ISDN, ADSL og IuB, leigulínur, ATM, Frame Relay og jafnvel eitthvað meira sem ég man ekki eftir. Lína.Net er með Loftlínu, Ljóslínu og Raflínu (nú kallað Fjöltengi og selt undir nafni Orkuveitunnar). Íslandssími er með talsímakerfi, ISDN, SDSL og ADSL og örugglega eitthvað meira (ég viðurkenni að ég þekki þjónustu þeirra ekki nógu vel). E-Max býður örbylgjulausnir. Það eru því til mörg aðgangsnet að velja um.

Sumir þeirra sem selja aðgangsnet innifela eigin Internetþjónustu í einum pakka með þeim. Aðrir gera það ekki og bjóða viðskiptavininum val. Sumum viðskiptavinum finnst það kostur að fá alla þjónustu á einum stað fyrir eitt verð. Aðrir vilja raða saman þeirri þjónustu sem þeir vilja.

Markaðurinn á að ráða….

Guðmann Bragi Birgisson